Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:11:46 (623)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eins fyrir að hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að snúa hlutunum aðeins við og af þeirri braut sem við höfum verið á, fara í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun og hverfa frá þeirri skattpíningarstefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur haldið uppi.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann nánar út í það sem hann kom inn á í ræðu sinni og snýr að því að koma framkvæmdum í gang, skapa hagvöxt og breikka skattstofnana, minnka atvinnuleysi og gefa fólki von. Hæstv. fjármálaráðherra og fleiri hv. stjórnarliðar eru alltaf að berja sér á brjóst fyrir að þeir hafi náð tökum á fjárlagahallanum. Ég hef alltaf gert athugasemdir við það að því leyti að það eina sem núverandi ríkisstjórn hefur gert þegar hér hefur ríkt stöðnun í atvinnuuppbyggingu og atvinnumálum er að skattpína fólkið í landinu sí og æ og enn á að halda því áfram sem kallar á landflótta, aukið atvinnuleysi, rýrnandi kaupmátt og aukin vanskil. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann telji, gangi þessar tillögur eftir, að hægt verði að snúa af þeirri braut sem hv. stjórnarliðar vilja ekki mikið ræða þegar talað er um hvernig þeir hafi náð tökum á rekstri ríkissjóðs. Það er alveg klárt að hliðarverkanir af því eru akkúrat þær að fólk flýr úr landi og kaupmáttur fer rýrnandi, sem við fengum staðfestingu á fyrir örfáum dögum á milli áranna 2010 og 2011 og líka að vanskil væru að aukast stórlega vegna þess hve mikið er búið að minnka ráðstöfunartekjur heimilanna. Það þarf að gefa fólki og heimilum von, skapa atvinnu og möguleika á að fólk geti séð sér farborða. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann telji ekki alveg öruggt að af þessari stefnu verði snúið ef þessar tillögur verða samþykktar. (Forseti hringir.)