Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:18:51 (627)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:18]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka formanni Framsóknarflokksins fyrir framsögu hans og það plagg sem flokkurinn kynnir hér sem innlegg í umræðu um efnahagsmál og stöðu þeirra.

Mig langar sérstaklega, vegna takmarkaðs tíma, að víkja eingöngu að þeim skattstefnuhugmyndum sem hér koma fram. Ég velti fyrir mér hvort Framsóknarflokkurinn hafi reiknað út hvaða kostnað þær aðgerðir sem þeir mundu vilja efna til hefðu í för með sér.

Þá ber þess að geta að í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi er lagt til að tryggingagjald verði lækkað, m.a. til að hvetja fyrirtæki til að ráða starfsfólk, og þar tek ég undir punkt nr. tvö í þessum tillögum. Það kemur mér reyndar á óvart að Framsóknarflokkurinn leggi til að afnema þrepaskiptingu tekjuskatts, þar sem sýnt hefur verið fram á að þær breytingar sem ráðist var í, hafa leitt til þess að um 60–70% einstaklinga í landinu borga lægri tekjuskatt eftir þrepaskiptinguna en þeir gerðu áður eða fyrir hrun. (Gripið fram í.) Ef markmiðið er að jafna álögur milli einstaklinga í samfélaginu hlýtur þrepaskipting að vera að minnsta kosti eitthvað sem flokkur sem telur sig vera á miðju stjórnmála og líberal í nálgun sinni á verkefninu, ætti að íhuga. Þess vegna kemur mér þetta á óvart. En ég hlakka til að heyra rökstuðning formannsins fyrir því, vegna þess að þegar á heildina er litið er ég mjög ánægður með að hér komi fram tillögur sem við getum rætt opinskátt og vonandi fá þessar tillögur efnislega og góða umfjöllun á vettvangi nefnda Alþingis.

Þá langar mig einnig að spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson hvort Framsóknarflokkurinn hafi velt því fyrir sér hvað það kostaði að færa persónuafslátt til fyrra horfs að raungildi. Við hljótum að líta svo á að sjálfbærni í ríkisrekstri sé mikilvæg enda trúi ég ekki öðru en Framsóknarflokkurinn fylgi þeirri stefnu. Þess vegna hlýtur maður að velta fyrir sér hvað þær aðgerðir (Forseti hringir.) sem hér eru lagðar til, kosta í peningum.