Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:57:18 (642)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson áðan að um 90% skattgreiðenda á Íslandi væru í svokölluðu öðru skattþrepi, að 10% væru annaðhvort í lægsta þrepinu eða í efsta skattþrepinu. Tekjuöflunin í því kerfi er því ekki mjög mikil.

Ég get að vissu leyti verið sammála hæstv. ráðherra, hugmynd framsóknarmanna um að hækka persónufrádráttinn er kannski ekki alveg sú leið sem ég vil fara en aftur á móti er því ekki að neita að á þessum erfiðu tímum þjónar það mjög vel þeim sem allra lægstu tekjurnar hafa og þeim sem eingöngu lifa á bótum.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í að lokum er að komið hafa fram nýjar upplýsingar frá OECD sem segja að þær skattahækkanir sem gerðar hafa verið á sl. tæpum tveimur og hálfu ári hafa leitt til þess að Ísland er orðið það land sem er með mestu skattbyrðina á einstaklinga þegar tekið hefur verið tillit til lífeyrissjóðakerfis, vegna þess að við Íslendingar búum við sjóðsöfnunarkerfi sem er fyrir utan hið opinbera meðan flestöll önnur OECD-ríki byggja á gegnumstreymiskerfi sem þarf að fjármagna. Þegar tekið er tillit til þessara tveggja þátta kemur í ljós að (Forseti hringir.) að skattar á Íslandi eru hæstir innan OECD. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að þessir skattar verði lækkaðir í (Forseti hringir.) framtíðinni til þess að gefa heimilunum meiri ráðstöfunartekjur?