Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 17:23:01 (649)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stöðugleika í efnahagsmálum sem þingflokkur Framsóknarflokksins ber fram. Ég ætla að byrja á því að óska þingflokknum til hamingju með framtakið. Þetta er gott plagg sem skiptist í eina fimm hluta þar sem tekið er á helstu vandamálum í efnahagslífi Íslendinga núna.

Ef ég byrja á fyrsta hlutanum sem er endurskipulagning skulda er hvatt til þess að verðtrygging verði afnumin í skrefum. Við hrunið var í kringum 15% lána heimilanna óverðtryggð og það merkilega hefur gerst að lánaformum hefur fjölgað mjög mikið og nú er svo komið að um 35% af öllum útlánum heimilanna eru orðin óverðtryggð. Það sem meira er er að um 90% af nýjum fasteignalánum, sem veitt eru í bankakerfinu, eru óverðtryggð þannig að það virðist gerast mjög hratt að neytenda- og húsnæðislán færast úr því að vera verðtryggð yfir í óverðtryggð. Samt sem áður er full ástæða til að hvetja til þess að verðtrygging hverfi sem fyrst í neytenda- og húsnæðislánum. En um leið vil ég kannski benda á að ég held að það sé mjög æskilegt að þessu lánaformi, verðtryggðum lánum, sé haldið í ríkisskuldum, að ríkið fjármagni sig að hluta til áfram í verðtryggðum lánum til þess að þeir fjárfestingarkostir séu í boði á markaði. Það er algjörlega í samræmi við það sem er að gerast í öðrum löndum — verðtryggðir ríkispappírar eru að aukast mjög í öðrum löndum, t.d. í Bretlandi, ég tala ekki um í nýmarkaðsríkjunum, Brasilíu, Mexíkó og fleiri löndum.

Þá er talað um skuldir heimilanna sem er náttúrlega mál málanna í dag. Ég er hjartanlega sammála Framsóknarflokknum um að það verði að eyða þeirri óvissu sem ríkir um skuldir heimila og fyrirtækja eins fljótt og hægt er. Það hefur verið nokkur slugsaháttur á því. Þriggja ára afmæli hrunsins er nýliðið og allt virðist vera upp í loft enn. Hér lesum við í blöðum staðhæfingar frá talsmönnum hagsmunasamtaka og fleirum og heyrum margar ræður í þinginu eins og í gær þar sem farið er mörgum orðum um hversu mikið sé af afskriftasjóðum í bönkunum án þess að raunverulega nokkur viti það. Ég held að það sé mjög brýnt að eyða þessari óvissu fyrir fullt og allt, að því sé komið á hreint hvernig þessi mál standa.

Jafnframt er ég hjartanlega sammála því að það sé ómöguleg staða í íslensku þjóðfélagi að bankarnir eigi orðið stóran hluta af atvinnulífinu, ef ekki beint þá alla vega de facto því að það á kannski eftir að ganga frá málum á mörgum stöðum. Það er nokkuð sem á ekki að þekkjast vegna þess að bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vita að fyrirtækjum er best komið í höndum einkaaðila. (Gripið fram í: Eða samvinnufélaga.) Hv. þingmaður grípur hér fram í og segir: „Eða samvinnufélaga.“ Ég er ekki viss um að við séum jafnsammála um það, en það er annað mál.

Síðan eru tillögur í gjaldmiðlamálum og peningastefnu, að afnema gjaldeyrishöftin eins hratt og hægt er og aðgerðir í kringum það. Hér erum við hjartanlega sammála og tölum sem einn maður. Þær aðgerðir sem þar eru lagðar til eru allar mjög skynsamlegar.

Þá er komið að þriðja hlutanum sem eru framkvæmdir og atvinna. Ég er einnig sammála Framsóknarflokknum um að það verði gert sérstakt átak í opinberum framkvæmdum án tafar vegna þess að ég trúi því að partur af því sem hið opinbera eigi að gera þegar árar eins og núna sé að fara út í þær fjárfestingar sem það getur í staðinn fyrir að gera eins og núverandi ríkisstjórn hefur gert, þ.e. að sitja með hendur í skauti og draga úr öllum framkvæmdum. Það eykur bara niðursveifluna og seinkar því að við komum upp úr öldudalnum. Þessar tillögur eru því allar skynsamlegar. Jafnframt er talað um að koma á hvötum til að liðka fyrir framkvæmdum eða ýta undir framkvæmdir og nota skattstefnuna í það. Það er allt saman skynsamlegt.

Þá eru það ríkisfjármálin. Það er ekki hægt annað en vera sammála því að það eigi að gera langtímaáætlanir í ríkisfjármálum, jafnframt eru settar fram fjármálareglur, að vísu eru þær ekki mjög formlegar en samt sem áður er hugurinn í þeim skynsamlegur. Jafnframt að hér er talað um að ríkiskerfið verði endurskipulagt með það að markmiði að lækka raunkostnað í rekstri. Um það erum við algjörlega sammála. Það verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna er að vinda ofan af hinu opinbera. Ríkið er of stórt og of dýrt til þess að það sé sjálfbært. Við eigum að nota peningana á skynsamlegri hátt og leyfa fólkinu sjálfu — það tengist næstu tillögu sem er skattstefnan — sem aflar teknanna að ráðstafa þeim. Það er á hreinu að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er betur til þess fallinn að ráðstafa aflafé sínu en hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon.

Þá er komið að seinasta liðnum, sem er skattstefnan og skattkerfisbreytingar. Lagðir eru til flatir skattar með því að leggja af þrepaskiptan tekjuskatt. Það er allt mjög skynsamlegt.

Ég finn bara eitt atriði sem ég er ekki alveg sammála vinum mínum í Framsóknarflokknum um, það er að persónuafsláttur verði hækkaður til fyrra horfs að raungildi. Ég hefði frekar viljað að skattar yrðu lækkaðir vegna þess að ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að taka einhvern þátt í þjóðfélaginu.

Þá er kannski hægt að víkja að því síðasta sem er inntökubeiðnin í Framsóknarflokkinn sem ég fékk afhenta. Að öllu gamni slepptu tel ég að þetta sé gott framtak hjá framsóknarmönnum og lýsi mig í öllum meginatriðum sammála því sem hér kemur fram og óska þeim flutningsmönnum til hamingju með hversu vel er að verki staðið.