140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Vegna orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams vil ég segja að hér hefur verið biðstaða í tvö ár, 20% heimila eru í alvarlegri fjárhagsstöðu. Við höfum hins vegar lagt til í plani B og alveg frá upphafi að stækka eigi kökuna, að auka eigi hagvöxtinn, að koma eigi fólki í vinnu og þannig auka tekjur ríkissjóðs. Og, frú forseti, þannig drögum við úr þörfinni á að skera niður, bæði á Landspítalanum og á heilbrigðisstofnunum úti á landi þar sem þegar er of langt gengið.

Ég vil nota tækifærið og spyrja enn og aftur á sama veg og við spurðum í fyrra: Hver er stefnan varðandi þetta? Á að skera þetta allt niður og færa alla þjónustu á einn stað?

Varðandi réttargeðdeildina á Sogni sem var til umfjöllunar í síðustu viku: Hver er sparnaðurinn á næsta ári? Treystir Landspítalinn sér ekki til að standa undir þeirri faglegu þjónustu vegna þess að það þarf að keyra korteri lengur út á Klepp en í Ölfus? Snýst þetta virkilega um það? Erum við ekki með eitt atvinnusvæði?

Að lokum vil ég taka undir það mál sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ræddi fyrr í dag um þá undarlegu stöðu sem komin er upp þegar menn eru farnir að velta því fyrir sér hver eigi að bæta tjón eftir jarðskjálfta. Jarðskjálfti er jarðskjálfti og það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til okkar, ef það liggur ekki fyrir í dag í lögunum, að það sé skýrt að þeir sem verða fyrir tjóni geti fengið eðlilegar bætur. Og ég held að það verði eitt af því sem við verðum að taka upp.

Ég skil það ekki þegar menn koma hingað upp og hrósa sér af gríðarlegum árangri. Auðvitað hefur árangur náðst, skárra væri það. En það er enn allt of mikið atvinnuleysi. Við erum enn á leiðinni að skera niður og hækka skatta. Það er röng leið. Við þurfum að fara aðra leið, hina leiðina. Plan B er leiðin.