Fjárhagsleg endurskipulagning í rekstri bænda

Fimmtudaginn 20. október 2011, kl. 11:01:09 (838)


140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning í rekstri bænda.

[11:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Það er vissulega rétt að það hefur gengið óþarflega hægt og óeðlilega hægt að vinna úr skuldamálum bænda. Ég tek eftir að hv. þingmaður nefnir bara aðra ástæðuna sem eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun nefnir sem mögulega skýringu á þessu. Hin er sú að greiðsluflæðiskerfið úr hinni opinberu umgjörð búvörusamninganna sé með þeim hætti að það valdi því að bankarnir telji sig geta tryggt sér ákveðið greiðsluflæði á síðari stigum og það torveldi úrvinnslu málsins líka.

Það sem skiptir miklu máli er að finna leiðir til að vinna úr þessu því að það er jafnófært fyrir bændur að reka bú sín með skuldahengju yfir sér og alla aðra atvinnurekendur í landinu og öll heimili í landinu. Þess vegna hefur markmið okkar frá upphafi verið að bankarnir eigi ekki að viðhalda skuldsetningu upp á von og óvon á grundvelli t.d. kerfisbundins ofmats á eignum eða ofmats á mögulegu greiðsluflæði heldur eigi þeir þvert á móti að laga skuldirnar hratt og örugglega að greiðslugetu og afrakstursgetu atvinnurekstrarins. Það skiptir miklu að það gerist fljótt því að ella hættum við auðvitað á það að þeir sem reka fyrirtæki sín, bú sín í þessu tilviki, leggi sig ekki fram við reksturinn og það er auðvitað það versta sem getur gerst fyrir nokkurn atvinnurekstur að menn missi hvatann til að gera vel og vanda sig í rekstri. Það getur hæglega orðið niðurstaðan ef bankar afskrifa ekki hratt og mikið í byrjun.