Leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar

Fimmtudaginn 20. október 2011, kl. 14:29:16 (893)


140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:29]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það að ég er hissa á því hversu fáir þingmenn úr öðrum flokkum sitja hér inni og hlusta og taka þátt í umræðum um það málefni sem brennur einna heitast á flestum heimilum landsins.

Ég er komin hingað upp til að vekja athygli á athugasemd sem ég fékk eftir að hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrr í dag, athugasemd sem kom í tölvupósti til mín. Þar skýrði einstaklingur frá því að þegar bankarnir reikna út 110%-leiðina taka þeir fasteignamatið á eigninni plús lóðarmatið. Ég held að þetta eigi fyrst og fremst við um Íbúðalánasjóð, en þess má geta að einstaklingar leigja yfirleitt lóðina sem fasteignin stendur á en eiga hana ekki. Það er því mjög einkennilegt að lánastofnanir séu að taka verðmat á lóð undir fasteign þegar verið er að draga allar eignir sem fólk á frá niðurfellingunni. Niðurstaða þessa einstaklings var sú að 110%-leiðin er sennilega 120% leið í flestum tilvikum vegna þessa frádráttar.