Þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 20. október 2011, kl. 16:37:42 (929)


140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:37]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem eðlilegt er að rædd verði og farið yfir af fyllstu alvöru í þingnefnd. Ég hefði alveg eins getað horft til þess að prósentustigið væri lægra frekar en hærra í þessu viðmiði. Þetta er fyrst og fremst spurning um það hvort það eigi að vera nokkurt slíkt viðmið. Að mínu mati á kjararáð að hafa alveg frjálsar hendur um það að ákvarða laun þingmanna eins og annarra starfsstétta fyrst og fremst sem grunnlaun sem lykilþátt í því hver hin almennu laun eru en ekki að vera að byggja ofan á grunninn einhverja turna og byggingar fram og til baka sem enginn skilur. Þetta á að vera gegnsætt og opið og það skiptir máli að þingið komi launamálaumræðum sínum út úr þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)