Líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 02. nóvember 2011, kl. 18:53:18 (1121)


140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

93. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Í tvö ár hefur umræðu verið lokið um þetta mál í samgöngunefnd en ekki hefur náðst að koma því til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Líkanprófunum er öllum lokið en það á eftir að ganga frá skýrslu og reikna út mælingar sem stundaðar hafa verið bæði á svæðinu við Vestmannaeyjar og í líkanstöð Siglingastofnunar. Það skiptir miklu máli að flýta þessu vegna þess að tafir á málinu eru þegar farnar að hafa áhrif á hvernig stóru skipafélögin endurnýja flutningaskip sín. Stór flutningaskip, eins og þau eru núna í þróuninni, geta ekki lagst að bryggju í Vestmannaeyjahöfn sem er þó stærsta útflutningshöfn landsins utan Reykjavíkur, í stærstu verstöð landsins. Það er mikilvægt að þetta gangi eftir.

Einnig er mikilvægt að þessi stóra útflutningshöfn sem er næst Evrópu þjóni skyldum við landið allt og það mun aukast jafnt og þétt með siglingum til Landeyjahafnar. Og þá til að mynda minnkar þörfin á Schengen-samstarfinu, sem ég tel að við eigum að ganga úr. En það er annað mál.

Þessi lokaúttekt sem er í raun skrifborðsvinna þarf að ganga hratt eftir og ég vona að tillagan dagi ekki uppi eina ferðina enn í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar.