Frekari niðurskurður í velferðarmálum

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 14:00:12 (1247)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

frekari niðurskurður í velferðarmálum.

[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin sem ég ætla að bera upp er nokkuð tengd þeirri umræðu sem hefur verið hér um byggðamál en snýr að sjálfsögðu að þeim verkefnum er hæstv. velferðarráðherra sinnir, þ.e. opinberum störfum sem heyra undir ráðherrann þar á meðal störfum á heilbrigðisstofnunum.

Nú hefur það komið í ljós sem við spáðum þegar farið var að skera niður að starfsfólki yrði óhjákvæmilega fækkað. Það hefur það verið athugað og sett á blað að í sveitarfélaginu Skagafirði hefur opinberum störfum fækkað um 31 frá því í ársbyrjun 2008 og við þurfum í rauninni ekki að spyrja út í það hvaðan þau störf hafa horfið. Íbúum í sveitarfélaginu hefur fækkað um 80 á þessu ári en samt verður að segjast eins og er að í þessu sveitarfélagi hefur sem betur fer ríkt meiri stöðugleiki en í mörgum öðrum. Samt er þetta niðurstaðan. Það er verið að fækka opinberum störfum, ríkið er að skera niður. Að sjálfsögðu þarf að skera niður en hvar er verið að skera niður? Það er verið að skera niður hjá heilbrigðisstofnununum, það er verið að skera niður í kvennastörfunum og það er bein fylgni milli fækkunar þessarar starfa og fólksfækkunarinnar.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þeirri ályktun sem gerð var á landsfundi Vinstri grænna um að ekki beri að skera meira niður í heilbrigðiskerfinu. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að sá liður fjárlaga verði tekinn upp í takti við það sem Vinstri græn ályktuðu? Það er alveg ljóst að verði haldið áfram á sömu braut þýðir ekkert að kenna öðrum um hvernig staðan er í byggðamálum eins og mér finnst ráðherrar Samfylkingarinnar gjarnan gera og gleyma því að þeir eru búnir að vera í ríkisstjórn frá árinu 2007. Það vill gjarnan gleymast. Þessir ágætu ráðherrar hafa því haft nægan tíma til að bregðast við byggðamálum.