Fjáraukalög 2011

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011, kl. 14:25:19 (1469)


140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef gjöldin fyrir umferðina duga ekki til að greiða vexti af láninu, og þá tala ég um raunvexti, mun lánið hrannast upp og þá dugar ekkert að skuldbreyta eða framlengja í lánum heldur mun einhvern tíma þurfa að taka á vandanum. Ég hef grun um að það geri enginn nema ríkissjóður, enginn annar.

Varðandi lífeyrissjóðina vil ég bara spyrja hv. þingmann: Hverjir skyldu eiga réttindi í lífeyrissjóðunum? Hverjir eru það aðrir en sjóðfélagar? Og á móti réttindunum standa allar þessar miklu eignir þannig að ég fullyrði að sjóðfélagarnir eiga réttindin og þar með eignirnar sem standa á móti réttindunum. Það eru sem sagt heimilin í landinu sem eiga lífeyrissjóðina, eign sem nemur um 17 millj. kr. á hvert einasta heimili. Það sem hv. þingmaður er að tala um er að skattleggja heimilin. Hann er að tala um að skattleggja heimilin til að bjarga einhverjum öðrum heimilum. Þar fyrir utan gleymir hv. þingmaður því að stórir lífeyrissjóðir eins og LSR eru með ríkisábyrgð og þurfa að hækka iðgjaldið, bæði til A- og B-deildar, ef einhverjar álögur eru lagðar á þá. Sjóðfélagar í almennu sjóðunum þurfa því að sætta sig við skerðingu á réttindum sínum vegna skattlagningar því að eignirnar verða minni á móti réttindunum og réttindin verða talin minna virði, og þeir þurfa líka að sætta sig við að borga hærri skatta vegna hærra iðgjalds ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þau eru því lestuð tvöfalt, þ.e. hin almennu heimili þar sem ekki er um að ræða opinbera starfsmenn.