Fjáraukalög 2011

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011, kl. 16:02:52 (1487)


140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:02]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Forseti. Þetta eru ágætisumræður hér í þinginu. Í upphafi máls míns vil ég taka fram, að þegar framkvæmdir við Hörpu stöðvuðust á sínum tíma hefði mér helst hugnast að hún yrði bara látin standa eins og hún var þangað til að til væru til peningar til að klára hana, sem minnismerki um þá bilun sem var hér í gangi í samfélaginu. Ég segi eftir á að hyggja, sem betur fer fékk ég ekki að ráða þessu því að þegar upp er staðið er Harpa mjög glæsileg bygging og til sóma fyrir allt landið. Hún er dýr, en af því að við gerum hér fjármögnun Hörpu að umtalsefni sem og Vaðlaheiðargöng, þá er grundvallarmunur þar á.

Hjá Hörpu er til tekjuáætlun á móti skuldunum. Sú tekjuáætlun byggist að vísu að mestu leyti á tekjum frá ríkissjóði og frá sveitarfélaginu Reykjavík en það er til tekjuáætlun. Í forsendum fyrir Vaðlaheiðargöng, sem ég ítreka enn einu sinni að ég tel að séu hin mesta samgöngubót, er ekki til nein tekjuáætlun á móti þeim lánum sem á að veita og heimildum til lána. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Kristján Möller, sem er í stjórn Vaðlaheiðarganga hf.: Hvar er tekjuáætlunin fyrir Vaðlaheiðargöng hf.? Og að auki, þar sem mér finnst svolítið óeðlilegt að hv. þingmaður sé í stjórn þessa fyrirtækis og tali jafnframt fyrir því hér á þingi, fær hann greitt fyrir stjórnarsetuna í því fyrirtæki?