Málefni innflytjenda

Þriðjudaginn 15. nóvember 2011, kl. 14:17:42 (1662)


140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Þegar ég lærði og starfaði í Svíþjóð um árabil leigði ég íbúð með tveimur stúlkum frá Finnlandi. Eitt kvöldið komu þær ævareiðar upp úr þvottahúsinu og kvörtuðu sáran undan þessum óþolandi innflytjendum sem kynnu ekki umgengnisreglurnar í þvottahúsinu. Þegar ég benti þeim á að þær væru nú sjálfar innflytjendur skildu þær ekki hvað ég var að tala um og urðu bara enn reiðari. Þannig virtist þeim ekki hafa dottið í hug að skilgreina sig sem innflytjendur, hugsanlega vegna ljóss háralits og blárra augna, jafnvel þó að finnskir innflytjendur hefðu orðið fyrir margs konar fordómum í Svíþjóð og gengið misjafnlega að aðlagast samfélaginu.

Orðið aðlögun skiptir miklu máli. Í málefnum innflytjenda höfum við framsóknarmenn lagt áherslu á samþættingu eða aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Mikilvægt er að innflytjendur geti nýtt hæfileika sína til fullrar þátttöku í samfélaginu. Lykillinn að því er kunnátta í íslensku. Það var ekki fyrr en ég gat farið að tjá mig á sænsku sem ég eignaðist raunverulega sænska vini. Fyrst þá upplifði ég mig sem fullan þátttakanda í sænsku samfélagi í samskiptum við opinberar stofnanir, í vinnunni og í náminu. Að sama skapi upplifði ég sterkt hversu íslensk ég er og löngun mína til að halda í íslenskar hefðir og siði.

Aðlögun verður þegar þjóðernisminnihlutar leggja sig fram við að tileinka sér ráðandi menningu og tungumál í nýju landi en leggja jafnframt áherslu á að viðhalda eigin menningu og tungu. Þetta er ekki auðvelt. Þó að dregið hafi úr streymi innflytjenda til Íslands eftir bankahrunið verðum við að halda áfram að vinna að málefnum þeirra og þá vil ég sérstaklega að nefna málefni atvinnulausra innflytjenda.

Ísland var lengi vel mjög einangrað og einsleitt land. Þökk sé innflytjendum, auknum langdvölum Íslendinga erlendis og breyttum fjarskiptum að fjölbreytnin hefur aukist. Menning okkar hefur orðið fjölmenningarlegri en hún er ekki enn þá fjölmenningarleg.