Málefni innflytjenda

Þriðjudaginn 15. nóvember 2011, kl. 14:24:20 (1665)


140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:24]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Við eigum sem samfélag að bjóða innflytjendur og flóttamenn velkomna og stjórnsýsla okkar, stjórnmál og samfélag á að vera þannig í stakk búið að það sé gert. En á sama tíma og við tökum á móti flóttafólki og viljum gera það vel, verðum við líka að horfa á rót vandans og reyna að haga framlagi okkar á vettvangi alþjóðasamstarfs í þá vegu að reyna að stemma stigu við fólksflótta í veröldinni. Til ársins 2050, á næstu 40 árum, mun fólki fjölga um allt að 3 milljarða í þróunarríkjunum. Við þurfum á vettvangi Evrópusambandsins, hjá Sameinuðu þjóðunum að takast á við þessa rót vandans. 1% af tekjum okkar breytir litlu í samfélagi okkar en getur breytt öllu hjá hinum fátækustu. Djörf og afgerandi stefna á heimsvísu og framkvæmd hennar varðandi fólksfjölgun í fátækustu ríkjunum kostar minna en 1/10 af 1% af tekjum í ríkari löndunum. Á 15 árum þyrfti um 1% af tekjum ríkustu landanna í fjárfestingu til að koma fátækustu ríkjunum úr viðjum fátæktar. Það væri hægt að framkvæma slíka stefnu á 15 árum.

Þetta er sá vandi sem við blasir í heimsmálunum og þetta er vandi af þeirri tegund sem verður ekki leystur á vettvangi þjóðríkisins. Þetta er vandi sem einungis verður tekist á við í samstarfi þjóða, hvort sem það er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða hjá Evrópusambandinu eða öðrum ríkjabandalögum sem þjóðir koma sér upp. En þannig og einungis þannig verður hægt að takast á við þennan mikla og afgerandi vanda sem við blasir í heiminum.