Umræður um störf þingsins 16. nóvember

Miðvikudaginn 16. nóvember 2011, kl. 15:42:52 (1767)


140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum upplifað það undir þessum lið að þau tíðkast hin breiðu spjótin og það á við hér í dag á þingi. Mér þykir mjög leitt að heyra þennan mikla óróleika í salnum og vonast til að menn andi með nefinu og reyni að einbeita sér að því sem skiptir máli.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að átta sig á hver staðan í samfélaginu er. Það var því fagnaðarefni að hinn glöggi hv. þm Birkir Jón Jónsson skyldi koma hingað upp áðan og vekja athygli á þeirri staðreynd að fjölga þurfi störfum í samfélaginu. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum okkar. Ég tel að það yrði til þess að koma okkur aðeins áfram og úr því leiðinlega fari sem við virðumst vera í í dag ef við mundum ræða hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina. Hvaða framtíðarsýn erum við með hér fyrir fólkið í landinu sem er án atvinnu? Ég hef áhyggjur af því að hér er verið að ræða um að lengja það tímabil sem hægt er að taka á móti atvinnuleysisbótum. Það er ekki lausn. Það er hins vegar minni áhersla lögð á að fjölga þeim störfum sem eru í boði fyrir þá sem eru án atvinnu. Það er rétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að vekja athygli á því hér í þinginu. Ég fagna því að þessi yfirlýsing hafi komið fram og ég vonast til þess að hæstv. ráðherrar, sem bera ábyrgð á þessum málaflokki og þá sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem er nú verkstjóri ríkisstjórnarinnar, muni koma fram í þinginu innan skamms og gefa okkur skýrslu um það með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar sér að fjölga hér störfum og koma þá með raunhæfar leiðir til þess í staðinn fyrir að telja alltaf upp sömu störfin og fagna því að atvinnuleysi hafi minnkað þegar sú sára staðreynd blasir við okkur öllum að menn eru einfaldlega að flytja af landi brott.

Ég fagna því að það virðist vera komin örlítil ró í salinn eftir þessa ræðu mína og hlýt því að líta svo á að allir þingmenn séu nú meðvitaðir um það að (Forseti hringir.) einbeita sér að því sem mestu máli skiptir. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)