Fjáraukalög 2011

Miðvikudaginn 16. nóvember 2011, kl. 16:40:26 (1809)


140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi breytingar á fjárheimildum.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur allt að 788,9 millj. kr. til hækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, og 3. gr. um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Heildartekjur ársins 2011 verða því 480.643,8 millj. kr. og heildargjöld 527.345 millj. kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 46.701 millj. kr.

Ég ætla að fara yfir þær breytingar sem nefndin gerði á frumvarpinu á milli umræðna. Ber þar fyrst að nefna hækkun fjárheimilda til innanríkisráðuneytis sem nemur 185 millj. kr. Þær eru af tvennum toga. Annars vegar er fjárveiting til Umferðarstofu vegna þess að endurskoðuð rekstraráætlun sýnir að 85 millj. kr. vantar upp á í rekstri stofnunarinnar á árinu 2011. Fjárlaganefnd ræddi þetta mál mikið og kallaði fyrir sig innanríkisráðuneytið út af þessari breytingu. Sambærileg breyting var gerð í fjáraukalögum ársins 2010 og telur fjárlaganefnd hér um mjög vont fordæmi að ræða. Hins vegar var ákveðið að veita stofnuninni þessar 85 millj. kr. en á móti kemur niðurskurðarkrafa til viðbótar við það sem þegar er áætlað í frumvarpi til fjárlaga ársins 2012 á innanríkisráðuneytið sem nemur þessari fjárhæð.

Þá er veitt 100 millj. kr. framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Á yfirstandandi ári hafa 300 millj. kr. af 700 millj. kr. aukaframlagi ársins 2011 farið til sveitarfélagsins Álftaness. Það var hins vegar þannig að sú skipting lá ekki fyrir við afgreiðslu fjárlaga árið 2011 og er því komið til móts við önnur sveitarfélög sem njóta góðs af aukaframlaginu með þessum 100 milljónum.

Þá er liðnum Ófyrirséð útgjöld veitt heimild til 300 millj. kr. útgjalda vegna kostnaðaráhrifa af nokkrum kjarasamningum sem hafa verið gerðir í haust eftir að gengið var frá samningu við velflest stéttarfélög opinberra starfsmanna.

Felld er niður eða lækkuð fjárheimild til iðnaðarráðuneytis vegna tekna af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða þar sem ekki verður úthlutað úr sjóðnum sem þetta fjármagn á að fara í fyrr en á næsta fjárlagaári. Hluti þeirrar fjárhæðar, þ.e. 41,9 milljónir eru fluttar á Umhverfisstofnun til að standa straum af kostnaði við brýnar lagfæringar sem gerðar voru í vor á aðstöðu á friðlýstum svæðum og fjölsóttum ferðamannastöðum sem hefur farið hnignandi vegna fjölgunar ferðamanna.

Þá gerum við tillögu um hækkun fjárheimildar Fjármálaeftirlitsins. Reyndar hefur komið fram breytingartillaga frá formanni nefndarinnar við þá tillögu. Stofnunin fær 213 milljónir í viðbótarframlag vegna aukinna útgjalda. Fjölga þarf þeim eftirlitsverkefnum sem stofnunin á að sinna, t.d. með skilanefndum og slíku. Eins eru breytingar gerðar á eftirlitinu í kjölfar úttektar franskra sérfræðinga. Einnig ber að geta þess að tekjuöflunarheimildir stofnunarinnar voru hærri en fjárlagaheimildir. Hefur fjárlaganefnd lagt mikla áherslu á að samræmis verði gætt fyrir næsta fjárlagaár hvað tekjuöflun og útgjaldaheimildir varðar fyrir Fjármálaeftirlitið.

Þá var í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. kölluð til baka tillaga vegna skammtímaláns vegna tónlistarhússins Hörpu. Það var gert vegna orðalags. Nú hljóðar heimildargreinin svo: „Að veita Austurhöfn-TR skammtímalán, allt að 400 millj. kr., þar til samið hefur verið um langtímafjármögnun verkefnisins.“ Fjárlaganefnd bætti einnig við hámarki á þá skuldbindingu sem Austurhöfn er leyft að gera fyrir hönd ríkisins út af framkvæmdum við tónlistarhúsið, en við teljum mjög mikilvægt að það sé Alþingi sem taki ákvörðun um þær fjárheimildir sem fyrirtækið hefur úr að moða. Einnig er vert að taka fram að bæði ríki og borg sem eigendur hússins eru að móta sérstaka eigendastefnu varðandi rekstur hússins.

Undir álit meiri hlutans rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Þuríður Backman.