Samningar um sölu sparisjóðanna

Fimmtudaginn 17. nóvember 2011, kl. 10:33:51 (1831)


140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

samningar um sölu sparisjóðanna.

[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við heyrðum mikið talað um gagnsæi opinberrar stjórnsýslu, það voru einkennisorð núverandi ríkisstjórnar. Meira að segja var settur á laggirnar sérstakur stjórnsýsluskóli Stjórnarráðsins þar sem þekktir álitsgjafar kenndu ráðherrum hvernig ætti að fara fram í þessum málum. Síðan hafa leynd og launráð einkennt störf hæstv. ríkisstjórnar.

Mörg dæmi er hægt að nefna, t.d. hafa samningar milli gömlu og nýju bankanna enn ekki litið dagsins ljós. Svör Seðlabankans um Sjóvá – Almennar eru núna í kæruferli. Hæstv. forsætisráðherra samþykkti Icesave 1 án þess að hafa lesið samninginn og fór fram á það, virðulegi forseti, að þingið mundi klára það mál á viku. Hv. þingmenn áttu ekki að fá að sjá samninginn og hann kom fyrst á internetinu áður en hann kom fyrir augu þingmanna.

Núna rétt áðan voru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar stjórnarliðsins að samþykkja milljarðatugaskuldbindingu sem enginn veit hver er. Ég vek athygli á því að gögn í því máli sem kallað hefur verið eftir hvað eftir annað hafa ekki fengist. Í gær var dreift hér, eftir mikla eftirgangsmuni, rétt fyrir umræðuna, samningnum í tveimur útgáfum, með enskum texta og með íslenskum. Það var alveg ljóst að ekki var nokkur einasta leið fyrir hv. þingmenn, ekki nokkur leið, að kynna sér efni þessa máls sem, virðulegi forseti, snýst um milljarðatugi fyrir skattgreiðendur landsins.

Spurning mín er einföld: Hvernig getur hæstv. forsætisráðherra varið (Forseti hringir.) þessi vinnubrögð?