Drekasvæði

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 16:45:32 (1901)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Drekasvæði.

241. mál
[16:45]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við leggjum mjög mikla áherslu á að sú þjónustumiðstöð verði hér á landi. Það eru margar ástæður fyrir því. Það er að mínu mati mun betri kostur að hafa hana hér heldur en t.d. á Jan Mayen vegna þess að horfa þarf til þess hversu mikið ósnortið land þar er, auk þess sem ég tel að allar aðstæður séu betri hér til þess. Við leggjum á það mjög þunga áherslu að svo verði. Ég tel að við höfum töluvert mikið með okkur í þeirri áherslu.

Varðandi fundinn í janúar á þar að ræða og fara yfir árangur síðasta árs og farið verður yfir það sem fram undan er á næsta ári. Ég kom því ekki að áðan að fyrirhugaðar eru rannsóknir, áframhaldandi rannsóknir, strax næsta vor í samvinnu þessara tveggja ríkja. Þar er um að ræða annars vegar svokallaðar flugsegulmælingar og hins vegar svokallaðar endurkastsmælingar. Ég ætla að biðja hv. þingmann að spyrja mig ekki nánar út í það, en þessar mælingar skipta engu að síður miklu máli. Þarna er um að ræða samstarf milli Orkustofnunar og norsku olíustofnunarinnar.

Þetta samstarf beggja aðila heldur áfram. Við erum sammála um það. Í samtölum mínum við ráðherra málaflokksins í Noregi erum við sammála um að það séu hagsmunir beggja að vinna þétt saman í þessum málum. Við höfum gert töluverðar breytingar á lagaumhverfi okkar til þess að vera á sambærilegum stað og Norðmenn eru í sínu lagaumhverfi. Þetta á við um skatta og alla aðstöðu sem hér er boðið upp á og allt starfsumhverfi fyrir þennan iðnað þannig að við séum fullkomlega samkeppnisfær þegar að þessu kemur.

Mælingarnar í sumar segja mér að ég get leyft mér að vera bjartsýn á að mjög jákvæðar niðurstöður verði úr því útboði sem nú stendur yfir af okkar hálfu en niðurstaðan verður í apríl. Auðvitað er aldrei hægt að lofa neinu en ég ætla að leyfa mér að segja að niðurstöður sumarsins gefi (Forseti hringir.) ansi sterkan byr í seglin.