Fjárlög 2012

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 15:45:05 (2199)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á tveimur atriðum sem ég tel að gefi ekki rétta mynd af stöðu ríkissjóðs. Annars vegar eru það sérstakar vaxtabætur upp á 1,4 milljarða en nefndina vantar upplýsingar um það hvernig þær skiptast á milli almennu sjóðanna og opinberu sjóðanna. Við vitum að ríkið er með 400 milljarða skuldbindingu á bakinu vegna opinberu sjóðanna og því er mjög sérkennilegt að tekjufæra vaxtabætur sem koma úr opinberu sjóðunum vegna þess að ríkisábyrgð er á því öllu saman.

Síðan vil ég líka vekja athygli á lækkun vaxtagjalda um 591 milljónir en hún felst í því að verið er að breyta útgáfu á ríkisbréfum. Útgáfa óverðtryggðra ríkisbréfa minnkar en útgáfa verðtryggðra ríkisbréfa eykst aftur á móti. Það sem gerist er að verðbæturnar færast um höfuðstól. Það eru heldur ekki gerðar neinar breytingar á 5. gr. Ég tel því mjög mikilvægt að nefndin skoði þetta á milli 2. og 3. umr.