Sjúkratryggingar

Föstudaginn 02. desember 2011, kl. 15:55:58 (2434)


140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[15:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir svarið. Það sló mig reyndar ögn hvað hann sagði um Sjúkratryggingar Íslands, að menn væru í raun að velta fyrir sér sjúkratryggingum. Einhver þarf að inna af hendi það verkefni sem sjúkratryggingar inna af hendi, því er ekki að leyna, og það var ljóst að þegar greint var á milli í almannatryggingakerfinu, Sjúkratrygginga annars vegar og Tryggingastofnunar hins vegar, ríkti allhressileg andstaða í hópi í það minnsta Vinstri grænna við málið. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það eigi aftur að færa þetta saman þar sem við ræddum og samþykktum frumvarp rétt áðan þess eðlis að Sjúkratryggingar eigi að koma upp lyfjagagnagrunni og þess háttar til að halda utan um greiðsluþátttöku í kostnaði notenda við lyfjakaup. Skildi ég hæstv. ráðherra rétt, að hann væri að velta fyrir sér starfsemi Sjúkratrygginga eða að færa verkefnið frá Sjúkratryggingum aftur á annan stað í ráðuneyti eða eitthvert annað, eða hvað átti hæstv. ráðherra við þegar hann talaði um að verið væri að skoða Sjúkratryggingar? Í dag eru Sjúkratryggingar í það minnsta af tæknilegum ástæðum ekki í stakk búnar til að sinna því verkefni sem þeim var falið með lögum 2007 vegna þess að starfsmenn frá landlæknisembættinu og ráðuneytinu sem færa átti til samkvæmt þeim lögum hafa ekki verið fluttir til. Hvað átti hæstv. ráðherra við þegar hann sagði að verið væri að skoða Sjúkratryggingar?