Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 11:32:01 (2843)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að eftir þessa 1. umr. verði málinu vísað til nefndar. Nú vill svo til að aðeins einn nefndarmaður hefur birst hérna í salnum, er reyndar farinn núna, hann er stjórnarandstæðingur. Engir aðrir nefndarmenn hafa setið hér. Ég veit ekki til hvers þessi umræða er. Ég er ekki í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég get ekki borið nefndinni þá umræðu sem hér fer fram. Ég óska eftir því, frú forseti, að til dæmis formaður nefndarinnar sé viðstaddur umræðuna, og varaformaður, þannig að umræðan berist einhvern veginn til þeirra. Það er móðgun við hv. Alþingi að nefndin skuli ekki vera viðstödd umræðu um mál sem verður væntanlega vísað til hennar.

Þetta var um formið. Síðan ætla ég að tala pínulítið um listamennina. Það er og verður alltaf vandræðamál að aðgreina hvar listin hefst og hvar hún endar og hvort hlutir séu nytsamlegir eða ekki. Arkitektar hanna til dæmis listaverk, svo er spurning hvort húsin séu nytsamleg eða ekki. Sum þeirra eru alls ekki nytsamleg, sérstaklega sum opinber hús, þannig að þar getur maður velt fyrir sér hvort um er að ræða listaverk o.s.frv. Ef húsin eru úr leir gætu þau hugsanlega fallið undir það. Það er mjög erfitt að greina þarna á milli. Vandinn í þessu kerfi öllu saman er að virðisaukaskatturinn er orðinn of hár. Það er vandinn og þess vegna eru menn að reyna að komast undan honum en það hefur líka þær afleiðingar að menn geta ekki dregið frá innskatt sem getur í sumum tilfellum verið neikvætt. Allt þetta kerfi með undanþágum, afbrigðum, tilbrigðum o.s.frv. gerir ekkert annað en að flækja kerfið.

Það er rétt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði rétt áðan, 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, að flækjustigið er mjög skaðlegt. Þótt það kunni að búa til atvinnu, það gerir það vissulega, það býr til atvinnu fyrir fyrirtækin í landinu sem þurfa að sinna þessu flækjustigi, hjá endurskoðendum og öðrum einstaklingum sem þurfa að sinna flækjustiginu. Ég fór í gegnum hvernig það er að fara eftir 7. gr. frumvarpsins, um að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu á vinnustað, ég gerði það, og það er flækjustig. Ég þurfti að vinna helling til að fá endurgreitt og ég hugsa að ég hafi ekki verið með neitt voðalega hátt tímakaup. Þar fyrir utan þurfti iðnaðarmaðurinn að búa til skýrslu sem kostaði hann líka vinnu. Svo er þetta ekki þannig að það sé einhvern veginn þjóðhagslega arðbært, það er verið að endurgreiða það sem búið er að greiða eða lækka það sem á að greiða. Þetta er vinna sem er búin til og skapar ekki nokkurn einasta auð í þjóðfélaginu og þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra enn einu sinni að fara nú af þessari braut flækjustigs og skattahækkana og reyna að búa til bæði einfaldara kerfi og minni skattáþján.

Út af fjárlagaumræðunni reiknaði ég í gær út hvað hefði orðið af þessum 50 þús. kalli sem menn fengu í sumar, almennir launþegar. Þeir sáu minnst af honum sjálfir, hann fór mest megnis til ríkisins. Atvinnurekendur þurftu að borga tæpar 60 þús. kr. og launþeginn sá nánast ekkert eða tæplega 40%, ef ég man rétt, eftir því í hvaða skattþrepi hann var. Nú eru komin þrjú skattþrep þannig að það er alls staðar verið að flækja skattkerfið.

Það sem ég ætlaði að koma inn á sérstaklega er 7. gr. frumvarpsins sem menn hafa dásamað, framtakið Allir vinna. Framtakið býr til mikla vinnu fyrir alla þannig að það skapar vissulega atvinnu og hefur örvað menn til að fara út í framkvæmdir sem þeir hefðu ella ekki farið í. Það er jákvætt að því leyti að það skapar vinnu hjá viðkomandi iðnaðarmönnum fyrir utan að skapa vinnu hjá endurskoðendum og bókhaldsvinnu fyrir iðnaðarmennina, sem ekki kemur fram í því að þeir skapi neitt, og bókhaldsvinnu fyrir þá sem sjá um að greiða til baka. Þetta er að því leyti jákvætt ef menn líta á það sem meginmarkmið að skapa atvinnu með svona aðferðum. Þá getur maður bara tekið að sér að flytja Esjuna suður fyrir Reykjavík, það mundi líka skapa heilmikla atvinnu en yrði ekki endilega þjóðhagslega skynsamlegt.

Ég bendi á að allt þetta bókhald og allt það sem menn eru að gera (Gripið fram í.) er ekkert annað en flækjustig, þetta frumvarp gengur allt saman út á að flækja skattkerfið, bæði endurgreiðslan og fyrir listamennina. Það flækir kerfið að breyta reglunum.

Hér er verið að breyta enn einu sinni. Mér skilst að ríkisstjórnin sé búin að breyta 100 atriðum í skattalögum og sennilega 120 nú, (Gripið fram í: 140.) 140, já, þetta hækkar bara með hverri mínútunni. Ég geri ráð fyrir því að nú þurfi endurskoðendur að læra enn meira og iðnaðarmenn og útgerðarmenn og aðrir þurfa allir að læra og læra. Það kostar líka vinnu en gefur þjóðfélaginu ekki neitt. Ég vara við þessum endalausu breytingum á skattalögum og vildi heldur sjá einfaldara skattkerfi, réttlátara og eitthvað sem hvetti menn til að vinna en ekki eitthvað sem letur menn vegna þess hve háir skattarnir eru orðnir.