Fólksflutningar og farmflutningar á landi

Laugardaginn 17. desember 2011, kl. 11:05:35 (3570)


140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[11:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp felur það í sér að útvíkka heimild til samninga um almenningssamgöngur frá einstökum sveitarfélögum til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Landshlutasamtök sveitarfélaga eru þegar farin að samræma og samhæfa almenningssamgöngur innan sinna svæða og á milli svæða og nefni ég þar Suðurland sérstaklega, góðu heilli, sem gengið hefur frá slíkum samningum en aðrir landshlutar eru með samninga í burðarliðnum.

Sá skilningur hefur komið fram að þetta frumvarp þrengi að ferðaþjónustunni á einhvern hátt. Það er mikill misskilningur. Þetta frumvarp breytir engu þar um. Hins vegar er mikilvægt að landamærin á milli almenningssamgangna annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar séu skýr. Ég lýsti því yfir við 2. umr. um þetta mál í gær að ég mundi skipa starfshóp til að skilgreina þessi landamæri á milli almenningssamgangna og ferðaþjónustu og verður höfð hliðsjón af niðurstöðum hópsins (Forseti hringir.) við endurskoðun laga um almenningssamgöngur.