Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 53. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 53  —  53. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan sannleiksnefndar til rannsóknar á málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Þráinn Bertelsson, Margrét Tryggvadóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir,
Skúli Helgason, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Lúðvík Geirsson, Sigurður Ingi Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis í samráði við forsætisnefnd að skipa sannleiksnefnd til að rannsaka málsmeðferð svonefndra Guðmundar- og Geirfinnsmála.
    Sannleiksnefndin fari ítarlega yfir alla málsmeðferð og rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála frá því á áttunda áratug 20. aldar.
    Nefndin verði skipuð þremur einstaklingum: lögfræðingi, sagnfræðingi og reynslumiklum fjölmiðlamanni. Hún skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. október 2012.
    Nefndin hafi óheftan aðgang að öllum gögnum málanna og leitist við að kalla til alla þá sem enn lifa og komu við sögu í rannsókn þeirra og málsmeðferð.

Greinargerð.


    Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru einhver umdeildustu dómsmál í íslenskri sögu. Ekki þarf annað en lesa dómsniðurstöðuna og ýmis þeirra skjala sem aðgengileg eru til að sannfærast um að niðurstaðan er svo málum blandin, og er þá vægt til orða tekið, að sakborningarnir hefðu ólíklega fengið dóm ef málið hefði komið fyrir nú.
    Málin snúast um mannshvörf frá áttunda áratug síðustu aldar. Annað, Guðmundarmálið, snerist um ungan mann, Guðmund Einarsson, sem fór á dansleik, sást síðast nokkuð ölvaður á heimleið af ballinu en hvarf. Lík unga mannsins hefur aldrei fundist, og í raun bendir ekkert til þess að þetta mannshvarf sé sakamál nema mjög mótsagnakenndar játningar sakborninga. Enda voru þær jafnóðum dregnar til baka, og nú liggur fyrir að játningarnar voru fengnar með þrýstingi rannsóknaraðila sem nú á dögum mundi teljast óeðlilegur, líklega ólöglegur.
    Hitt málið snerist um hvarf Geirfinns Einarssonar sem átti stefnumót við óþekktan mann en hvarf. Þar gæti vissulega hafa verið um einhvers konar saknæman atburð að ræða en eins og í fyrra tilfellinu hefur ekkert lík fundist, engar vísbendingar um hvað gerðist, engin sönnunargögn af neinu tagi. Nema þær mótsagnakenndu játningar sem einnig einkenndu fyrra málið.
    Rannsókn sannleiksnefndar á ekki að snúast persónulega um þá sem stóðu að rannsókninni á sínum tíma. Vafalaust töldu þeir sig vera að gera gagn. Menn höfðu þá mun takmarkaðri skilning á því en núna hvað það er í rauninni auðvelt að knýja fram játningar sakborninga – og menn hafa líka betri skilning á því hversu rangt er að beita nokkurs konar þvingunum við yfirheyrslur. Það er ekki aðeins siðferðislega rangt heldur leiðir það líka nær undantekningarlaust til rangrar niðurstöðu.
    Eftir umfangsmikla rannsókn á þessum tveimur aðskildu mannshvörfum benti ekkert til þess að mönnunum hefði verið banað en að henni lokinni voru sex ungmenni dæmd til þungra refsinga, sumir segja svipt lífinu og ærunni. Með öllu er óljóst hvað olli því að þau voru almennt tengd hvarfi mannanna, hvað þá fangelsuð og höfð í einangrun mánuðum og árum saman.

Endurupptöku hafnað.
    Sævar Ciesielski, þekktasti sakborningurinn í málunum, var dæmdur í ævilangt fangelsi í héraði, sem var mildað í 17 ára fangelsi í Hæstarétti. Að lokum sat hann í fangelsi í níu ár. Hann barðist alla tíð frá því að dómar féllu í málunum fyrir endurupptöku þeirra og réttlátri málsmeðferð. Því var hafnað, þrátt fyrir ítarlegar greinargerðir Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns og Sævars sjálfs fyrir fjórtán árum.
    Margir urðu til að taka undir kröfur um endurupptöku málsins, en áfram er málið allt óuppgert og hvílir enn sem mara á samfélaginu.
    Enn eru flestir á velli sem að málum komu á seinni helmingi áttunda áratugarins og ekki skortir gögnin sem styðja nýja rannsókn á málinu. Þar vísa flutningsmenn í greinargerð Ragnars sem lögð var fram í Hæstarétti í febrúar 1997, en þar segir í niðurlagi:
        „Lögð hafa verið fram ný gögn eins og lýst hefur verið í greinargerð þessari … Í framlögðum gögnum er að finna nýjar upplýsingar um málsatvik og hinsvegar um málsmeðferð … Með þessu er átt við að því meiri vafi sem leikur á því að sönnunargögn einsog játningar hafi verið rétt metin, því meira máli skiptir hversu vel og löglega var staðið að rannsókn málsins utan og innan réttar og meðferð á sökunautunum sjálfum t.d. varðandi öflun játninga. Því meiri upplýsingar um ranglæti við úrlausn máls og meðferð þess, ólöglegar aðferðir til að koma sökunautum til játningar og vanræksla á að gæta réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, því meiri kröfur verður að gera til þess að sönnunargögn verði ekki vefengd með skynsamlegum hætti, ekki síst játningar.“
    Þessi vel rökstudda krafa Ragnars hefur í engu misst gildi sitt á þeim árum sem liðin eru frá því að greinargerðin var lögð fram.

Morð eða mannshvörf?
    Mikilvægt er að halda til haga nokkrum meginatriðum málsins einsog þau birtast í gögnum þeim sem lögð voru fram við endurupptökubeiðnina árið 1997:
          Lagðar voru fram með endurupptökubeiðninni nýjar, skriflegar skýrslur fjölda fólks sem kom að málum. Skýrslur með nýjum upplýsingum frá Erlu Bolladóttur, Albert K. Skaftasyni, Gísla Guðmundssyni, fyrrverandi yfirlögregluþjóni, rekstraraðilum Alþýðuhússins, nágrönnum Erlu, Hlyni Þór Magnússyni, fyrrverandi fangaverði, Jóni Bjarman fangelsispresti, Magnúsi Leópoldssyni og Magnúsi Gíslasyni fréttamanni. Þá höfðu að auki komið fram yfirlýsingar um málið frá Guðjóni Skarphéðinssyni í fjölmiðlum árið 1996, dagbækur Síðumúlafangelsis, útdrættir úr þeim ásamt dagbókum Hegningarhússins, lokaskýrsla Karls Schutz, sem lýsir efasemdum hans um sekt hinna grunuðu, og margvísleg önnur gögn sem gata gömlu rannsóknina.
          Í öllum þessum nýju gögnum er að finna nýjar upplýsingar um bæði málsatvik og málsmeðferð sem hafa mikið með samhengi hlutanna að gera, mat sönnungargagna á borð við játningar, hvernig var staðið að rannsókn málsins utan og innan réttarins og meðferð á hinum grunuðu, t.d. varðandi öflun játninga.
          Ekkert vitni sá Guðmund Einarsson í nánd við Hamarsbraut 11, þar sem honum átti að hafa verið ráðinn bani, eða sökunauta í Guðmundarmáli ráðast á Guðmund og verða honum að bana. Ekkert vitni sá Geirfinn Einarsson fara inn í bifreið með sökunautunum og aka með þeim í dráttarbrautina í Keflavík. Ekkert vitni sá slagsmál í dráttarbrautinni þetta kvöld og enginn sá einhvern ráðast á Geirfinn og verða honum að bana. Ekkert vitni sá eitthvert hinna grunuðu með lík mannanna, enda hafa lík þeirra aldrei fundist.
          Mjög var á reiki vitnisburður um með hverjum Guðmundur Einarsson sást um nóttina og áttu lýsingar ekki við Kristján Viðar líkt og dómurinn byggist á.
          Þeir sem játuðu í Geirfinnsmáli, og málið er að mestu byggt á, hafa nú skýrt frá því að ákæruvaldið hafi búið söguna til sem dæmt var út frá. Þeim hafi verið lögð orð í munn eftir átta tíma viðtöl á dag, dag eftir dag, undir áhrifum geðlyfja, rænulítil af svefnleysi.
          Samkvæmt dómnum er talið að Geirfinnur Einarsson hafi verið að skemmta sér í Klúbbnum þegar annaðhvort Sævar eða Kristján Viðar hafi undið sér að honum og kynnt sig sem forstjóra Klúbbsins, sem var Magnús Leópoldsson. Sævar og Kristján voru þá báðir 19 ára gamlir og blasti við af útliti þeirra að þeir gegndu ekki slíkri stöðu. Útilokað er nú talið að Geirfinnur tryði slíku, auk þess sem félagi hans, sem fylgdist vel með honum allt kvöldið, sá hann ekki tala við nema einn mann sem klárlega var hvorugur þeirra.
          Því var ekki sýnt fram á að neitt samband hefði verið á milli sakborninganna og Geirfinns Einarssonar. Ekki er sannað að Sævar eða Kristján Viðar hafi komið í Hafnarbúðina eða annað til að hringja í Geirfinn um það leyti sem talið er að hringt hafi verið til hans. Ekki er sýnt fram á hver hringdi í hann en ljóst að ekki voru það sakborningarnir í málinu.
          Sýnt er fram á í gögnum að helstu grundvallarreglur um réttaröryggi voru brotnar á öllum stigum máls af þeim sem að málinu komu. Til að mynda létu stjórnvöld frá sér rangan útdrátt úr fangelsisdagbók til þess að leyna meðferðinni á sakborningum sem notuð var til að knýja fram játningar. Því var Hæstarétti ekki kunnugt um meðferðina á hinum grunuðu og ætlar Ragnar Aðalsteinsson að dómur hefði gengið með öðrum hætti hefði harðræðið legið fyrir. Að mati Ragnars hafi því ákæruvaldið ætlað að hafa áhrif á niðurstöðu dómstólsins með þessu.
          Rök hafa verð færð fyrir að játningar þær sem dómur byggist á séu fengnar með ólögmætum hætti og refsiverðri háttsemi. Verjendur fengu aðeins í undantekningartilfellum að vera viðstaddir yfirheyrslur á rannsóknarstigi og þeir fengu ekki að vera viðstaddir vitnaleiðslur og yfirheyrslur yfir öðrum sökunautum. T.d. fékk Sævar ekki að vera viðstaddur hina lokuðu málsmeðferð að því undanteknu að hann fékk að hlusta á munnlegan málflutning í málinu í héraði og Hæstarétti.
          Rannsóknaraðilar bókuðu ekki reglulega og skilmerkilega það sem fram fór í yfirheyrslum þrátt fyrir afdráttarlausa lagaskyldu þar um. Að meginstefnu var ekki annað bókað en það sem rennt gat stoðum undir rannsóknartilgátur á hverjum tíma. Allt á þetta að styðja endurupptökubeiðni segir í greinargerð frá 1997.
    Þessu til viðbótar hafa nú enn komið fram ný gögn í málunum. Þau eru dagbækur Tryggva Rúnars Leifssonar, sem sat í gæsluvarðhaldi í tvö ár í Síðumúlafangelsi og fékk 13 ára fangelsisdóm, og skoðun réttarsálfræðingsins Gísla Guðjónssonar sem tjáði sig nýlega um málið í fyrsta skipti. Hann telur tilefni til að hefja rannsókn að nýju í ljósi gagnanna.
    Að mati flutningsmanna tillögunnar hníga öll rök að því að farið verði rækilega ofan í alla þætti málanna og sannleikurinn um efnisatriði og málsmeðferð leiddur í ljós í eitt skipti fyrir öll.