Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 104. máls.

Þingskjal 104  —  104. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum (varnarþing í riftunarmálum).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 103. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „24 mánuðir“ í 2. málsl. kemur: 30 mánuðir.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli þessa ákvæðis skulu þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita skv. 4. mgr. 101. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, í þeim tilgangi að lögleiða sérstakt varnarþingsákvæði sem skuli gilda um riftunarmál vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi og að framlengja frest til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga sem hafa borist ráðuneytinu frá slitastjórn Landsbanka Íslands hf. vegna dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 379/2011 sem kveðinn var upp 7. júlí sl. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að höfða riftunarmál gagnvart erlendum aðilum hérlendis, á heimilisvarnarþingi Landsbankans, án samþykkis viðkomandi aðila. Af niðurstöðunni má draga þá ályktun að veruleg þörf sé á að tryggja að varnarþing við höfðun riftunarmála vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita með úrskurði íslenskra dómstóla skuli vera hér á landi.
    Ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki byggjast að miklu leyti á tilskipun 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Tilskipunin leggur grundvöllinn að samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja, en í 16. mgr. aðfararaorða hennar kemur fram að jöfn meðferð allra lánardrottna krefjist þess að lánastofnun sé slitið í samræmi við meginreglurnar um einingu (e. principle of unity), algildi (e. principle of universality) og jafnræði (e. principle of non- discrimination). Samkvæmt þessum meginreglum er þess krafist að stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis hafi einkalögsögu og að ákvarðanir þeirra séu virtar og geti haft þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa samkvæmt lögum heimaaðildarríkis. Í tilskipuninni er talið felast mikið hagræði, enda talið að endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og útibú í öðru aðildarríki fari einungis eftir lögum eins ríkis, en ekki margra.
    Ljóst er að verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir bú fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hérlendis að lögleidd verði sérstök varnarþingsregla vegna riftunarmála og þannig verði tryggt að mögulegt verði að beita íslenskum lögum við úrlausn riftunarmála. Þá þykir brýna nauðsyn bera til að riftunarfrestur verði lengdur í 30 mánuði, en undirbúningur vegna riftunarmála við slitameðferð fjármálafyrirtækja getur verið gríðarlega umfangsmikill. Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferð hófst. Í ljósi umfangs þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð má telja víst að verði frestur til að koma fram málshöfðun til riftunar á gerningum ekki lengdur séu miklar líkur á að markmið um jafnræði kröfuhafa fari forgörðum, en nauðsynlegt er að slitastjórnir nái að gæta hagsmuna búa bankanna með sem bestum hætti. Sem dæmi má nefna að almennur frestur fyrir slitastjórn Landsbankans til að höfða riftunarmál mun renna út í lok október, en ljóst er að birting stefnu erlendis getur tekið nokkra mánuði þar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja reglum Haag-samningsins frá 15. nóvember 1965, um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Til að koma í veg fyrir að sú staða komi upp að frestur fjármálafyrirtækja í slitum til að höfða riftunarmál renni út án þess að tekist hafi að birta stefnu í tæka tíð er því lagt til að hann verði framlengdur um 6 mánuði.
    Markmið breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að tryggja jafnræði kröfuhafa fjármálafyrirtækja í slitum með því að framlengja frest til riftunar og tryggja að riftanlegar ráðstafanir verði metnar eftir sömu reglum, burtséð frá því hvort um innlenda eða erlenda aðila sé að ræða. Með því að tryggja að úr ágreiningi verði leyst eftir innlendum reglum yrði samræmi við úrlausn riftunarmála tryggt, en tilskipun 2001/24/EB gerir ráð fyrir því að endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækja skuli fara eftir lögum eins ríkis. Þá má einnig benda á að um augljóst hagræði væri að ræða fyrir slitastjórnir, sem þyrftu ekki að leggja út í umtalsverðan sérfræðikostnað við málshöfðun erlendis, auk þess sem dómsúrlausnir mundu stafa frá innlendum dómurum sem búa yfir þekkingu á reglum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og beitingu þeirra í dómaframkvæmd. Loks yrði aðgengi að dómstólum tryggt og komið í veg fyrir hugsanlega frávísun/heimvísun málsins innan Evrópska efnahagssvæðisins, en ekki er útilokað að dómstólar í öðrum aðildarríkjum gætu litið svo á að mál væri ranglega höfðað þar í landi.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við slitastjórn Landsbanka Íslands hf., auk þess sem leitað var ráða hjá Stefáni Má Stefánssyni prófessor og Ásu Ólafsdóttur lektor.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um a-lið.
    Lagt er til að frestur til að höfða mál til riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækja sem eru í slitameðferð verði lengdur úr 24 mánuðum í 30 mánuði. Markmiðið með breytingunni er að slitastjórnir geti náð að gæta hagsmuna búa fjármálafyrirtækja í slitameðferð með sem bestum hætti.
     Um b-lið.
    Lagt er til að einum málslið verði bætt við 4. mgr. 103. gr. laganna í þeim tilgangi að lögleiða sérstakt varnarþingsákvæði sem skuli gilda um riftunarmál vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi skv. 4. mgr. 101. gr. laganna. Meginmarkmiðið með þessari beytingu er að tryggja jafnræði kröfuhafa við úrlausn riftunarmála vegna slita fjármálafyrirtækja hérlendis, auk þess sem um augljóst hagræði væri að ræða fyrir slitastjórnir fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum (varnarþing í riftunarmálum).

    Frumvarpinu er ætlað að tryggja hagsmuni kröfuhafa fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi þannig að riftanlegar ráðstafanir verði metnar eftir sömu forsendum óháð því hvort riftunarmálið sé höfðað gegn erlendum eða innlendum aðila. Samkvæmt núgildandi lögum verður að höfða riftunarmál gagnvart erlendum aðila í heimalandi hans nema fyrir liggi samþykki viðkomandi fyrir málshöfðum fyrir íslenskum dómsstólum. Birting málshöfðunar erlendis getur verið flókin auk þess sem hún getur tekið nokkra mánuði. Í nokkrum tilvikum er tími til riftunarmála óðum að renna út sem gæti haft fjárhagslegt tjón fyrir kröfuhafa í för með sér.
    Í því skyni að jafna rétt kröfuhafa gagnvart innlendum og erlendum aðilum eru lagðar til tvenns konar breytingar á gildandi lögum. Annars vegar er lagt til að lögleitt verði sérstakt varnarþingsákvæði sem heimili slitastjórnum að höfða öll sín riftunarmál fyrir dómstólum hér á landi og hins vegar er frestur til að höfða riftunarmál lengdur í 30 mánuði en hann er nú 24 mánuðir.
    Í ljósi stærðar þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð má ætla að lögfesting frumvarpsins gæti haft í för með sér aukið álag á dómskerfið hér á landi. Hins vegar liggja ekki fyrir neinar áætlanir um fjölda eða umfang riftunarmála gagnvart erlendum aðilum og því engar forsendur til að meta aukin útgjöld ríkissjóðs vegna þessa.