Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 307  —  97. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og leitað m.a. skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi breytingar á fjárheimildum.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls 788,9 m.kr. til hækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, og 3. gr. um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir. Heildartekjur ársins 2011 verða því 480.643,8 m.kr. og heildargjöld 527.345 m.kr. Tekjujöfnuður verður því neikvæður um 46.701,2 m.kr.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


06 Innanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild innanríkisráðuneytis verði aukin um 185 m.kr.
657     Umferðarstofa.
        1.01
Umferðarstofa. Gerð er tillaga um að fjárheimild Umferðarstofu verði hækkuð um 85 m.kr. í samræmi við endurskoðaða rekstraráætlun stofnunarinnar. Stofnunin er fjármögnuð af mörkuðum ríkistekjum en tillaga þessi gerir ráð fyrir að Umferðarstofu verði heimilað að ráðstafa 85 m.kr. af ríkistekjum stofnunarinnar sem gert var ráð fyrir að kæmu ekki til ráðstöfunar í starfseminni í fjárlögum 2011. Við 2. umræðu fjárlaga 2009 var fjárheimild Umferðarstofu lækkuð um 113,5 m.kr. vegna endurskoðaðrar tekjuáætlunar sem fól í sér mikla lækkun tekna, einkum vegna samdráttar í bílainnflutningi og bílaviðskiptum. Því til viðbótar var gert ráð fyrir að framlög stofnunarinnar yrðu lækkuð um 122,9 m.kr. í samræmi við útfærslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á aðhaldsmarkmiði ríkisstjórnarinnar. Með lokafjárlögum 2008 var höfuðstóll stofnunarinnar skertur að miklu leyti í samræmi við almennar aðgerðir stjórnvalda í þá veru. Nú er lagt til að veitt verði fjárheimild til að ráðstafa sem svarar til hluta af bundnu eigin fé fyrri ára til að styrkja rekstrargrundvöll stofnunarinnar á árinu 2011 á meðan stofnunin vinnur að því að draga saman í starfsemi sinni í samræmi við samdrátt tekna og aðhaldsmarkmið. Samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun er gert ráð fyrir að fjárvöntunin fyrir árið 2011 nemi 85 m.kr.
                  Gerð verður niðurskurðarkrafa á innanríkisráðuneyti sem nemur þessari fjárhæð á fjárlögum fyrir árið 2012.
841     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.11
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög. Lagt er til að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði hækkað um 100 m.kr. Á yfirstandandi ári hafa 300 m.kr. af 700 m.kr. aukaframlagi ársins 2011 farið til Sveitarfélagsins Álftaness en sú skipting lá ekki fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 og er því komið til móts við önnur sveitarfélög sem njóta góðs af aukaframlaginu.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 300 m.kr.
989     Ófyrirséð útgjöld.
        1.90
Ófyrirséð útgjöld. Gerð er tillaga um 300 m.kr. fjárheimild á liðnum til að unnt verði að bæta viðkomandi stofnunum kostnaðaráhrif af nokkrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið í haust eftir að gengið var frá samningum við velflest stéttarfélög opinberra starfsmanna. Þeir kjarasamningar sem einkum er um að ræða eru við félög lækna, lögreglumanna og hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitarinnar og áhafna skipa og flugfarkosta. Fjárheimildin miðast við mat á viðbótarkostnaði vegna þessara kjarabreytinga og áætlaðri stöðu fjárlagaliðarins þegar búið verður að mæta öðrum útgjaldatilefnum sem honum er ætlað að standa undir eins og gerð hefur verið grein fyrir í frumvarpinu. Fjárheimildir verða fluttar af liðnum til stofnana í fjárhagskerfi ríkisins í samræmi við mat á hækkun launakostnaðar í hverju tilviki.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði lækkuð um 48 m.kr.
511     Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.
        6.41
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Lagt er til að 48 m.kr. framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða falli niður. Við afgreiðslu fjárlaga var reiknað með að sjóðurinn mundi fá framlag sem svaraði til 3/5 af áætluðum tekjum af farþegagjaldi og gistináttagjaldi í samræmi við áform sem sett voru fram í lagafrumvarpi þar um og var reiknað með að lögin mundu taka gildi 1. september 2011. Frumvarpið tók töluverðum breytingum í meðförum Alþingis og varð að lögum um gistináttaskatt sem öðlast gildi 1. janúar 2012. Samkvæmt þeim lögum skal framlag ríkissjóðs til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða nema 3/5 af gistináttaskatti. Framlagið, sem hefur stöðu lögbundins framlags, fellur því niður þar sem tekjur af gistináttaskatti verða engar í ár.


12 Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild efnahags- og viðskiptaráðuneytis verði aukin um 305 m.kr.
402     Fjármálaeftirlitið.
        1.01
Fjármálaeftirlitið. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar verði hækkuð um 305 m.kr. eftir sértekjur, úr 1.327 m.kr. í 1.632 m.kr. Hækkunin er einkum komin til vegna aukinna verkefna og fjölgunar starfsmanna. Útgjöldin eru fjármögnuð með hækkun á eftirlitsgjaldi sem færist á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur breytingin því ekki áhrif á afkomu hans. Reiknað er með að gjöld stofnunarinnar umfram sértekjur verði 1.836,6 m.kr. og að eftirlitsgjaldið skili um 1.632 m.kr. Gert er ráð fyrir að 204,6 m.kr. mismunurinn þar á milli verði fjármagnaður með óráðstöfuðu eigin fé vegna rekstrarafgangs frá fyrri árum. Þá er reiknað með að sértekjur verði 6,5 m.kr. á árinu 2011 og að heildargjöld stofnunarinnar verði þar af leiðandi 1.843,1 m.kr.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 46,9 m.kr.
211     Umhverfisstofnun.
        1.01
Umhverfisstofnun. Gerð er tillaga um 41,9 m.kr. framlag vegna kostnaðar við brýnar lagfæringar sem gerðar voru í vor á aðstöðu á friðlýstum svæðum og fjölsóttum ferðamannastöðum sem hafði farið hnignandi vegna fjölgunar ferðamanna. Hinn 27. apríl sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu umhverfisráðherra um að ráðast í brýnar lagfæringar á aðstöðu á friðlýstum svæðum og fjölsóttum ferðamannastöðum fyrir sumarið, svo sem við Gullfoss og Geysi. Samtals var um að ræða framkvæmdir fyrir 41,9 m.kr.
                  Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag vegna landvörslu, stígagerðar, viðhalds og annars kostnaðar á svæði Dimmuborga og Hverfjalls í Mývatnssveit í kjölfar friðlýsingar þessara svæða í sumar og í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar 10. júní sl. um framlag til rekstrar og nauðsynlegra framkvæmda vegna friðlýsingarinnar á árinu 2011.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 15. nóvember 2011.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Þuríður Backman.