Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.

Þingskjal 354  —  304. mál.



Frumvarp til laga

um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta
Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta
fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að semja um hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR. Seðlabanki Íslands skal leggja fram það fé sem þarf til hækkunar kvótans, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands.

2. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt fyrir Íslands hönd að samþykkja breytingar á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem varða fyrirkomulag á framkvæmdastjórn hans og voru samþykktar af sjóðráði sjóðsins 15. desember 2010.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Kvótahækkun.
    Með lagafrumvarpi þessu er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta landsins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samkvæmt samþykkt sjóðráðs sjóðsins í tengslum við fjórtándu endurskoðun á stofnfé sjóðsins. Við fjórtándu almennu kvótahækkunina er miðað við að heildarkvótar sjóðsins tvöfaldist, úr um 238,4 milljörðum SDR í um 476,8 milljarða SDR (u.þ.b. 750 milljarða USD). Kvóti Íslands hækkar úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR, sem jafngildir um 58,3 milljörðum ISK á skráðu miðgengi SDR 23. mars 2011. Hlutdeild Íslands í kvótum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hækkar nokkuð við þessa breytingu, úr 0,055% í 0,067%.
    Stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem jafnan er nefnt kvóti, er endurskoðað með reglulegu millibili, venjulega á fimm ára fresti. Síðast leiddi endurskoðun til hækkunar kvóta árið 1998 sem var ellefta endurskoðun. Engar hækkanir voru gerðar eftir 12. og 13. endurskoðun. Kvótahækkunin núna kemur í framhaldi af breytingum á stofnskrá sjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn hans 28. apríl og 5. maí 2008. Breytingarnar voru samþykktar sem lög frá Alþingi 25. janúar 2011, sjá lög nr. 5/2011. Vísað er í yfirlit um breytingar á kvóta, útreikningi á kvóta og atkvæðavægi í athugasemdum við frumvarp til þessara laga (frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem finna má í þingskjali 132 í 123. máli 139. löggjafarþings). Á fundi sjóðráðs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hinn 15. desember 2010 voru samþykktar enn frekari breytingar á kvótum og framkvæmdastjórn sjóðsins í tengslum við fjórtándu endurskoðun á kvótum. Helstu breytingar sem sjóðráð samþykkti í tengslum við fjórtánda endurskoðun eru þessar:
          Kvótar verða tvöfaldaðir, úr 238,4 milljörðum SDR í 476,8 milljarða SDR.
          Yfir 6% af kvótahlutdeild landa með ofreiknaðan kvóta verða færð til landa með vanreiknaðan kvóta. *
          Yfir 6% af kvótahlutdeild verða færð til hraðvaxandi nýmarkaðsríkja og þróunarlanda.
          Vægi einstakra landa breytist. Í fyrsta lagi verður Kína þriðja veigamesta landið innan sjóðsins. Í öðru lagi verða fjögur nýmarkaðs- og þróunarlönd meðal tíu stærstu hluthafa í sjóðnum (auk Kína eru það Brasilía, Indland og Rússland).
          Kvóta- og atkvæðahlutdeild fátækustu aðildarlandanna verður haldið óbreyttri. Skilgreiningin á fátæku aðildarríki er land sem uppfyllir annars vegar skilyrði fyrir PRGT- aðstoð (e. Poverty Reduction and Growth Trust) og hins vegar að þjóðarframleiðsla á mann hafi farið undir 1.135 Bandaríkjadali árið 2008, eða tvöföld sú upphæð fyrir smáríki (markalína dregin af Alþjóðaframfarastofnuninni, e. International Development Association, IDA).
    Núverandi formúla sem liggur til grundvallar útreikningi á kvótum fyrir fjórtándu endurskoðun verður endurskoðuð frá grunni fyrir janúarlok 2013. Þá verður fimmtándu endurskoðun flýtt um tvö ár, til janúar 2014.
    Ávinningur Íslands af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi geta aðildarríkin tekið hagstæð lán úr ýmsum lánaflokkum sjóðsins og miðast lánsfjárhæðir við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars. Ísland hefur nokkrum sinnum tekið lán hjá sjóðnum, síðast árið 2008. Í öðru lagi ræðst atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra.
    Gert er ráð fyrir að aðildarlöndin hafi tíma til 31. desember 2011 til að samþykkja úthlutaðan nýjan kvóta, þótt framkvæmdastjórn geti framlengt þennan frest. Aðildarland þarf að greiða kvótaaukninguna innan 30 daga frá því að samþykki er tilkynnt eða öll skilyrðin um gildistöku hafa verið uppfyllt. Greiða þarf fyrirliggjandi tillögum atkvæði sem ein heild og þær þurfa stuðning frá aðildarríkjum sem hafa minnst 85% af atkvæðamagni á bak við sig.
    Kvótahækkunin tekur gildi þegar eftirfarandi þremur skilyrðum hefur verið fullnægt:
     1.      Framkvæmdastjórn kemst að þeirri niðurstöðu að aðildarríki með 70% kvótahlutdeild, miðað við 5. nóvember 2010, hafa samþykkt skriflega hækkun kvóta þeirra samkvæmt fjórtándu endurskoðun.
     2.      Fyrirliggjandi tillaga um breytingar á stofnskrá vegna endurskipulagningar á framkvæmdastjórn sjóðsins hefur tekið gildi.
     3.      Breytingar á stofnskrá sem samþykktar voru árið 2008 hafa tekið gildi (sjá þingskjal 132 á 139. löggjafarþingi).

Áhrif framangreindra breytinga á fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs Íslands og Seðlabanka.
    Í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins er fjórðungur hækkunarinnar greiddur í SDR en þrír fjórðu hlutar greiðast í íslenskum krónum (sjá fylgiskjal I). Sá hluti kvótahækkunarinnar, sem greiddur er í SDR er að fjárhæð um 51 milljón SDR, sem er að jafnvirði rúmlega 9.254 millj. kr. Fjárhæðin greiðist af Seðlabanka Íslands, sem fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkissjóðs Íslands, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Myndar þessi hluti sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans. Í rauninni er hér því einungis um að ræða breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans. Þrír fjórðu hlutar kvótahækkunarinnar eru í rauninni ekki inntir af hendi heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu í Seðlabankanum sem nemur umræddri fjárhæð.

Breyting á framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Framlagðar breytingartillögur á stofnskrá miða að eftirfarandi:
          Allir fastafulltrúar verða nú kosnir í stað þess að áður voru fimm af 20 fastafulltrúum skipaðir. Auk þeirra 20 fastafulltrúa sem lögbundnir eru má framkvæmdastjórn fjölga þeim með ákvörðun sem styðst við 85% atkvæðamagn. Fjórir fastafulltrúar sitja nú samkvæmt sérstakri samþykkt framkvæmdastjórnar. Alls sitja því 24 fastafulltrúar í framkvæmdastjórn sjóðsins. Aðildarríkin skuldbinda sig til að tryggja að fjöldi fastafulltrúa verði áfram 24 og endurskoðun á samsetningu fastafulltrúa verði á átta ára fresti eða frá því að skilyrði fyrir fullnustu á kvótastækkun samkvæmt fjórtándu endurskoðun hafa verið uppfyllt.
          Kjördæmi með sjö eða fleiri löndum fá heimild til að bæta við einum varafastafulltrúa (e. Alternate Executive Director).
          Stefnt er að því að fækka fastafulltrúum á vegum þróaðra Evrópuríkja um tvo með sameiningu kjördæma eða með skipulagsbreytingu innan kjördæma. Í staðinn fá nýmarkaðsríki þessa fastafulltrúa. Þessari breytingu er ætlað að endurspegla aukið vægi nýmarkaðsríkja í heimsbúskapnum. Á þessu stigi málsins er ekki ljóst hvaða Evrópuríki missa sæti í framkvæmdastjórn. Breytingin tekur gildi við fyrstu kosningar til framkvæmdastjórnar eftir að skilyrði fyrir fullnustu á kvótastækkun samkvæmt fjórtándu endurskoðun hefur verið fullnægt. Textabreytingar á stofnskránni koma fram í fylgiskjali I.

Starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. The International Monetary Fund) var stofnaður skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og var Ísland eitt af 29 stofnríkjum hans. Nú eru 187 ríki aðilar að honum. Starfsemi sjóðsins hefur tekið ýmsum breytingum frá stofnun hans. Í fyrstu beindust kraftar hans að því að tryggja gengisstöðugleika og útrýma hömlum á gjaldeyrisviðskiptum þjóða á milli. Góður árangur á því sviði ásamt farsælu samstarfi fjölmargra þjóða heimsins um tollalækkanir og afnám viðskiptahafta örvaði milliríkjaviðskipti og átti mikilvægan þátt í örum efnahagsframförum á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Þessi þróun hefur ekki síst komið smáum ríkjum, eins og Íslandi, til góða sem reisa hagsæld sína að miklu leyti á utanríkisviðskiptum. Þegar fastgengisfyrirkomulagið leið undir lok árið 1971 varð breyting á starfsemi sjóðsins þar sem hann gegndi ekki lengur lykilhlutverki í ríkjandi gengisfyrirkomulagi. Meiri áhersla var lögð á ráðgefandi hlutverk og lánastarfsemi. Oft og tíðum hefur frumkvæði og þátttaka sjóðsins í aðgerðum til hjálpar skuldugum þjóðum verið forsenda þess að aðrar fjölþjóðlegar fjármálastofnanir, einstök ríki og einkaaðilar hafa verið reiðubúin að leggja hönd á plóginn.
    Aukið frjálsræði í alþjóðlegum markaðsviðskiptum og efnahagskreppur á borð við kreppuna í Mexíkó um miðjan tíunda áratuginn og í Suðaustur-Asíu í lok síðustu aldar leiddu til þess að auknar kröfur voru gerðar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi skammtímafjármögnun og efnahagsráðgjöf. Efnahagskreppan sem kom í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 hefur enn frekar undirstrikað mikilvægi þess að aðildarríkin geti nálgast skammtímafjármögnun og aðstoð til að takast á við efnahagskreppur. Til þess að sjóðurinn geti innt af hendi þær skyldur sem á hann eru lagðar er nú talin þörf á að tryggja honum aukið starfsfé, en mikilvægasta leið sjóðsins í því efni eru stofnframlög aðildarríkja.

Kvótar aðildarríkja.
    Starfsfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggist fyrst og fremst á framlögum (kvótum) aðildarríkja hans sem endurspegla vægi viðkomandi ríkis í heimsbúskapnum og eru nánar ákveðin með hliðsjón af þjóðartekjum, umfangi utanríkisviðskipta og nokkrum öðrum efnahagslegum þáttum. Heildarkvótar sjóðsins hafa verið auknir með almennum kvótahækkunum úr innan við 10 milljörðum SDR á fyrstu árum sjóðsins í núverandi stærð, 476,8 milljarða SDR. Með þeirri kvótahækkun sem nú hefur verið ákveðin er tekið mið af aukinni efnahagsstarfsemi og alþjóðaviðskiptum í heiminum frá síðustu almennu kvótahækkuninni árið 1998, stærð fjármálamarkaða og vexti nýmarkaðsríkja, sem og fjárhagsstöðu sjóðsins, áætlunum um starfsemi hans og nauðsyn fyrir aukið starfsfé á komandi árum. Auk kvótaframlaga hefur sjóðurinn einnig til ráðstöfunar viðbótarfjármögnun samkvæmt lánasamningum við fjárhagslega sterk aðildarríki og fjármálastofnanir (e. General Agreement to Borrow og e. New Agreement to Borrow).
    Atkvæðavægi aðildarríkja í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fyrst og fremst eftir kvóta þeirra, en öll ríki fá þó ákveðinn lágmarksatkvæðafjölda (e. basic votes). Eftir að núverandi tillaga um kvótahækkun tekur gildi eykst atkvæðavægi nýmarkaðsríkja talsvert en vægi fátækustu aðildarríkjanna skerðist ekki. Kína, Brasilía, Rússland og Indland komast nú í flokk 10 stærstu kvótahafa. Kvóti Bandaríkjanna af heildinni verður 17,41%, Japans 6,46%, Kína 6,39%, Þýskalands 5,59%, Bretlands 4,23% og Frakklands 4,23%. Hvert þessara ríkja ásamt Sádi-Arabíu hefur einn fastafulltrúa í 24 manna framkvæmdastjórn sjóðsins. Atkvæðavægi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja minnkar lítillega frá því sem nú er, úr 3,5% í 3,3% af heild. Norðurlönd og Eystrasaltsríki skipa sameiginlega einn fastafulltrúa í framkvæmdastjórn sjóðsins.

Lántökur Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Ísland tók í fyrsta sinn lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 1960. Nam það 6,8 milljónum Bandaríkjadala og var tekið í tengslum við efnahagsaðgerðir sem þá var ráðist í. Síðan hefur Ísland þrisvar tekið lán vegna halla á viðskiptum við útlönd: 15 milljónir Bandaríkjadala 1967–1968, 62,2 milljónir SDR 1974–1976 og 21,5 milljónir SDR árið 1982 úr lánaflokki sem er ætlaður til að mæta útflutningsbresti. Á sama ári tók Ísland einnig til sín 9 milljónir SDR af gjaldeyrisinnstæðu Seðlabankans hjá sjóðnum. Árið 2008 tók Ísland nýtt lán hjá sjóðnum í tengslum við sameiginlega efnahagsáætlun að fjárhæð 1.400 milljónir SDR.

Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fyrirhuguð breyting á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er varðar endurbætur framkvæmdastjórnar



Ríkisstjórnir þær, sem hafa látið undirrita stofnskrá þessa, eru sammála um eftirfarandi ákvæði:

1. Breyting á texta 3. gr. (b) XII. kafla skal lesast sem hér segir:

„(b) Nema að vísað sé til (c) hér fyrir neðan skal framkvæmdastjórn samanstanda af 20 fastafulltrúum sem kosnir eru af aðildarríkjunum, og skal framkvæmdastjóri sjóðsins hafa forsæti fyrir framkvæmdastjórn.“

2. Breyting á texta 3. gr. (c) XII. kafla skal lesast sem hér segir:
„(c) Fyrir hverja almenna kosningu fastafulltrúa má sjóðráð, með 85 prósenta meirihluta atkvæðamagns, fjölga eða fækka fastafulltrúum, sbr. (b) hér að ofan.“


3. Breyting á texta 3. gr. (d) XII. kafla skal lesast sem hér segir:

„(d) Kjör á fastafulltrúum skal fara fram á tveggja ára fresti í samræmi við reglur þær er samþykktar eru af sjóðráði. Í slíkum reglum skal felast takmörkun á heildarfjölda atkvæða sem fleiri en eitt aðildarríki mega greiða sama frambjóðanda.“



4. Breyting á texta 3. gr. (f) XII. kafla skal lesast sem hér segir:
„(f) Fastafulltrúar skulu halda embætti sínu þar til eftirmenn þeirra eru kjörnir. Ef embætti fastafulltrúa losnar meira en 90 dögum fyrir lok kjörtímabils hans skal nýr fastafulltrúi kosinn í hans stað af þeim aðildarríkjum sem kusu fyrrum fastafulltrúann. Í kosningunni skal meirihluti greiddra atkvæða ráða. Á meðan embættið er laust skal varamaður fyrrum fastafulltrúans hafa vald hans með höndum, fyrir að undanskildum rétti til að tilnefna varamann.“


5. Breyting á texta 3. gr. (i) XII. kafla skal lesast sem hér segir:
„(i) (i) Hver fastafulltrúi skal hafa atkvæðafjölda jafnan þeim sem stóð að baki kosningu hans.


(ii) Þegar ákvæði 5. gr. (b) þessa kafla eiga við, skal atkvæðafjöldi sá sem fastafulltrúa hefði annars fallið í hlut aukinn eða minnkaður í samræmi við það. Öll atkvæði sem fastafulltrúi hefur rétt á að greiða skulu greidd sem ein heild.


(iii) Þegar tímabundin svipting atkvæðisréttar er dregin til baka í samræmi við 2. gr. (b) kafla XVII má aðildarríkið komast að samkomulagi við öll aðildarríki sem kusu tiltekinn fastafulltrúa um að atkvæðafjöldi aðildarríkisins falli í hlut þess fastafulltrúa. Þó skal sá fastafulltrúi sem aðildarríkið kaus áður en tímabundin svipting atkvæðisréttar átti sér stað, eða eftirmaður hans sem kjörinn hefur verið í samræmi við 3. gr. (c) (i) í skráarauka L eða (f) að ofan, hafa rétt til að greiða þann atkvæðafjölda sem aðildarríkinu hefur verið úthlutað ef engar venjulegar kosningar fastafulltrúa hafa átt sér stað á meðan á sviptingu atkvæðisréttar stóð. Aðildarríkið skal vera álitið hafa tekið þátt í kjöri þess fastafulltrúa sem hefur rétt til að greiða þann fjölda atkvæða sem aðildarríkinu er úthlutað.“

6. Breyting á texta 3. gr. (j) XII. kafla skal lesast sem hér segir:
„(j) Sjóðráð skal samþykkja reglur sem heimila aðildarríki að senda fulltrúa á alla fundi framkvæmdastjórnar þar sem beiðni frá, eða málefni sem sérstaklega viðvíkur, aðildarríkinu er til umræðu.“


7. Breyting á texta 8. gr. XII. kafla skal lesast sem hér segir:
„Sjóðurinn skal ævinlega hafa rétt til þess að koma skoðunum sínum á öllum málefnum sem falla undir stofnskrá þessa til skila til aðildarríkis með óformlegum hætti. Sjóðurinn má, með 70 prósenta meirihluta heildaratkvæðafjölda, ákveða að gefa út skýrslu sem send hefur verið til aðildarríkis varðandi fjármagns- eða efnahagsstöðu þess og aðstæður sem hafa beina tilhneigingu til að skapa alvarlegan óstöðugleika í greiðslujöfnuði aðildarríkja. Umrætt aðildarríki skal hafa rétt til þess að skipa fulltrúa í þessu máli í samræmi við 3. gr. (j) þessa kafla. Sjóðurinn skal ekki gefa út skýrslur er varða breytingar á grunnuppbyggingu hagkerfis aðildarríkja.“

8. Breyting á texta XXI. kafla (a) (ii) skal lesast sem hér segir:
„(a) (ii) Þegar framkvæmdastjórn tekur ákvarðanir er ná eingöngu til SDR-deildar skulu aðeins þeir fastafulltrúar sem kosnir hafa verið af einu aðildarríki sem tekur þátt í henni hafa atkvæðisrétt. Hver fastafulltrúi skal hafa rétt til að greiða þann atkvæðafjölda sem úthlutaður er þeim aðildarríkjum er taka þátt og áttu hlut í kosningu hans. Aðeins nærvera þeirra fastafulltrúa sem kosnir voru af aðildarríkjum sem taka þátt og atkvæðafjöldi umræddra aðildarríkja skal talinn til þess að skera úr um það hvort fundarseta sé nægjanleg til að fundur teljist gildur eða hvort tilskilinn meirihluti standi að baki tiltekinni ákvörðun.“

9. Breyting á texta XXIX. kafla (a) skal lesast sem hér segir:
„(a) Allar túlkunarspurningar varðandi innihald þessarar Stofnskrár sem kunna að koma upp á milli aðildarríkis og sjóðsins eða aðildarríkja á meðal skulu sendar framkvæmdastjórninni til úrskurðar. Ef spurningin kemur sérlega nærri hagsmunum aðildarríkis skal það eiga rétt á fulltrúa í samræmi við 3. gr. (j) kafla XII.“


10.     Breyting á texta 1.(a) málsgreinar í skráarauka D skal lesast sem hér segir:
„(a) Hvert aðildarríki (eða hópur aðildarríkja) sem lætur einn fastafulltrúa greiða þann atkvæðafjölda sem því er úthlutað, skal skipa í ráðið einn ráðsfulltrúa, sem skal vera fulltrúi í sjóðráði, ráðherra í ríkisstjórn aðildarríkis, eða gegna sambærilegri stöðu. Auk þess má hvert aðildarríki (eða hópur aðildarríkja) skipa eigi fleiri en sjö aðstoðarmenn ráðsfulltrúa síns. Sjóðráð má breyta, með áttatíu og fimm prósenta meirihluta heildaratkvæðafjölda, fjölda aðstoðarmanna sem skipa má. Hver ráðsfulltrúi eða aðstoðarmaður skal gegna embætti þar til nýr aðili er valinn í stöðuna eða fram að næsta venjulega kjöri fastafulltrúa, hvort heldur sem fyrr hendir.“

11. Texta 5.(e) málsgreinar í skráarauka D skal eyða.

12. Málsgrein 5(f) í skráarauka D skal endurnúmera 5(e) í skráarauka D og breyting á texta nýju greinarinnar nr. 5(e) skal lesast sem hér segir:
„(e) Þegar fastafulltrúi hefur rétt til að greiða atkvæðafjölda sem aðildarríki hefur verið úthlutað, sbr. 3. gr. (i) (iii) kafla XII, skal sá ráðsfulltrúi sem skipaður hefur verið af hópi þeim er kaus umræddan fastafulltrúa hafa rétt til að greiða atkvæði, og skal hann hafa sama atkvæðafjölda og fellur í skaut umræddu aðildarríki. Aðildarríkið skal vera álitið hafa tekið þátt í skipun þess ráðsfulltrúa sem hefur rétt til að greiða atkvæði og nýta sér atkvæðafjölda þann sem aðildarríkinu er úthlutað.“

13.     Breyting á texta skráarauka E skal lesast sem hér segir:
„Bráðabirgðaákvæði varðandi fastafulltrúa

1. Við gildistöku þessa skráarauka skal taka tillit til eftirfarandi atriða:
(a) Hver fastafulltrúi sem skipaður í samræmi við fyrrum 3. gr. (b) (i) kafla XII og gegndi embætti við gildistöku þessar skráarauka skal vera álitinn kosinn af aðildarríki því er valdi hann; og



(b) Hver fastafulltrúi sem greiddi þann fjölda atkvæða sem tilheyrði aðildarríki í samræmi við fyrrum 3. gr. (b) (ii) kafla XII fram að gildistöku þessa skráarauka skal vera álitinn kosinn af umræddu aðildarríki.“

14. Breyting á texta 1.(b) málsgreinar í skráarauka L skal lesast sem hér segir:
„(b)velja fulltrúa eða varafulltrúa í sjóðráð, velja eða taka þátt í vali á ráðsfulltrúa eða staðgengli ráðsfulltrúa, eða kjósa eða taka þátt í kjöri fastafulltrúa.“


15.     Breyting á texta inngangs 3.(c) málsgreinar í skráarauka L skal lesast sem hér segir:

„(c) Fastafulltrúi sá er aðildarríkið hefur kosið eða tekið þátt í að kjósa skal missa embætti sitt, nema að téður fastafulltrúi hafi rétt til að greiða atkvæðafjölda þann er úthlutaður hefur verið öðru aðildarríki sem ekki hefur verið svipt atkvæðisrétti tímabundið. Sé hið síðara rétt:“


Attachment II Proposed Amendment of the Articles of Agreement of the International Monetary Fund on the Reform of the Executive Board

The Governments on whose behalf the present Agreement is signed agree as follows:

1. The text of Article XII, Section 3(b) shall be amended to read as follows:
„(b) Subject to (c) below, the Executive Board shall consist of twenty Executive Directors elected by the members, with the Managing Director as chairman.“


2. The text of Article XII, Section 3(c) shall be amended to read as follows:
„(c) For the purpose of each regular election of Executive Directors, the Board of Governors, by an eighty-five percent majority of the total voting power, may increase or decrease the number of Executive Directors specified in (b) above.“

3. The text of Article XII, Section 3(d) shall be amended to read as follows:
„(d) Elections of Executive Directors shall be conducted at intervals of two years in accordance with regulations which shall be adopted by the Board of Governors. Such regulations shall include a limit on the total number of votes that more than one member may cast for the same candidate.“

4. The text of Article XII, Section 3(f) shall be amended to read as follows:
„(f) Executive Directors shall continue in office until their successors are elected. If the office of an Executive Director becomes vacant more than ninety days before the end of his term, another Executive Director shall be elected for the remainder of the term by the members that elected the former Executive Director. A majority of the votes cast shall be required for election. While the office remains vacant, the Alternate of the former Executive Director shall exercise his powers, except that of appointing an Alternate.“

5. The text of Article XII, Section 3(i) shall be amended to read as follows:
„(i) (i) Each Executive Director shall be entitled to cast the number of votes which counted towards his election.

(ii) When the provisions of Section 5(b) of this Article are applicable, the votes which an Executive Director would otherwise be entitled to cast shall be increased or decreased correspondingly. All the votes which an Executive Director is entitled to cast shall be cast as a unit.

(iii) When the suspension of the voting rights of a member is terminated under Article XXVI, Section 2(b), the member may agree with all the members that have elected an Executive Director that the number of votes allotted to that member shall be cast by such Executive Director, provided that, if no regular election of Executive Directors has been conducted during the period of the suspension, the Executive Director in whose election the member had participated prior to the suspension, or his successor elected in accordance with paragraph 3(c)(i) of Schedule L or with (f) above, shall be entitled to cast the number of votes allotted to the member. The member shall be deemed to have participated in the election of the Executive Director entitled to cast the number of votes allotted to the member.“

6. The text of Article XII, Section 3(j) shall be amended to read as follows:
„(j) The Board of Governors shall adopt regulations under which a member may send a representative to attend any meeting of the Executive Board when a request made by, or a matter particularly affecting, that member is under consideration.“

7. The text of Article XII, Section 8 shall be amended to read as follows:
„The Fund shall at all times have the right to communicate its views informally to any member on any matter arising under this Agreement. The Fund may, by a seventy percent majority of the total voting power, decide to publish a report made to a member regarding its monetary or economic conditions and developments which directly tend to produce a serious disequilibrium in the international balance of payments of members. The relevant member shall be entitled to representation in accordance with Section 3(j) of this Article. The Fund shall not publish a report involving changes in the fundamental structure of the economic organization of members.“

8. The text of Article XXI(a)(ii) shall be amended to read as follows:
„(a) (ii) For decisions by the Executive Board on matters pertaining exclusively to the Special Drawing Rights Department only Executive Directors elected by at least one member that is a participant shall be entitled to vote. Each of these Executive Directors shall be entitled to cast the number of votes allotted to the members that are participants whose votes counted towards his election. Only the presence of Executive Directors elected by members that are participants and the votes allotted to members that are participants shall be counted for the purpose of determining whether a quorum exists or whether a decision is made by the required majority.“

9. The text of Article XXIX(a) shall be amended to read as follows:
„(a) Any question of interpretation of the provisions of this Agreement arising between any member and the Fund or between any members of the Fund shall be submitted to the Executive Board for its decision. If the question particularly affects any member, it shall be entitled to representation in accordance with Article XII, Section 3(j).“

10. The text of paragraph 1(a) of Schedule D shall be amended to read as follows:
„(a) Each member or group of members that has the number of votes allotted to it or them cast by an Executive Director shall appoint to the Council one Councillor, who shall be a Governor, Minister in the government of a member, or person of comparable rank, and may appoint not more than seven Associates. The Board of Governors may change, by an eighty-five percent majority of the total voting power, the number of Associates who may be appointed. A Councillor or Associate shall serve until a new appointment is made or until the next regular election of Executive Directors, whichever shall occur sooner.“


11. The text of paragraph 5(e) of Schedule D shall be deleted.

12. Paragraph 5(f) of Schedule D shall be renumbered 5(e) of Schedule D and the text of the new paragraph 5(e) shall be amended to read as follows:
„(e) When an Executive Director is entitled to cast the number of votes allotted to a member pursuant to Article XII, Section 3(i)(iii), the Councillor appointed by the group whose members elected such Executive Director shall be entitled to vote and cast the number of votes allotted to such member. The member shall be deemed to have participated in the appointment of the Councillor entitled to vote and cast the number of votes allotted to the member.“


13. The text of Schedule E shall be amended to read as follows:
„Transitional Provisions with Respect to Executive Directors
1. Upon the entry into force of this Schedule:

(a) Each Executive Director who was appointed pursuant to former Article XII, Sections 3(b)(i) or 3(c), and was in office immediately prior to the entry into force of this Schedule, shall be deemed to have been elected by the member who appointed him; and

(b) Each Executive Director who cast the number of votes of a member pursuant to former Article XII, Section 3(i)(ii) immediately prior to the entry into force of this Schedule, shall be deemed to have been elected by such a member.“

14. The text of paragraph 1(b) of Schedule L shall be amended to read as follows:
„(b) appoint a Governor or Alternate Governor, appoint or participate in the appointment of a Councillor or Alternate Councillor, or elect or participate in the election of an Executive Director.“

15. The text of the chapeau of paragraph 3(c) of Schedule L shall be amended to read as follows:
„(c) The Executive Director elected by the member, or in whose election the member has participated shall cease to hold office, unless such Executive Director was entitled to cast the number of votes allotted to other members whose voting rights have not been suspended. In the latter case:“

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins.

    Með frumvarpi þessu er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hækkun á kvóta sjóðsins, en svo nefnist stofnfé hans, er samkvæmt samþykkt yfirstjórnar sjóðsins og gerð í tengslum við fjórtándu endurskoðun á stofnfé hans.
    Gert er ráð fyrir að heildarkvóti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði tvöfaldaður og hækki úr 238,4 milljarða SDR í 476,8 milljarða SDR. Kvóti Íslands hækki hins vegar úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR eða um 173% og mun hlutdeild Íslands í kvótum sjóðsins hækka nokkuð við þessa breytingu eða úr 0,055% í 0,067%. Gangi framangreind áform eftir mun kvóti Íslands jafngilda 58,6 mia. kr. miðað við gengi SDR 18. október 2011.
    Til þess að sjóðurinn geti rækt það hlutverk sem honum er ætlað af alþjóðasamfélaginu er nú talið nauðsynlegt að afla honum aukins starfsfjár en mikilvægasti þátturinn í fjármögnun hans eru stofnframlög aðildarríkja. Stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er endurskoðað með reglulegu millibili, venjulega á fimm ára fresti. Síðast leiddi endurskoðun til hækkunar kvóta árið 1998 sem var ellefta endurskoðun. Hins vegar voru engar hækkanir gerðar eftir 12. og 13. endurskoðun. Kvótahækkunin núna kemur í framhaldi af breytingum á stofnskrá sjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn hans árið 2008. Breytingarnar voru síðan samþykktar sem lög frá Alþingi 28. janúar 2011.
    Ísland hefur hag af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi geta aðildarríkin tekið hagstæð lán úr ýmsum lánaflokkum sjóðsins sem ráðast af tiltekinni viðmiðun í kvóta viðkomandi ríkis. Ísland hefur nokkrum sinnum tekið lán hjá sjóðnum, síðast árið 2008. Í öðru lagi ræðst atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra.
    Verði frumvarpið lögfest mun nýtt framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nema um 37,2 mia. kr. en í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins greiðast þrír fjórðu hlutar í íslenskum krónum og einn fjórði í SDR. Sá hluti kvótahækkunarinnar sem greiddur er í SDR og nemur 51 milljónum SDR eða rúmlega 9,3 mia. kr. greiðist af Seðlabanka Íslands, sem fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Framlagið myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum og telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans og því er um að ræða breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans. Sá hluti framlagsins sem er í íslenskum krónum og nemur tæpum 28 mia. kr. er ekki inntur af hendi heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kröfu á innstæðu í Seðlabankanum sem nemur umræddri fjárhæð.
    Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á útgjöld eða skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    * Kvótar hafa verið samningsatriði þótt kvótaformúlur hafi verið hafðar til hliðsjónar. Of- eða vanreiknaðir kvótar miðast við niðurstöðu úr gildandi kvótaformúlu.