Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 376  —  319. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um faglega úttekt á réttargeðdeildinni að Sogni í Ölfusi.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Atli Gíslason, Kristján L. Möller, Gunnar Bragi Sveinsson,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Oddný G. Harðardóttir,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Árni Johnsen, Róbert Marshall.

    Alþingi ályktar að fram fari fagleg úttekt á rekstri og reynslu af starfrækslu réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi. Einnig verði metnir kostir og gallar þess að flytja starfsemina frá Sogni á Kleppsspítala út frá faglegum rökum. Þar til úttektin liggur fyrir verði flutningi stofnunarinnar frá Sogni á Kleppsspítala frestað. Velferðarráðherra skipi starfshóp til að framkvæma úttektina samkvæmt tilnefningum Geðverndar sem velji fulltrúa úr hópi gæslufólks á Sogni, Geðlæknafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Skal úttektinni lokið í maí 2012 og skilað til velferðarnefndar Alþingis og velferðarráðherra.

Greinargerð.


    Í tvo áratugi hefur réttargeðdeildin að Sogni í Ölfusi verið starfrækt. Stofnun deildarinnar átti sér stað eftir nokkur átök um rekstur, staðsetningu og starfsemi deildarinnar. Þau átök eru að baki og við blasir jákvæð reynsla af starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni.
    Auðvitað má alltaf rökræða um staðsetningu á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Ákvörðunin um að byggja hana upp á Sogni var tekin fyrir tveimur áratugum og reynslan af henni er farsæl. Samfélagið þar hefur fóstrað starfsemina vel og er uppbygging hennar á svæðinu um leið skuldbinding við samfélagið. Því þurfa afgerandi fagleg rök að liggja fyrir ef leggja á deildina niður og flytja annað eins og stjórnendur Landspítalans hafa boðað. Sú ákvörðun hefur valdið hörðum deilum og mikilvægt er að setja þær niður með faglegri úttekt á kostum og göllum þess hvort betra sé fyrir vistmenn á réttargeðdeildinni að hún verði áfram að Sogni eða flutt á Kleppsspítala.
    Það sem mestu skiptir við ákvörðun um hvort starfrækja eigi deildina áfram að Sogni eða flytja hana á Kleppsspítala er velferð þeirra vistmanna sem þar eru vistaðir, meðferð sem geðsjúkir afbrotamenn fá á réttargeðdeildinni og batahorfur þeirra. Flutningsmenn tillögunnar ítreka að fagleg rök og velferð vistmanna eigi að ráða úrslitum þegar ákvörðun er tekin um hvort réttargeðdeildin að Sogni skuli áfram starfrækt eða starfsemin lögð niður og hún flutt. Hins vegar þurfa skýr fagleg rök að liggja að baki ákvörðun um flutning rótgróinnar stofnunar á borð við Sogn.
    Reynslan af réttargeðdeildinni að Sogni virðist góð og hefur það verið niðurstaða fyrri úttekta á starfseminni og þarf því að rökstyðja það ítarlega og faglega ef á að leggja deildina niður og flytja annað.
    Því leggja flutningsmenn það til að ákvörðun um flutning réttargeðdeildarinnar verði frestað þar til fagleg úttekt á rekstrinum liggur fyrir og að niðurstaða hennar ráði úrslitum í málinu. Flutningsmenn ítreka að byggðaleg sjónarmið eigi ekki að ráða niðurstöðunni þegar kemur að sérhæfri, faglegri heilbrigðisþjónustu á borð við réttargeðdeild. Þar sem reynslan af Sogni er góð þá hljóta hugmyndir um að færa hana kalla á sérstaka faglega úttekt á kostum þess og göllum að flytja hana eða hafa áfram þar sem hún er nú.
    Á þeim 19 árum sem Sogn hefur verið starfrækt hafa 50 sjúklingar verið lagðir inn og 44 verið útskrifaðir með mjög góðum árangri. Enginn hefur verið endurdæmdur til vistar á Sogni. Það er því er óhætt að segja að100% árangur sé af meðferðinni. Á starfstíma Sogns hafa sjúklingarnir verið sjö , þ.e. fullt hús, og í nokkur ár hafa sjúklingarnir orðið átta vegna endurinnlagna og eitt árið voru sjúklingarnir níu.
    Á Sogni er lítil starfsmannavelta og hafa starfsmenn verið lengi í starfi. Þeir hafa því mikla reynslu og þekkingu sem er mikilvæg fyrir sjúklingana sem eru vistaðir til langs tíma. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á Sogni og húsið hefur í alla staði sannað að það þjónar ágætlega sínu hlutverki þótt auðvitað sé þar þröngt. Hins vegar þarf að bæta aðstöðuna og byggja við eins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra lagði til að gert yrði fyrir nokkrum árum.
    Þá hefur formaður Geðlæknafélags Íslands lýst því yfir að hann telji þá ákvörðun Landspítalans að flytja deildina ranga faglega.
    Í þeirri úttekt sem lagt er til að fari fram þarf m.a. að fara í gegnum álit starfshóps sem skipaður var í janúar 2006 af Jóni Kristjánssyni, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Um var að ræða fjögurra manna starfshóp sem gerði úttekt á húsakynnum réttargeðdeildarinnar að Sogni og vann frumathugun á stækkun og endurbótum. Í hópinn voru skipaðir: Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, formaður, Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Magnús Skúlason, yfirlæknir réttargeðdeildar að Sogni, og Leifur Benediktsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Niðurstaða starfshópsins var sú að nauðsynlegt væri að rekin yrði hér á landi réttargeðdeild með a.m.k 20 rýmum í heild, þar af væru tvö sérrými sem gripið yrði til við erfiðustu sjúklingana.
    Það var einnig niðurstaða starfshópsins að heppilegast væri að halda starfseminni áfram að Sogni með því að byggja við húsakostinn og endurbæta og endurinnrétta þau hús sem fyrir voru eftir þörfum. Jafnframt þyrfti að hefja sem fyrst hönnun og smíði nýrrar byggingar sem æskilegt væri að yrði sambyggð gamla húsinu eða að vel innangengt yrði á milli húsanna. Í gömlu byggingunni yrðu framvegis ekki vistrými sjúklinganna heldur vinnuaðstaða starfsfólks og e.t.v. að hluta vistmanna líka, fundarherbergi og fleira.
    Það er augljóst að deildar meiningar eru uppi um framtíð réttargeðdeildarinnar á Sogni. Auðvitað má tína til rök með og móti staðsetningu deildarinnar. Til að útkljá málið og ná viðunandi sátt og samráði um ákvörðunina þarf að skera afdráttarlaust úr um kosti og galla flutnings eða framhaldsreksturs réttargeðdeildarinnar þannig að það sé yfir allan vafa hafið að óháð fagleg úttekt ráði ákvörðuninni.