Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 416  —  340. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni: Þjóðleikhúsið (2008).


    Með bréfi dags. 7. október sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni: Þjóðleikhúsið (2008) til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa. Framsögumaður málsins er formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir. Á fund nefndarinnar komu Kristín Kalmansdóttir og Þórir Óskarsson frá Ríkisendurskoðun, Hellen M. Gunnarsdóttir, Jenný Jensdóttir og Guðný Helgadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Ari Matthíasson frá Þjóðleikhúsinu.
    Í skýrslunni er fylgt eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Þjóðleikhúsinu frá 2008. Þá beindi Ríkisendurskoðun sautján ábendingum til Þjóðleikhússins og menntamálaráðuneytis. Nefndin lýsir yfir ánægju með að meiri hluti ábendinganna hafi komið til framkvæmda, þ.e. ellefu af sautján og að auki tvær að hluta til en fjórar hafa ekki komið til framkvæmdar samkvæmt eftirfylgniskýrslunni.
    Ríkisendurskoðun ítrekar sex ábendingar og er ein að hluta til ný vegna breyttra aðstæðna. Nefndin leitaði eftir viðbrögðum hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Þjóðleikhúsi við þeim ábendingum sem eftir standa.

Ábendingar til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Endurmat á lögbundnum verkefnum.
    Hér er að hluta til um nýja ábendingu að ræða, þ.e. að endurmeta þurfi lögbundin verkefni Þjóðleikhússins m.a. vegna tilkomu nýs tónlistarhúss í Reykjavík. Leiklistarlög eru til endurskoðunar hjá ráðuneytinu og drög að nýju frumvarpi um allar sviðslistir eru nú til umsagnar hjá hagsmunaaðilum. Frumvarpið verður lagt fram á þessu löggjafarþingi samkvæmt þingmálaskrá. Nefndin beinir því til allsherjar- og menntamálanefndar að huga sérstaklega að þessu atriði þegar hún fær frumvarpið til umfjöllunar.

Starfsemi þjóðleikhúsráðs í fastari skorður.
    Fram kom hjá fulltrúum ráðuneytisins að lagareglur um starfsemi leikhúsráðs hafi verið nánar útfærðar í reglugerð sem tók gildi 15. janúar 2009. Nefndin lítur svo á að með setningu reglugerðarinnar hafi því verið brugðist við ábendingunni strax eftir að skýrslan kom út í nóvember 2008.

Móta þarf framtíðarstefnu um húsnæðismál Þjóðleikhússins.
    Ráðuneytið telur að frumkvæði að mótun slíkrar stefnu eigi að koma frá Þjóðleikhúsinu.
Nefndin telur eðlilegt að stjórnendur, þ.e. þjóðleikhússtjóri og þjóðleikhúsráð, leggi fram sínar hugmyndir og tillögur um hvað þarf að gera til að bæta húsnæðiskost leikhússins.

Ábendingar til Þjóðleikhússins.
Endurskoða þarf reglur um frímiða.
    Fulltrúi Þjóðleikhússins upplýsti að reynt hafi verið að draga úr frímiðum frá því að stjórnsýsluúttektin var gerð (2008). Frímiðar eru nú u.þ.b. 13% af heildarmiðafjölda en voru 16–19% þegar úttektin var gerð. Kom fram að tölurnar gæfu ekki rétta mynd þar sem afsláttarmiðar („tveir fyrir einn“) eru skráðir sem frímiðar. Jafnframt eru í þessum tölum frímiðar fyrir börn og unglinga vegna kynningar á starfsemi leikhússins og forvarnastarfs og enn fremur frímiðar og afsláttarmiðar fyrir atvinnulausa og aldraða. Nefndin hefur skilning á að frímiðar eru eðlilegur þáttur af starfsemi leikhúsa hvort heldur eru boð á frumsýningar, hluti af markaðssetningu eða menningar- og samfélagsleg verkefni eins og þau sem þjóðleikhúsið hefur lagt lið. Á hinn bóginn er ljóst að hér er um viðkvæman þátt að ræða, og að mati nefndarinnar væri ekki óeðlilegt að Þjóðleikhúsráð setti reglur þar um og að það væri hugað sérstaklega að þessum þætti við áætlanagerð hvers árs. Heppilegt væri að halda skrá yfir hlut hinna ýmsu tegunda frí- og afsláttarmiða til þess að auka gagnsæi í rekstri leikhússins.

Gerð verði áætlun um endurnýjun tækjabúnaðar Þjóðleikhússins.
    Fulltrúi Þjóðleikhússins kvað slíka áætlun vera til. Nefndin telur eðlilegt að stofnanir ríkisins sjái lítinn tilgang í að miðla slíkum áætlunum til ráðuneytis á niðurskurðartímum. Á hinn bóginn telur nefndin rétt að árétta að áætlanir um þarfir í framtíðinni eru alltaf skynsamlegar og beinir því til Þjóðleikhússins að senda slíkar áætlanir til ráðuneytisins.

Kanna þarf leiðir til að bæta nýtingu húsnæðis sérstaklega yfir sumartímann.
    Ljóst er að hér er auðveldara um að tala enn í að komast. Möguleikar á því að nota húsnæðið yfir sumartímann miðast við kjarasamninga. Starfsmenn hafa aukna vinnuskyldu yfir veturinn og fá lengra orlof á sumrin. Fulltrúi Þjóðleikhússins upplýsti að þessi möguleiki á tekjuöflun sé alltaf til skoðunar út frá því sjónarmiði að leikhúsið hafi ekki af því viðbótarkostnað. Nefndin telur að hér sé eðlilega að málum staðið en telur rétt að hugað verði sérstaklega að þessum þætti við áætlanagerð hvers árs.
    Nefndin gerir eftirfarandi tillögur:
          Til allsherjar- og menntamálanefndar: Að huga sérstaklega að ákvæðum um lögbundin verkefni Þjóðleikhússins með tilliti til tilkomu nýs tónlistarhúss í væntanlegu frumvarpi um sviðslistir.
          Við gerð tekjuáætlunar Þjóðleikhússins verði sérstaklega hugað að frímiðum.
          Að skrá verði haldin um hlut hinna ýmsu tegunda frí- og afsláttarmiða.
          Við áætlanagerð hverju sinni verði einnig hugað að möguleikum á frekari tekjuöflun með því að nýta húsnæði Þjóðleikhússins yfir sumartímann.

Alþingi, 21. nóv. 2011.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir,


1. varaform.


Róbert Marshall,


2. varaform.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Vigdís Hauksdóttir.



Margrét Tryggvadóttir.