Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.

Þingskjal 443  —  367. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Á eftir orðinu „tollyfirvöldum“ í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: í sex ár frá birtingardegi.

2. gr.

    2. mgr. 22. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    3. mgr. 36. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Á eftir orðinu „tollalögum“ í 3. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. laganna kemur: eða.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 108. gr. c laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að flytja vörur í umflutningsgeymslu á annað geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Óheimilt er að afhenda vörur úr umflutningsgeymslu til notkunar innan lands.

6. gr.

    Í stað tölunnar „30“ í 4. mgr. 114. gr. laganna kemur: 60.

7. gr.

    4. mgr. 120. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 125. gr. laganna orðast svo: Þó verða dráttarvextir einungis reiknaðir tvö ár aftur í tímann frá þeim degi sem úrskurður um endurákvörðun aðflutningsgjalda er kveðinn upp

9. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „15.000 evrum“ í 1. mgr. 162. gr. laganna kemur: 10.000 evrum.

10. gr.

    Við 1. mgr. 195. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Tolleftirlitsgjald þegar óskað er viðveru tollvarðar eða þjónustu tollgæslu utan almenns opnunartíma tollskrifstofu, svo sem vegna afgreiðslu hraðsendinga og póstsendinga og til að staðfesta útflutning vöru. Gjaldið skal standa straum af launakostnaði vegna tolleftirlits.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu 2., 3. og 7. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. febrúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið í fjármálaráðuneytinu en haft hefur verið samráð við tollstjóra við vinnslu þess. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tollalögum af margvíslegum toga en jafnframt eru lagðar til smávægilegar lagfæringar.
    Í fyrsta lagi er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að gildistími bindandi álita um tollflokkun verði sex ár í stað þess að álitin gildi ótímabundið. Breytingar í tollflokkun og tækniþróun gera það meðal annars að verkum að brýnt er að takmarka gildistíma bindandi álita. Í öðru lagi er í 2., 3. og 7. gr. frumvarpsins lagt til að sjö daga frestur hraðsendingarfyrirtækja til að skila inn aðflutningsskýrslum til tollstjóra verði felldur niður. Talið er afar brýnt að fella ákvæðið brott enda hefur ákvæðið í för með sér aukna hættu á að ólögleg vara komist inn í landið. Verði það samþykkt mun tollstjóri gera viðeigandi ráðstafanir til að afhendingartími hraðsendinga verði sá sami og áður. Í þriðja lagi er í 5. gr. frumvarpsins lagt til að heimilt verði að flytja vöru úr umflutningsgeymslu yfir í annars konar geymslur fyrir ótollafgreiddar vörur. Samkvæmt núgildandi lögum er slík færsla á vöru í umflutningi óheimil. Breytingin mundi bæta rekstrarskilyrði umflutningsgeymslna án þess þó að torvelda tolleftirlit um of. Í fjórða lagi er í 6. gr. frumvarpsins lagt til að frestur tollstjóra til þess að kveða upp úrskurð við endurákvörðun aðflutningsgjalda verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá lokum þess frests sem innflytjanda var veittur til andmæla. Þau mál sem eru til umfjöllunar hjá tollstjóra geta oft og tíðum verið tímafrekari en svo að umræddur 30 daga frestur nægi til að fullvinna málin. Í fimmta lagi er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að upphafsmark dráttarvaxta vegna vangreiddra aðflutningsgjalda sem stafar af endurákvörðun verði það sama hvort sem tollafgreiðsla hafi farið fram með rafrænum eða skriflegum hætti. Breytingunni er ætlað að samræma upphafsmark dráttarvaxta þannig að það verði í báðum tilvikum gjalddagi aðflutningsgjalda en þó þannig að dráttarvextir verði ekki reiknaðir lengra en tvö ár aftur í tímann. Í 10. gr. frumvarpsins eru svo í sjötta og síðasta lagi lagðar til auknar heimildir til gjaldtöku af hálfu tollstjóra þegar óskað er viðveru tollvarða utan almenns afgreiðslutíma. Í 4. og 9. gr. frumvarpsins er jafnframt að finna ákvæði sem ætlað er að lagfæra texta laganna til skýringar og samræmis.
    Efni frumvarpsins hefur ekki gefið ástæðu til að meta samræmi við löggjöf annarra landa að undanskildu ákvæði um hraðsendingar. Nánari umfjöllun um það má finna í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði frumvarpsins snerta fyrst og fremst innflutningsaðila á vörum og aðila sem veita þeim þjónustu. Bæði vegna fjölda þeirra aðila sem um ræðir og tímaskorts var ekki haft samráð við þá við gerð frumvarpsins.
    Verði frumvarpið samþykkt mun það hafa ýmis áhrif á hagsmunaaðila. Helstu áhrif frumvarpsins mundu verða þau að hraðsendingarfyrirtæki þyrftu að breyta skilum á aðflutningsskýrslum, þeir sem leita aðstoðar tollgæslu utan almenns afgreiðslutíma vegna hraðsendinga og póstsendinga og til að staðfesta útflutning vöru þyrftu að greiða gjald fyrir slíka þjónustu, útreikningur dráttarvaxta við endurákvörðun aðflutningsgjalda hækkuðu í tilviki þeirra sem skila rafrænum skýrslum og notkunarmöguleikum umflutningsgeymslna fjölgaði.

Um. 1. gr.

    Lagt er til að gildistími bindandi álita um tollflokkun verði takmarkaður við sex ár í stað þess að þau gildi ótímabundið eins og nú er. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á bindandi álit sem þegar hafa verið gefin út. Telja verður að afmarkaður gildistími bindandi álita bæti möguleika til endurskoðunar álitanna í samræmi við þær breytingar sem verða á tollflokkun, tækniþróun eða framleiðsluaðferðum.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 22. gr. gildandi laga verði fellt brott. Ákvæðið, eins og það stendur í gildandi lögum, heimilar hraðsendingarfyrirtækjum að afhenda hraðsendingar áður en aðflutningsskjölum er skilað inn til tollstjóra. Í framkvæmd hefur verið miðað við að frestur til að skila inn aðflutningsskýrslum og tollafgreiða hraðsendingar sé sjö dagar skv. 46. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, sbr. 4. mgr. 120. gr. tollalaga. Ekki er mælt fyrir um slíkan frest eða heimild til að afhenda hraðsendingar áður en tollafgreiðsla fer fram í nágrannalöndum Íslands í Evrópu, utan Noregs þar sem svipaðar reglur gilda. Breytingin hefði í för með sér að skilyrði fyrir tollafgreiðslu hraðsendingar yrðu þau sömu og fyrir almennar tollafgreiðslur, þ.e. að öllum aðflutningsskjölum til að geta tollafgreitt vöruna þurfi að framvísa við tollafgreiðsluna. Frestur til að skila inn aðflutningsskýrslum hefur það í för með sér að búið er að afhenda vörur til móttakenda hraðsendinga þegar aðflutningsskýrslur berast tollstjóra og sendingar þannig tollafgreiddar án aðflutningsskjala í raun, á ábyrgð leyfishafa viðkomandi hraðsendingarþjónustu. Núverandi framkvæmd torveldar verulega tolleftirlit með innflutningi með hraðsendingum. Eftirlits- og síukerfi tollstjóra byggist að miklu leyti á þeim upplýsingum sem fram koma í aðflutningsskýrslum en þegar þær berast er orðið um seinan að viðhafa þess konar eftirlit. Staðan er því sú að meiri hætta er á að leyfisskyld eða ólögleg vara komist inn í landið með hraðsendingum en nauðsynlegt er og því afar brýnt að fella ákvæðið brott. Núverandi fyrirkomulag hefur einnig valdið vandkvæðum við innheimtu aðflutningsgjalda af hraðsendingum þar sem hraðsendingarfyrirtækin hafa ekki upplýsingar um það hvort móttakandi hraðsendingar hafi skuldfærsluheimild hjá tollstjóra. Með breytingunni fá fyrirtækin upplýsingarnar í tíma og gefst ráðrúm til að krefja móttakanda um staðgreiðslu aðflutningsgjalda sem þau mundu ella bera ábyrgð á. Tollstjóri mun tryggja að af hans hálfu hafi breytingin ekki áhrif á afhendingartíma hraðsendinga. Hjá tollstjóra er ekki þörf á stórvægilegum breytingum á verkferlum eða tölvukerfi til þess að komast megi hjá töfum. Verði breytingin að lögum mun tollstjóri taka í notkun nýjan rafrænan verkferil fyrir hraðsendingar sem sérstaklega er hannaður til þess að tafir á afhendingartíma verði ekki. Til að tryggja að breytingin gangi eftir án vandkvæða er lagt til að 2. gr. frumvarpsins taki ekki gildi fyrr en 1. febrúar 2012.

Um 3. gr.

    Til samræmis við tillögur frumvarpsins í 2. og 7. gr. er lagt til að 3. mgr. 36. gr. laganna um tryggingu vegna afhendingar hraðsendingar án greiðslu aðflutningsgjalda falli brott. Með sömu formerkjum og tilgreind eru í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistaka greinarinnar verði 1. febrúar 2012.

Um 4. gr.

    Í greininni er að finna smávægilega orðalagsbreytingu. Í núgildandi 3. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 91. gr. laganna segir að stjórnarmenn umsækjanda um leyfi til reksturs tollvörugeymslu megi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á tollalögum fyrir fíkniefnabrot. Hið rétta er að stjórnarmenn mega ekki hafa hlotið dóm vegna brota á tollalögum eða fyrir brot á fíkniefnalöggjöf og er greininni breytt til samræmis.

Um 5. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að flytja vörur sem geymdar eru í umflutningsgeymslum yfir í annars konar geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur. Samkvæmt núgildandi ákvæði er slík aðgerð bönnuð skv. 3. mgr. 108. gr. c laganna. Þær umflutningsgeymslur sem starfræktar eru í dag geyma eingöngu eldsneyti í skemmri eða lengri tíma fyrir erlenda aðila. Rekstur þessara umflutningsgeymslna hefur hins vegar verið háður þeim annmarka að ekki hefur verið hægt að nýta eldsneyti sem af ýmsum ástæðum verður eftir að geymslutíma loknum. Ef ákvæðið verður að lögum væri hægt að nýta afgangsolíu innan lands og bæta þannig rekstrarskilyrði viðkomandi geymslna án þess að slíkt kæmi niður á tolleftirliti.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að frestur tollstjóra til þess að kveða upp úrskurð við endurákvörðun aðflutningsgjalda verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá lokum þess frests sem innflytjanda var veittur til andmæla. Í úrskurðum ríkistollanefndar nr. 10, 12 og 16 frá árinu 2009 reyndi á núgildandi ákvæði 4. mgr. 114. gr. tollalaga. Í þessum málum fór tollstjóri fram úr þeim 30 daga fresti sem hann hefur til að kveða upp úrskurð. Ríkistollanefnd taldi ákvæðið vera fortakslaust og felldi úrskurði tollstjóra úr gildi. Hingað til hefur ekki verið litið svo á að það að farið væri fram yfir frestinn mundi eitt og sér valda ógildingu mála. Þau mál sem eru til umfjöllunar hjá tollstjóra geta oft og tíðum verið nokkuð umfangsmikil og tímafrek og er umræddur 30 daga frestur því of knappur. Er því lagt er til að fresturinn verði lengdur í 60 daga. Í þessu sambandi er horft til sambærilegs ákvæðis í 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þar segir að ríkisskattstjóri skuli innan tveggja mánaða að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar.

Um 7. gr.

    Til samræmis við tillögur frumvarpsins í 2. og 3. gr. er lagt til að 4. mgr. 120. gr., um að gjalddagi aðflutningsgjalda vegna hraðsendinga skuli vera sjö dögum eftir tollafgreiðslu sendingar, falli brott. Með sömu formerkjum og tilgreind eru í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistaka greinarinnar verði 1. febrúar 2012.

Um 8. gr.

    Í tollalögum gilda ólíkar reglur um gjalddaga vangreiddra aðflutningsgjalda og upphafsmark dráttarvaxta eftir því um hvernig seinni afgreiðslu er að ræða. Skv. 1. mgr. 125. gr. skulu dráttarvextir reiknast á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga. Þó verða dráttarvextir einungis ákvarðaðir frá því að innflytjanda barst tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun skv. 111. gr. en í tilvitnuðu lagaákvæði er fjallað um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna sendinga sem tollafgreiddar eru með rafrænum hætti. Í framkvæmd þýðir þetta að sendingar sem tollafgreiddar eru með rafrænum hætti bera dráttarvexti við endurákvörðun frá og með þeim degi sem viðkomandi innflytjandi tók við tilkynningu um fyrirhugaðan úrskurð. Ef um er að ræða endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir skriflega tollafgreiðslu, sbr. 112. gr., reiknast dráttarvextir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga.
    Eins og fram er komið er meginreglan samkvæmt tollalögum sú að dráttarvextir skulu reiknast á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga, sbr. 1. mgr. 125. gr. Með breytingunni er lagt til að sú regla gildi en þó með þeirri undantekningu að þegar um er að ræða endurákvörðun aðflutningsgjalda sé tollstjóra einungis heimilt að reikna dráttarvexti í allt að tvö ár aftur í tímann frá þeim degi sem úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp. Til að gæta samræmis er lagt til að sama regla gildi, hvort sem um er að ræða endurákvörðun vegna rafrænnar tollafgreiðslu skv. 111. gr. eða vegna skriflegrar tollafgreiðslu skv. 112. gr.
    Verði þessi tillaga frumvarpsins að lögum er gert ráð fyrir að hún gildi fyrir öll mál sem hafin eru eftir gildistöku hennar.

Um 9. gr.

    Með greininni er lagt til að verðmætamörk á reiðufé sem tollstjóra er heimilt að leggja hald á við komu eða brottför farmanns eða ferðamanns verði lækkuð. Skv. 2. mgr. 27. gr. tollalaga skulu ferðamenn og farmenn ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 10.000 evrum sem þeir hafa meðferðis við komu eða brottför frá landinu. Með lögum nr. 167/2008 um breytingu á tollalögum og fleiri lögum var fjárhæðarviðmiði 27. gr. breytt úr 15.000 evrum í 10.000 evrur. Hins vegar láðist á sama tíma að lækka fjárhæðarmörk til samræmis í haldlagningarheimild þessara fjármuna í 162. gr. laganna og er því lagt til að það verði gert hér.

Um 10. gr.

    Lagt til að nýjum tölulið verð bætt við 1. mgr. 195. gr. laganna sem heimili gjaldtöku vegna þjónustu tollgæslu sem óskað er eftir utan almenns opnunartíma tollskrifstofa, sem er virka daga frá 08 til 16. Dæmi um slíka þjónustu er eftirlit í tengslum við innflutning og afgreiðslu hraðsendinga og póstsendinga, auk staðfestingar á útflutningi vöru sem aðilar búsettir erlendis festa kaup á hér á landi og veitir þeim rétt á að fá virðisaukaskatt endurgreiddan að hluta. Er við það miðað að tollstjóri og hlutaðeigandi aðili, t.d. hraðflutningafyrirtæki eða endurgreiðsluaðili, gætu gert langtímasamning um þjónustuna í samræmi við 4. mgr. 195. gr.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

    Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á tollalögum af margvíslegum toga auk smávægilegra lagfæringa. Í 1. gr. er lagt til að gildistími bindandi álita um tollflokkun verði sex ár í stað þess að álitin gildi ótímabundið. Í 2., 3. og 7. gr. er lagt til að sjö daga frestur hraðsendingarfyrirtækja til að skila inn aðflutningsskýrslum til tollstjóra verði felldur niður. Í 5. gr. er lagt til að heimilt verði að flytja vöru úr umflutningsgeymslu yfir í annars konar geymslur fyrir ótollafgreiddar vörur. Lagt er til í 6. gr. að frestur tollstjóra til þess að kveða upp úrskurð við endurákvörðun aðflutningsgjalda verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga. Í 8. gr. er lagt til að upphafsmark dráttarvaxta vegna vangreiddra aðflutningsgjalda sem stafar af endurákvörðun verði gjalddagi aðflutningsgjalda hvort sem tollafgreiðsla hafi farið fram með rafrænum eða skriflegum hætti. Auk þessa eru svo lagðar til auknar heimildir til gjaldtöku af hálfu tollstjóra þegar óskað er viðveru tollvarða utan almenns afgreiðslutíma. Í frumvarpinu er jafnframt að finna ákvæði sem ætlað er að lagfæra texta laganna til skýringar og samræmis.
    Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins hafi teljandi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.