Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
2. uppprentun.

Þingskjal 501  —  304. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta
Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd
breytingar á stofnskrá sjóðsins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valgerði Rún Benediktsdóttur og Margréti Sæmundsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Ingvar H. Ragnarsson frá fjármálaráðuneyti og Jón Þ. Sigurgeirsson og Björn G. Ólafsson frá Seðlabanka Íslands.
    Fram kemur í athugasemdum frumvarpsins að til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti innt af hendi þær skyldur sem á hann eru lagðar sé nú talin þörf á að hækka stofnframlög aðildarríkjanna. Hlutverk sjóðsins hafi að undanförnu einkennst af því að veita þjóðum í skuldavanda skammtímafjármögnun og efnahagsráðgjöf. Þátttaka ríkja hafi áhrif á vægi atkvæða þeirra innan sjóðsins og möguleika á hagstæðri lánsfjármögnun.
    Samfara fjórtándu endurskoðuninni á stofnfé sjóðsins hafi heildarstofnfé (kvóti) sjóðsins verið tvöfaldað í 476,8 milljarðar SDR. Kvótahækkunin tekur gildi að uppfylltum þremur skilyrðum, í fyrsta lagi þegar fyrir liggur samþykki aðildarríkja sem ráða yfir 70% af stofnfé sjóðsins, en heimild þar að lútandi kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, í annan stað þegar tillaga um breytingar á stofnskrá vegna endurskipulagningar á framkvæmdastjórn sjóðsins hefur tekið gildi, sbr. 2. gr., og loks þegar breytingar á stofnskrá sem samþykktar voru árið 2008 hafa tekið gildi, sbr. lög nr. 5/2011.
    Fram kemur í 1. gr. frumvarpsins að hækkun á stofnframlagi Íslands fari úr 117,6 millj. SDR í 321,8 millj. SDR sem jafngildir 58,3 milljörðum kr. en samkvæmt þessu mun nýtt framlag nema 37,2 milljörðum kr. Gert er ráð fyrir að fjórðungur framlagsins, 9,254 millj. kr., verði greiddur í SDR (51 millj. SDR) með breytingum á samsetningu gjaldeyrisforðans. Sjóðurinn mun síðan eignast innstæðu í Seðlabankanum fyrir hinum hluta framlagsins sem þýðir að þeir fjármunir verða ekki inntir af hendi.
    Athygli skal vakin á því að ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2001, og skv. 2. mgr. 21. gr. sömu laga fer bankinn með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ekki talið að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs, auk þess sem á það hefur verið bent að um sé að ræða skuldbindingu af hálfu Seðlabankans sem hverfandi líkur séu á að falli á ríkissjóð.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lilja Mósesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.