Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 527  —  305. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (hækkun raforkueftirlitsgjalds).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Ingvi Már Pálsson og Erla S. Gestsdóttir frá iðnaðarráðuneytinu, Skúli Thoroddsen, Guðni Jóhannesson og Erla Björk Þorgeirsdóttir frá Orkustofnun, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, og Hilmar Ögmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Umsagnir bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Orkustofnun, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, og Orkuveitu Reykjavíkur.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á fjárhæð raforkueftirlitsgjalds sem kveðið er á um í 1. mgr. 31. gr. raforkulaga. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði vegna raforkueftirlits og er greitt annars vegar af flutningsfyrirtækinu (Landsnet hf.) og hins vegar af dreifiveitum. Gjaldið nemur nú 0,2 aurum á hverja kWst fyrir flutningsfyrirtækið og 0,5 aurum á hverja kWst fyrir dreifiveitur. Með frumvarpinu er lagt til að gjaldið verði tvöfaldað til að standa straum af auknum kostnaði vegna raforkueftirlitsins, þ.e. að gjaldið verði 0,4 aurar á hverja kWst fyrir flutningsfyrirtækið og 1 eyrir á hverja kWst fyrir dreifiveitur.
    Draga má helstu athugasemdir umsagnaraðila saman á eftirfarandi hátt:
     1.      Bent var á að allur kostnaður sem lagður er á flutning og dreifingu raforku væri á endanum greiddur af þeim sem kaupa raforku á almennum markaði. Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að hækkanir á raforkuverði hefðu þær beinu afleiðingar að rekstrarkostnaður raforkunotenda ykist og þær óbeinu afleiðingar að verðtryggðar skuldbindingar hækkuðu og kaupmáttur rýrnaði.
     2.      Vakin var athygli á því að dreifi- og flutningsveitur hefðu verið reknar samkvæmt ýtrustu kröfum laga og reglna og vel innan tekjumarka. Í því samhengi væri tvöföldun á umfangi eftirlits rausnarleg og án nægjanlegs tilefnis.
     3.      Rifjað var upp að raforkufyrirtækin hafi auk raforkueftirlitsgjaldsins greitt um 180 millj. kr. á ári til rafmagnseftirlits Mannvirkjastofnunar og að aðeins hluti af því gjaldi hafi skilað sér til eftirlitsstarfa en afgangur orðið eftir í ríkissjóði. Töldu umsagnaraðilar að eðlilegra væri að nýta þá fjármuni í að fjármagna raforkueftirlit áður en ráðist verði í hækkanir á raforkueftirlitsgjaldi.
    Í fylgiskjali með frumvarpinu kemur fram að Orkustofnun áætli að nýta hækkun raforkueftirlitsgjalds m.a. til að efla raforkueftirlit með bættum verkferlum og fjölgun starfsmanna. Þá verði fjármunum varið til að sinna nýjum verkefnum í kjölfar breytinga á raforkulögum, til nýrra verkefna til að bregðast við ábendingum í skýrslu Orkustofnunar Noregs og eflingar annarra þátta starfseminnar á sama grundvelli, til undirbúnings gildistöku lagaákvæða um aðskilnað á milli samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi og fjármögnunar ráðgjafavinnu utanaðkomandi aðila til ákvörðunar á arðsemi og hagræðingarkröfu fyrir eftirlitsskylda aðila.
    Á fundi nefndarinnar var gerð grein fyrir því að halli hefði verið á rekstri hins lögbundna raforkueftirlits á árunum 2010 og 2011. Þá hefðu breytingar á raforkulögum sem tóku gildi í mars síðastliðnum skapað tvo nýja útgjaldaliði, þ.e. ákvörðun tekjumarka flutningsfyrirtækisins og ákvörðun tekjumarka dreifiveitna, og báðir liðir kölluðu á aðkeypta þjónustu sérfróðra aðila. Að auki var gerð grein fyrir því að kostnaðaráætlun vegna reksturs raforkueftirlits á árinu 2012 gerði ráð fyrir heildarrekstrarkostnaði að fjárhæð 98,2 millj. kr., eða 50 millj. kr. meiri kostnaði en fyrir árið 2010, sem jafngildir u.þ.b. tvöföldun kostnaðar við raforkueftirlit. Sundurliðað felst hækkunin í að áætlað er að auka vinnuframlag um 80% frá árinu 2010 og 30% frá endurskoðaðri áætlun 2011, eða samtals um 80,5 millj. kr. áætlað í starfsmannakostnað. Að auki er áætlað að aðkeypt þjónusta, ferðakostnaður, endurmenntun o.fl. hækki úr 6,8 millj. kr. árið 2010 í 17,7 millj. kr. árið 2011. Til grundvallar framangreindu liggur m.a. úttekt óháðs aðila, Orkustofnunar Noregs, sem leiddi í ljós að starfsmannafjöldi Orkustofnunar sem sinnti raforkueftirliti væri ekki fullnægjandi og nauðsynlegt væri að tvöfalda hann hið minnsta. Þá er þar bent á að endurmennta þurfi og þjálfa starfsmenn og bæta vinnuskilyrði þeirra.
    Að mati fulltrúa iðnaðarráðuneytisins verða áhrifin af gjaldahækkuninni þau að tekjur af raforkueftirlitsgjaldinu hækka um 50 millj. kr. Hinir gjaldskyldu aðilar eru annars vegar Landsnet hf. og hins vegar dreifiveiturnar. Miðað við orkuflutning lenda um 33,5 millj. kr. af þessum 50 millj. kr. á Landsneti og þar sem stórnotendur eru u.þ.b. 80% af viðskiptum Landsnets má áætla að um 26 millj. kr. af framangreindri fjárhæð lendi á stórnotendum. Um 24 millj. kr. falla þá á hinn almenna markað (í gegnum dreifiveitur) sem sundurliðast þannig að um 19 millj. kr. lenda á fyrirtækjum og um 5 millj. kr. á heimilunum í landinu samkvæmt tölum frá Orkustofnun. Ef gjaldskrárhækkuninni er velt út í verðlag gæti kostnaðarhækkun hefðbundins heimilis numið um 30 kr. á ári, miðað við meðalársnotkun heimilis upp á 4500 kWst. Var það mat fulltrúanna að ákveðnar líkur væru á að framangreind hækkun rataði ekki öll út í verðlag þar sem með samþykkt frumvarpsins mundu líkur aukast verulega á að markmið um að bæta setningu tekjumarka næðust og þannig yrði til hagræðingar í rekstri dreifingarfyrirtækja.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að dreifiveitur væru fyrirtæki sem störfuðu á markaði sem í eðli sínu væri einokunarmarkaður. Af þeim sökum hefur löggjafinn kveðið á um ákvörðun tekjumarka dreifiveitna og skapað grundvöll fyrir eftirlit, m.a. með því að tekjumörkum sé fylgt. Í fylgiskjali frumvarpsins, skýrslu Orkustofnunar, kemur m.a. fram að eftirlitið hingað til hafi ekki verið nægilegt og það kunni að leiða til þess að markmiðum um hagræðingu í rekstri og samræmi tekna og kostnaðar, að teknu tilliti til arðsemi, verði ekki náð.
    Raforkueftirlitsgjald var lækkað með samþykkt laga nr. 67/2008, um breytingu á raforkulögum, en það hafði þá staðið óbreytt frá gildistöku raforkulaganna. Sé tekið tillit til verðlagsþróunar ætti gjald flutningsfyrirtækisins í dag að nema 0,25 aurum en gjald dreifiveitna að nema 0,62 aurum á kWst. Ef sú lækkun sem varð á gjaldinu árið 2008 hefði ekki orðið, að teknu tilliti til verðlagsþróunar, næmi gjald flutningsfyrirtækisins nú 0,46 aurum á kWst en gjald dreifiveitna 1,08 eyri á kWst.
    Álit meiri hlutans er að í ljósi eðlis raforkumarkaðar verði að gera töluverðar kröfur til þess að eftirlit með raforkufyrirtækjum sé fullnægjandi og tryggt sé að það nái þeim markmiðum sem liggja því til grundvallar. Að mati óháðs erlends aðila er núverandi fyrirkomulag eftirlitsins ekki fullnægjandi og er lagt til að ráðin verði bót á því með því m.a. að tvöfalda starfafjölda við eftirlitið. Markmið raforkulaga og raforkueftirlits eru nokkuð ljós og ætti það að koma öllum til góða að tryggt verði að þeim verði náð. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust frá iðnaðarráðuneytinu er ekki fyrirséð að hækkun raforkueftirlitsgjalds komi hart niður á almennum neytendum raforku. Efling raforkueftirlits kemur til með að skila sér í aukinni hagræðingu hjá hinum eftirlitsskyldu aðilum og öflugt eftirlit með setningu tekjumarka er til þess fallið að koma í veg fyrir hækkun raforkuverðs. Þrátt fyrir að afgangur sé af eftirlitsgjöldum vegna eftirlits Mannvirkjastofnunar eru þau greidd til eftirlits sem er annars eðlis. Þrátt fyrir að um tvöföldun gjaldsins sé að ræða er það mat meiri hlutans að hækkun gjaldsins sé hófleg í samhengi hlutanna.
    Í ljósi alls framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. desember 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.