Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 531  —  378. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008,
með síðari breytingum (hækkun skrásetningargjalda).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur, Einar Hreinsson og Jennýju Jensdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jón Atla Benediktsson og Guðmund R. Jónsson frá Háskóla Íslands, Guðrúnu Ragnarsdóttur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og Heimi Hannesson frá Stúdentaráði Háskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um opinbera háskóla, þ.e. Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, í þá veru að skrásetningargjöld sem nú nema 45.000 kr. hækki í 60.000 kr. Gjaldið hefur ekki verið hækkað frá árinu 2005 en það var áður 32.000 kr.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þessi hækkun skráningargjalda nemi 33% og heldur því ekki í við hækkun vísitölu neysluverðs frá september 2005 til september 2010, sem nam tæpum 47%. Ljóst er að kostnaður umræddra háskóla vegna þjónustu í tengslum við nemendaskrá hefur vaxið með auknum nemendafjölda og mun þessi hækkun auka tekjur Háskóla Íslands um 225 millj. kr. og Háskólans á Akureyri um 22,5 millj. kr.
    Nefndin bendir á að nemendur við Háskóla Íslands hafa í tilefni af frumvarpinu lagt áherslu á að námsmönnum í lánshæfu námi gefist kostur á námsláni fyrir þeirri fjárhæð sem nemur hækkun gjaldanna.
    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 13. des. 2011.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Skúli Helgason,


frsm.


Þráinn Bertelsson.



Oddný G. Harðardóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.