Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 383. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 547  —  383. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags
milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Margréti Magnúsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frumvarpið byggist á samkomulagi frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum sem gera það kleift að samkomulagið verði að veruleika. Lagðar eru til breytingar á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, lögum um námsgögn, lögum um grunnskóla, lögum um húsnæðismál og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Fram kom við umfjöllun um málið að nú þegar hafa forsendur breyst nokkuð frá því að samkomulagið var undirritað þar sem nemendum hefur fjölgað nokkuð sem og laun hækkað meira en gert var ráð fyrir. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að viðræður um endurskoðun þess hefjist fyrir 1. júní 2012. Nefndin gerir ráð fyrir að formlegar viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun samkomulagsins vegna breyttra forsendna muni fara fram sem fyrst.
    Nefndin telur að tryggja þurfi mat á og eftirlit með því að með framlagi ríkisins sé markmiði samkomulagsins náð, þ.e. að efla tónlistarnám og gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsskólastigi og söngnám á mið- og framhaldsskólastigi óháð búsetu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara um að við endurskoðun samkomulagsins verði tryggt að sveitarfélögin beri ekki skarðan hlut frá borði vegna hinna breyttu forsendna sem og að taka verði tillit til eininga við ákvörðun á útreikningi nemendaígilda til tónlistarskólanna.
    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. desember 2011.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Oddný G. Harðardóttir,


frsm.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


með fyrirvara.



Siv Friðleifsdóttir,


með fyrirvara.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.