Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 593  —  193. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Meiri hlutinn hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá fjármálaráðuneyti og Guðjón Rúnarsson og Örn Arnarson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Í svörum fjármálaráðuneytisins við umsögn Samtaka atvinnulífsins sem fram komu við meðferð málsins kemur fram að engar skýrar reglur gildi að íslenskum rétti um hvort skattar sem lagðir eru á tekjur og eignir teljist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar. Meiri hlutinn leggur til að 15. gr. frumvarpsins verði breytt til samræmis við 23. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að við frumvarpið verði bætt ákvæði um að endurskoðun laganna fari fram innan ársins 2012.
    Ákvörðunarástæða meiri hlutans fyrir afgreiðslu málsins til 3. umræðu er sú að þessum lagaáskilnaði verði fullnægt í samráði við fulltrúa allra flokka á þingi sem fái aðkomu að málinu með góðum fyrirvara.
    Meiri hlutinn fer þess á leit við fjármálaráðherra að hann virði þessa yfirlýsingu sem byggist á samkomulagi meiri hlutans við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni og gefin er í aðdraganda þingfrestunar. Tímarammi endurskoðunar markast af því að unnt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi næsta löggjafarþings ef breytinga er þörf.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      15. gr. orðist svo:
                      Fjársýsluskattur telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því leyti sem hann er ákvarðaður af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.
     2.      Við 17. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurskoðun laganna skal vera lokið fyrir 1. október 2012.

Alþingi, 16. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Skúli Helgason.


Lilja Mósesdóttir.


Logi Már Einarsson.