Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 715  —  469. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á kosningalögum (meðferð upplýsinga og gagna í kjörfundarstofu).

Flm.: Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson,
Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall, Sigurður Ingi Jóhannsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 78. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjörstjórn er einni heimilt að fara með upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu. Kjörstjórn er heimilt að afhenda umboðsmönnum upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu svo að umboðsmanni sé mögulegt að rækja lögbundið eftirlitshlutverk sitt, enda fari gögnin og upplýsingarnar ekki úr umsjón kjörstjórnar af kjörstað.

II. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjörstjórn er einni heimilt að fara með upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu. Kjörstjórn er heimilt að afhenda umboðsmönnum upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu svo að umboðsmanni sé mögulegt að rækja lögbundið eftirlitshlutverk sitt, enda fari gögnin og upplýsingarnar ekki úr umsjón kjörstjórnar af kjörstað.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til sambærilegar breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna, þ.e. ákvæðum er varða miðlun upplýsinga sem safnað er á kjördegi meðan á kjörfundi stendur. Ekki eru lagðar til breytingar á ákvæðum um söfnun og miðlun upplýsinga vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar þar sem eðlilegt getur talist að umboðsmenn hafi aðgang að þeim upplýsingum með góðum fyrirvara, sérstaklega þegar litið er til réttinda nýrra framboðslista.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði skýrt fram í lögum að kjörstjórn sé einni heimilt að fara með upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu á kjörfundi. Þá er lagt til að kjörstjórn verði heimilað að afhenda umboðsmönnum upplýsingar og gögn úr kjörfundarstofu í þeim tilgangi að þeim sé unnt að rækja lögbundið eftirlitshlutverk sitt en áskilið að ekki verði heimilt að fara með gögnin og upplýsingarnar úr umsjón kjörstjórnar. Meðal þeirra gagna og upplýsinga sem hér um ræðir eru upplýsingar um það hverjir eru á kjörskrá og hverjir hafa greitt atkvæði á kjörstað hvernig sem haldið er utan um þær.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að virða grundvallarrétt og persónufrelsi kjósenda til þess að kjósa eða að kjósa ekki og því er frumvarpið lagt fram. Þá telja þeir mikilvægt að tryggja að upplýsingar um kjósendur fari ekki til annarra en umboðsmanna og að þær séu ekki notaðar í öðrum tilgangi en samræmist lögum. Með því að kjörstjórnir hafi umsjón með gögnunum og upplýsingum sem unnar eru upp úr gögnunum þá sé framangreint tryggt án þess að gengið sé á rétt umboðsmanna til að uppfylla skyldur sínar og fylgjast með lögmæti kosninganna. Þeir eiga meðal annars að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina og geta þeir átalið við kjörstjórn það sem þeir telja að sé áfátt. Þá eiga þeir rétt á að vita nafn og önnur deili á hverjum þeim sem óskar að neyta atkvæðisréttar, til þess að geta gengið úr skugga um að enginn fái að neyta atkvæðisréttar oftar en einu sinni, og hafa hjá sér kjörskrá til að merkja jafnóðum við þá sem greitt hafa atkvæði í kjördeildinni.
    Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er í 83. gr. kveðið á um að eyða skuli kjörskrám að kærufresti loknum og er það á ábyrgð yfirkjörstjórnar að slíkt sé gert. Í 104. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um að yfirkjörstjórn skuli innsigla umbúðir og senda dómsmálaráðuneyti, nú innanríkisráðuneyti, sem geymir þær í eitt ár en eyðir þeim að þeim tíma liðnum. Í áliti Persónuverndar varðandi viðveru umboðsmanna framboðslista við kosningar o.fl. frá 10. mars 2003 í máli nr. 2002/252 kemur m.a. fram að skilja verði ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna svo að það taki jafnframt til þeirra kjörskráa sem umboðsmenn framboðslista fá til afnota á kjörfundi og tekið fram að það sé í samræmi við þá meginreglu sem kveðið er á um í lögum um meðferð persónuupplýsinga, þess efnis að persónuupplýsingar séu ekki varðveittar í því formi að unnt sé að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur. Þá er áréttað að framangreind meginregla komi einnig fram í 26. gr. laganna sem kveður á um að þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skuli ábyrgðaraðili eyða þeim. Segir þar að málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga geti m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að ábyrgðaraðili vinni enn með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra.
    Niðurstaða Persónuverndar í álitinu er sú að umboðsmönnum framboðslista sé heimil viðvera í kjördeildum og að merkja í kjörskrá við þá sem koma og nýta atkvæðisrétt sinn. Hins vegar telur Persónuvernd þeim vera óheimilt að miðla þessum upplýsingum út úr kjördeild nema slíkt sé nauðsynlegt í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að kosning fari löglega fram, t.d. tryggja að umboðsmenn framboðslistanna geti rækt það hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að þeir einir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni.
    Erfitt er að sjá í hvaða tilvikum það getur verið nauðsynlegt að umboðsmenn miðli upplýsingum úr kjördeild til að hafa eftirlit með því að þeir einir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Ef kjósandi fær að greiða atkvæði oftar en einu sinni og setja atkvæðaseðilinn í kjörkassann þrátt fyrir athugasemdir umboðsmanna á kjörstað eða í kjördeild þá er kjörseðilinn kominn í kjörkassann. Því hljóta umboðsmenn að bregðast við þegar á kjörstað og láta bóka ágreiningsálitið í kjörbók eða bóka það sjálfir, sbr. ákvæði 94. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að leggja til þessa breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, þ.e. að kjörstjórn verði einni heimilt að fara með gögn og upplýsingar út af kjörfundi enda virðist ákvæðið ekki eiga sér fyrirmyndir í öðrum löndum og vandséð að þörfin fyrir slík ákvæði sé meiri hér en annars staðar. Flutningsmenn telja enn fremur að með þessu verði einnig betur tryggt að yfirkjörstjórnir og ráðuneyti geti eytt gögnum og upplýsingunum, þ.e. kjörskrám o.fl., sbr. ákvæði laganna.