Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 543. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 838  —  543. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2011.

1. Inngangur.
    Málefni norðurskautsins, húsnæðismál eldri borgara á Vestur-Norðurlöndum, vestnorrænt menningarsamstarf og björgunarmál í norðurhöfum voru meðal þeirra mála sem mest var fjallað um á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2011.
    Þemaráðstefna ráðsins fór fram í Færeyjum í júní og var að þessu sinni tvískipt. Á fyrri hluta ráðstefnunnar, sem tileinkaður var húsnæðismálum eldri borgara, kynntu fyrirlesarar frá vestnorrænu löndunum þremur og Noregi þær mismunandi leiðir sem farnar hafa verið í löndunum á þessu sviði og miðluðu af reynslu sinni af virkni þeirra. Síðari hluti ráðstefnunnar var haldinn í samvinnu við Norðurlandaráð og tileinkaður björgunarmálum í norðurhöfum. Þá sótti Íslandsdeild jafnframt ráðstefnu utanríkisráðuneytis Færeyja, norrænu ráðherranefndarinnar og NORA um málefni hafsins sem haldin var á sama tíma.
    Ársfundur ráðsins var haldinn á Bifröst í ágúst. Fundurinn samþykkti að þessu sinni ályktanir um að Vestur-Norðurlönd skilgreindu sameiginlega hagsmuni sína með tilliti til norðurslóða og þeirra breytinga sem þar eru að verða vegna loftslagsbreytinga. Ákveðið var að þemaráðstefna ráðsins á árinu 2012 yrði tileinkuð þessu efni og. Einnig voru samþykktar þrjár ályktanir er lúta að menningarsamstarfi, um aukið vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, um listamannagistingu og um að halda tónlistarráðstefnu til að kortleggja tónlistarhefðir vestnorrænu landanna. Þá ákvað fundurinn að breyta tímasetningu ársfundar og þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins þannig að framvegis liði ekki jafnlangt á milli funda og nú er raunin. Þannig er áætlað að þemaráðstefnan fari fram í lok mars á árinu 2012 í stað maí og ársfundurinn í byrjun september í stað ágúst.
    Ólína Þorvarðardóttir gegndi embætti formanns ráðsins. Sem formaður sótti hún fundi þingmannaráðstefnu norðlægu víddarinnar og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Tromsø í febrúar. Hélt hún m.a. ræðu um menningarsamstarf innan norðlægu víddarinnar. Þá stýrði hún fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og sendinefndar Evrópuþingsins í Nuuk í maí. Á fundinum voru rædd sameiginleg hagsmunamál ráðsins og ESB, m.a. þau áhrif sem bann sambandsins við sölu á selskinni hefur haft á veiðimannasamfélög á Grænlandi þrátt fyrir að veiðar frumbyggja séu undanþegnar banninu. Þá átti hún fundi með ráðherrum í heimastjórnum Grænlands og Færeyja til að fylgja eftir ályktunum ráðsins. Á ársfundinum á Bifröst tók Kári P. Højgaard við formennskunni en í kjölfar þingkosninga í Færeyjum í október var hann skipaður innanríkisráðherra Færeyja og tók Henrik Old við í hans stað í lok árs.
    Forsætisnefnd ráðsins hittist á tveimur fundum utan þemaráðstefnu og ársfundar. Á fundi forsætisnefndar í Tromsø í febrúar ræddi nefndin m.a. undirbúning þemaráðstefnu og ársfundar. Forsætisnefndin kom einnig saman í Kaupmannahöfn í nóvember í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Að venju fundaði forsætisnefndin einnig með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum vestnorrænu landanna á sviði utanríkismála, mennta- og menningarmála og norræns samstarfs.
    Þingmannanefnd Íslands og Færeyja um framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja hélt sinn fyrsta fund á árinu í tengslum við þemaráðstefnuna í Færeyjum. Á fundinum setti nefndin sér starfsreglur og var færeyski þingmaðurinn Magni Laksáfoss að svo búnu kjörinn formaður hennar og Ólína Þorvarðardóttir varaformaður. Eftir þingkosningarnar í Færeyjum í október þar sem Magni Laksáfoss gaf ekki kost á sér valdi færeyska landsdeildin Brand Sandoy í hans stað. Nefndin kom saman í annað sinn á ársfundinum á Bifröst til að hlýða á skýrslu utanríkisráðuneyta Íslands og Færeyja um framkvæmd samningsins.
    Í lok árs var tilkynnt um tilnefningu til barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Verðlaunin, sem sett voru á fót árið 1999, hafa þann tilgang að styðja við bókmenntir á Vestur-Norðurlöndum og gefa börnum og unglingum í löndunum þremur tækifæri til að kynnast menningu hinna vestnorrænu landanna. Íslenska dómnefndin tilnefndi skáldsöguna Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur til verðlaunanna 2012. Í dómnefndinni sitja prófessor Dagný Kristjánsdóttir, formaður, Ármann Jakobsson, dósent, og Anna Heiða Pálsdóttir, bókmenntafræðingur.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur reglulega saman, tvisvar á ári, til ársfundar og þemaráðstefnu. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur síðan árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu sinna markmiða með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi.
    Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs sem veitir Vestnorræna ráðinu aukinn tillögu- og málflutningsrétt á Norðurlandaráðsþingi. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi ársins skipuðu Íslandsdeild þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þráinn Bertelsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og síðar Framsóknarflokks, Ásbjörn Óttarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks. Frá 1. október skipuðu Íslandsdeild þingmennirnir Ólína Þorvarðardóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigurður Ingi Jóhannsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þór Saari, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásbjörn Óttarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og síðar Framsóknarflokks, og Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Kjartan Fjeldsted gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild hélt sex fundi á árinu þar sem þátttaka í starfsemi ráðsins var undirbúin. Þá var Íslandsdeild gestgjafi á ársfundi Vestnorræna ráðsins sem að þessu sinni var haldinn á Bifröst. Á vettvangi ráðsins lagði Íslandsdeild m.a. fram tillögur að ályktunum um að skilgreina sameiginlega hagsmuni Vestur-Norðurlanda með tilliti til norðurskautsins sem og um samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar og um listamannagistingu.
    Hvað varðar trúnaðarstörf fyrir Vestnorræna ráðið gegndi Ólína Þorvarðardóttir, formaður Íslandsdeildar, embætti formanns ráðsins fram að ársfundi þess á Bifröst í ágúst. Sem formaður sat hún fundi norðlægu víddarinnar og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Tromsø í febrúar og fund forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með sendinefnd Evrópuþingsins í Nuuk í maí. Einnig átti hún fundi með ráðherrum í heimastjórnum Færeyja í apríl og Grænlands í maí til að fylgja eftir ályktunum ráðsins.
    Sigurður Ingi Jóhannsson sat fund þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Reykjavík í júní sem fulltrúi ráðsins.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2011.
     Þemaráðstefna ársins, sem fjallaði annars vegar um húsnæðismál eldri borgara og hins vegar um björgunarmál í norðurhöfum, fór fram í Færeyjum en ársfundurinn á Bifröst. Forsætisnefnd ráðsins kom tvívegis saman á árinu auk þess sem hún átti fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ráðherrum vestnorrænu landanna á sviði mennta- og menningarmála, utanríkismála og norræns samstarfs í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Þemaráðstefna um húsnæðismál eldri borgara og björgunarmál í norðurhöfum 7.–9. júní.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Höskuldur Þórhallsson og Þráinn Bertelsson, auk Kjartans Fjeldsted, ritara. Þemaráðstefnan var tvískipt að þessu sinni. Þriðjudaginn 7. júní var fjallað um framtíðarlausnir í húsnæðismálum eldri borgara og fimmtudaginn 9. júní fór fram málþing um björgunarmál í norðurhöfum í samvinnu við Norðurlandaráð og NORA. Miðvikudaginn 8. júní tók Íslandsdeild ásamt öðrum þátttakendum svo þátt í ráðstefnunni Seas the Future sem skipulögð var af færeyska utanríkisráðuneytinu í samvinnu við norrænu ráðherranefndina.
    Ólína Þorvarðardóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, setti fyrri hluta þemaráðstefnu ráðsins. Sagði hún m.a. að vestnorrænu löndin stæðu frammi fyrir svipuðum áskorunum, til að mynda hvað varðar strjálbýli og miklar vegalengdir, samfélagsgerðir landanna og viðfangsefni þeirra í velferðarmálum væru sambærileg. Löndin þrjú gætu því haft mikið gagn af að bera saman bækur sínar í þessum efnum. Því næst bauð Kári P. Højgaard gesti velkomna fyrir hönd færeysku landsdeildarinnar. Að því búnu kynnti norski þingmaðurinn Tore Hagebakken helstu leiðir sem Norðmenn hafa farið í húsnæðismálum eldri borgara og Meta av Fløtum, forstöðumaður öldrunarheimilisins Lágargarðs í Þórshöfn, fjallaði um stefnu Færeyja á þessu sviði. Magnus Therkelsen, formaður félags eldri borgara á Grænlandi fjallaði um hvaða óskir eldri borgarar hefðu um húsnæðismál. Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent við Háskóla Íslands, kynnti rannsóknir á viðhorfum eldri borgara til húsnæðismála. Í máli Sigurveigar kom m.a. fram að ýmsar ástæður væru fyrir því að eldri borgarar óskuðu eftir að flytja, til að mynda að þeir væru í of stórri íbúð og til að vera nær ýmiss konar þjónustu en algengt viðhorf meðal eldri borgara væri að þjónustuíbúðir væru of dýrar. Þá fluttu tveir arkitektar, Halldór Guðmundsson frá Íslandi og Johan Kristian Rosbach frá Grænlandi, erindi um hönnun á húsnæði fyrir eldri borgara. Almennur samhljómur var um það að miða ætti að því að framtíðarhúsnæði eldri borgara væri sem líkast heimilisumhverfi en ekki stórum stofnunum.
    Í umræðum að loknum erindum framsögumanna lýsti Atli Gíslason þeirri skoðun sinni að rétt væri að stuðla að því að fjölskyldur eldri borgara gætu komið að umönnun í eins ríkum mæli og mögulegt væri og að stefnumótun hins opinbera ætti að miða að því að auðvelda þeim það. Siv Friðleifsdóttir, sem sat ráðstefnuna sem formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, benti á þá erfiðleika sem upp koma þegar þjónustu við eldri borgara er skipt milli ríkis og sveitarfélaga, en þá hefði hvor aðilinn tilhneigingu til að reyna að varpa ábyrgð á hinn. Mikilvægt væri að einn aðili, annaðhvort ríki eða sveitarfélag, bæri ábyrgð á öllum málaflokknum. Fram kom það sjónarmið að rétt eins og réttindi barna væru skilgreind í lögum væri eðlilegt að það sama yrði gert hvað varðar eldri borgara.
    Miðvikudaginn 8. júní tók Íslandsdeild þátt í ráðstefnunni Seas the Future, sem skipulögð var af norrænu ráðherranefndinni í samvinnu við færeyska utanríkisráðuneytið, en hún var m.a. haldin í tilefni af alþjóðlegum degi úthafanna. Adolf Kellermann, yfirmaður vísindarannsókna hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, kynnti nýtt samstarf á sviði vísindarannsókna, svokallað MARCOM+, sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir á úthöfunum á sviðum eins og fiskeldi, haforku, „blárri líftækni“ og á áhrifum loftslagsbreytinga á úthöfin. Einnig gerði Paul Holthus, forstjóri World Oceans Council (WOC), grein fyrir viðleitni samtakanna til að standa vörð um úthöfin, en WOC eru samtök fyrirtækja eins og skipa- og olíufélaga, útgerða, og fyrirtækja í ferðamennsku, sem stunda starfsemi sem tengist hafinu. Þá fjallaði Albert de Hoop, bæjarstjóri í Amelanda í Hollandi og forseti KIMO, alþjóðlegra umhverfissamtaka sveitarfélaga, um viðleitni samtakanna til að berjast gegn mengun sjávar. Í máli hans kom m.a. fram að mengun frá plasti væri eitt stærsta vandamálið, en það brotnaði ekki niður í náttúrunni og ræki því víða á strendur.
    Ólína Þorvarðardóttir tók þátt í pallborðsumræðum í lok ráðstefnunnar ásamt Johan Dahl, sjávarútvegsráðherra Færeyja, Angus MacNeil, þingmanni skoska þjóðarflokksins á breska þinginu, Johan H. Williams, deildarstjóra í norska sjávarútvegsráðuneytinu og Henrik Dam Christensen, forseta Norðurlandaráðs. Í máli hennar kom fram að Norðurlöndin hefðu ríkra hagsmuna að gæta varðandi áhrif umhverfisbreytinga og aukinna umsvifa í kjölfar þeirra á norðurhveli jarðar, enda væru norðurhöfin verðmæt matarkista sem norðlægu strandríkin byggðu afkomu sína á. Hún taldi að mikilvægi og verðmæti sjávarafurða mundi aukast í framtíðinni í takt við fjölgun jarðarbúa. Sjálfbær nýting fiskveiðiauðlindarinnar væri lykilatriði en hún færi saman við ábyrgð af hálfu nýtingaraðila. Aukin tækniþekking mundi gera okkur kleift að ná ákveðnu jafnvægi gagnvart auðlindinni. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að ríki ynnu saman að nýtingu sameiginlegra fiskstofna, en Vestnorræna ráðið hefði einmitt beitt sér í þá veru með tilmælum til ríkisstjórna vestnorrænu landanna um aukna samvinnu við stjórn fiskveiða.
    Henrik Dam Christensen, forseti Norðurlandaráðs, setti málþing um björgunarmál í norðurhöfum. Fyrirlesarar komu frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Færeyjum og Kanada, en fundarstjóri var færeyski blaðamaðurinn Uni Arge. Í opnunarávarpi sínu lagði Christensen áherslu á að aukin skipaumferð á norðurslóðum mundi hafa mikla efnahagslega þýðingu en einnig mundi hún hafa miklar áskoranir í för með sér sem krefðust aukinnar svæðisbundinnar og alþjóðlegrar samvinnu. Árni Olafsson, ráðgjafi danska utanríkisráðuneytisins í færeyskum málefnum, kynnti f.h. dönsku formennskunnar í Norðurskautsráðinu björgunarsamning sem aðildarríki Norðurskautsráðsins undirrituðu í Nuuk í maí sl. Per Sønderstrup frá dönsku siglingamálastofnuninni kynnti helstu áherslur danska sjóhersins á svæðinu og Jens Peter Hartmann og Lars Hansen kynntu kortagerð á norðurslóðum. Í máli þeirra kom m.a. fram að ekki væru til eins góð kort fyrir hafsvæðin á norðurslóðum og víða annars staðar og víða væri allt að 10 km ónákvæmni í kortum við Grænland. Þá kynnti Georg F. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, framtíðaráform gæslunnar og nýja Bombardier-flugvél hennar sem og nýtt varðskip sem nú er í smíði. Meðal annarra íslenskra fyrirlesara voru Kristján Geirsson, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun, og Ásgrímur Ásgrímsson hjá Landhelgisgæslunni.
    Í lokaávarpi sínu fagnaði Ólína Þorvarðardóttir undirritun björgunarsamningsins í Nuuk sem hún sagði marka þáttaskil í öryggismálum á norðurslóðum. Mikið væri þó ógert til að auka öryggi á stóru norðlægu hafsvæðunum, sérstaklega hvað varðar björgunarbúnað og annan aðbúnað. Náin samvinna norrænu ríkjanna væri mikilvægur þáttur í því að tryggja öryggi á svæðinu og sagðist hún vona að ráðstefnan yrði til þess að efla samstarf þeirra á því sviði.
    Í tengslum við ráðstefnuna fór jafnframt fram fyrsti fundur þingmannanefndar Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja. Ólína Þorvarðardóttir stýrði fundinum sem formaður Vestnorræna ráðsins en samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar Alþingis sitja sömu þingmenn í nefndinni fyrir hönd Alþingis og sitja í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Fyrirliggjandi drög að starfsreglum nefndarinnar voru samþykkt með smávægilegum breytingum og færeyski þingmaðurinn Magni Laksáfoss að því búnu kjörinn fyrsti formaður nefndarinnar og Ólína Þorvarðardóttir varaformaður. Ákveðið var að óska eftir skýrslu frá utanríkisráðuneytum landanna um framkvæmd samningsins fyrir ársfund ráðsins sem fram fer á Íslandi í ágúst.

Ársfundur á Bifröst 22.–25. ágúst.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Ólína Þorvarðardóttir, formaður, Atli Gíslason, Árni Johnsen og Höskuldur Þórhallsson, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Meðal helstu mála sem rædd voru á fundinum voru staða Vestur-Norðurlanda í samhengi við þróun og umsvif á norðurskautssvæðinu, vestnorræn samvinna á sviði kvikmyndagerðar, meðferð brotajárns á Vestur-Norðurlöndum og hugsanlegar breytingar á fundafyrirkomulagi ráðsins.
    Ólína Þorvarðardóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ársfundinn með því að biðja viðstadda að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna í Ósló og Útey með einnar mínútu þögn. Þá minntist hún einnig Jónatans Motzfeldt, fyrrverandi formanns ráðsins, sem lést á síðasta ári. Því næst gerði hún grein fyrir starfsemi ráðsins á liðnu ári og sérstaklega fyrsta fundi þingmannanefndar Hoyvíkursamningsins sem og fundi með Evrópuþinginu á Grænlandi í maí sl. og þátttöku ráðsins í starfsemi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Þá bauð hún nýjan áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs, norska þingmanninn Rigmor Andersen Eide, velkominn og þakkaði Mariusi Rein, ritara landsdeildar Færeyja, fyrir vel unnin störf en fundurinn var sá síðasti sem hann sótti eftir 25 ára starf með ráðinu.
    Því næst gerðu formenn landsdeilda grein fyrir starfsemi landsdeildanna undanfarið ár. Í máli Ólínu Þorvarðardóttur kom fram að þingsályktunartillögur frá síðasta ársfundi ráðsins í Tasiilaq hefðu verið afgreiddar af utanríkismálanefnd nema tillaga um vestnorrænt sögu- og samfélagssetur sem ekki hefði verið afgreidd úr nefndinni. Í máli Josefs Motzfeldt, formanns grænlensku landsdeildarinnar, kom einnig fram að tillaga um vestnorrænt sögu- og samfélagssetur hefði ekki heldur verið samþykkt á grænlenska þinginu.
    Marit Nybakk, varaforseti norska þingsins, ávarpaði fundinn og tileinkaði mestan hluta ræðu sinnar hryðjuverkunum og þeim áhrifum sem þau hefðu haft á norskt samfélag. Þá upplýsti hún að Norðmenn hygðust kaupa nýjar björgunarþyrlur til að geta betur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt Nuuk-samningnum. Nokkur ágreiningur væri þó milli varnarmálaráðuneytisins annars vegar og dómsmálaráðuneytisins um fyrirkomulag og umsjón með þyrlunum.
    Rigmor Andersen Eide, nýr áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs, minntist einnig fórnarlamba hryðjuverkanna í Noregi. Um hefði verið að ræða árás á mannleg gildi. Taldi hún mikilvægt að norrænt samstarf liti bæði til austurs og vesturs. Tók hún undir áherslur Vestnorræna ráðsins um sjálfbæra nýtingu hafsins og minntist sérstaklega á endurnýjanlega orkugjafa sem mikilvægt samstarfssvið ráðsins og Norðurlandaráðs í framtíðinni.
    Í ávarpi Steingríms J. Sigfússonar, starfandi samstarfsráðherra, kom fram að í ljósi stækkunar Evrópusambandsins og hnattvæðingar væri svæðisbundið samstarf eins og hið vestnorræna sífellt mikilvægara og ánægjulegt væri að það væri orðið viðurkennd stærð í norrænni samvinnu. Þá minntist hann á frumkvæði formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni um aukið samstarf til vesturs, við fylkin á Atlantshafsströnd Kanada og Bandaríkjanna sem og við Írland og Skotland. Hvað varðar viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við ályktunum síðasta ársfundar ráðsins einkenndust þau á sumum sviðum af stöðu efnahagsmála. Sérstaklega hefði þó ályktun um aukið samstarf um björgun haft veruleg áhrif og af Íslands hálfu þætti samstarfið lofa góðu.
    Á fundinum var rætt um hugsanlegar breytingar á fundafyrirkomulagi ráðsins. Ókostur hafði þótt að svo langt liði milli ársfundar, sem haldinn er í ágúst, og þemaráðstefnunnar, sem haldin er í maí. Þá væri tímasetning ársfundar oft að öðru leyti óheppileg fyrir þingin. Talsverður stuðningur kom fram við þá hugmynd að flytja ársfundinn aftur í september eða október og þemaráðstefnuna fram í apríl. Var forsætisnefnd ráðsins falið að útfæra þessar hugmyndir nánar og koma með tillögu að framtíðarfyrirkomulagi sem lögð yrði fyrir næsta ársfund í Færeyjum 2012.
    Með fundinum lauk jafnframt formennskuári Íslands og var Kári P. Højgaard, formaður færeysku landsdeildarinnar, kjörinn nýr formaður ráðsins í stað Ólínu Þorvarðardóttur. Í ávarpi sínu þakkaði hann Ólínu Þorvarðardóttur fyrir einstaklega vel heppnað formennskuár sem án vafa hefði styrkt ráðið verulega. Hann mundi sem formaður leggja áherslu á að ljúka vinnu við breytt fundafyrirkomualg ráðsins. Áhersla yrði lögð á ályktun ráðsins frá 2008 um að haldinn yrði vestnorrænn dagur til skiptis í löndunum þremur, en í skýrslu samstarfsráðherranna hefði sá möguleiki verið viðraður að norrænu húsin í löndunum þremur sæju um að halda hann hátíðlegan. Hann mundi taka málið upp á fundi með samstarfsráðherrunum. Hvað varðar björgunarmál í norðurhöfum fagnaði hann undirskrift Nuuk-samnings Norðurskautsráðsins og taldi mikilvægt að ráðið beitti sér í þá veru að sá útbúnaður sem til er til björgunar yrði aukinn.
    Stærstur hluti málefnavinnunnar fór fram á seinni fundardegi og samþykkti ársfundurinn alls sex ályktanir sem beint var til stjórna landanna þriggja. Þar má fyrst nefna tillögu frá Íslandsdeild um að vestnorrænu löndin kortlegðu hagsmuni sína með tilliti til þeirra breytinga sem ættu sér stað á norðurskautinu í ljósi umhverfisbreytinga.
    Aukið menningarsamstarf var einnig fyrirferðarmikið í ályktunum ráðsins að þessu sinni, en fundurinn samþykkti m.a. ályktun um að auka samstarf vestnorrænu landanna í kvikmyndagerð. Þá samþykkti fundurinn ályktun til ríkisstjórna landanna um að eiga með sér samstarf um að gera listamönnum og rithöfundum kleift að dvelja í öðru vestnorrænu landi og öðlast innblástur frá menningu þess og náttúru í list sinni. Loks var samþykkt ályktun um að löndin þrjú ættu með sér samstarf um að kortleggja og viðhalda tónlistarhefðum sínum.
    Af hálfu landsdeildar Grænlands kom fram ályktun um að Vestnorræna ráðið skoraði á ríkisstjórn Íslands að gera vestnorrænum borgurum, sem hefðu stutta viðkomu á Íslandi, kleift að hafa með sér ákveðið magn af kjöti til eigin nota. Einnig var samþykkt ályktun um að löndin athuguðu sameiginlega hvernig meðferð og endurvinnslu á brotajárni væri best fyrir komið, en slíkt getur verið verulegt vandamál á eyjum og í einangruðum samfélögum.
    Ákveðið var að efni þemaráðstefnu ráðsins á árinu 2012 yrði „Sameiginlegir hagsmunir Vestur-Norðurlanda gagnvart þróun og umsvifum á norðurskautssvæðinu“. Áhersla yrði lögð á að greina efnið út frá efnahagslegri þróun á svæðinu og þróun atvinnulífs, greina varnarstöðu landanna og sóknarfæri gagnvart þeim auknu umsvifum sem fyrirsjáanleg væru í kjölfar umhverfisbreytinga á norðurskauti. Ráðið mundi óska eftir því að utanríkisráðherrar landanna tækju þátt í ráðstefnu um málið næsta vor þar sem leitast yrði við að skilgreina þá hagsmuni sem löndin ættu sameiginlega.
    Samhliða ársfundinum fór fram annar fundur þingmannanefndar Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja. Á fundinum var lögð fram skýrsla frá utanríkisráðuneytum landanna um framkvæmd samningsins og fluttu Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneytinu og Hákun Jógvanson Djuurhuus, sendimaður Færeyja á Íslandi, erindi um samninginn. Í máli þeirra kom m.a. fram að ýmsar tæknilegar hindranir stæðu í vegi fyrir verslun milli landanna, m.a. ólíkir staðlar. Ísland hefði innleitt Evrópureglur á ýmsum sviðum en Færeyjar ekki sem væri ákveðin hindrun. Vel hefði þó tekist að greiða úr þeim vandræðum sem komið hefðu upp og búist væri við að flest þau vandkvæði sem enn væru til staðar yrðu leyst bráðlega.

Forsætisnefndarfundur Vestnorræna ráðsins, fundur forsætisnefnda Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og fundir forsætisnefndar með ráðherrum Vestur-Norðurlanda á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 31. október – 3. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Ólína Þorvarðardóttir, formaður, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem og vestnorrænum mennta- og menningarmálaráðherrum, samstarfsráðherrum og utanríkisráðherrum. Vegna nýafstaðinna kosninga og yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðna í Færeyjum var enginn færeyskur ráðherra viðstaddur Norðurlandaráðsþing að þessu sinni.
    Meðal helstu mála á dagskrá fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins var efni þemaráðstefnu næsta árs, breyttar dagsetningar fyrir þemaráðstefnu og ársfund, breyting á tímasetningu kjörs nýs formanns ráðsins og afstaða Norðurlandaráðs til óskar Vestnorræna ráðsins um að hætt yrði að vísa til Grænlands og Færeyja sem „sjálfsstjórnarsvæða“ í norrænu samstarfi.
    Að tillögu Josefs Motzfeldt, formanns grænlensku landsdeildarinnar, ákvað forsætisnefnd að þemaráðstefna næsta árs yrði haldin í Ilulissat á Grænlandi. Áætlað var að ráðstefnan yrði haldin nokkru fyrr en venja hafði verið, eða í lok mars eða byrjun apríl, og ársfundurinn í byrjun september. Þá ákvað forsætisnefnd að leggja til að breytt yrði tímasetningu á kjöri formanns ráðsins á ársfundi þannig að formannsskipti yrðu í lok fundar í stað þess að skipt væri um formann á miðjum fundi. Ákveðið var að ítreka beiðni ráðsins um að Norðurlandaráð vísaði til Grænlands og Færeyja sem landa í norrænu samstarfi, en Norðurlandaráð hafði ákveðið að framvegis yrði vísað til „norrænu landanna fimm, Álandseyja, Grænlands og Færeyja“ í öllum opinberum gögnum ráðsins.
    Ólína Þorvarðardóttir flutti ræðu í umræðum um utanríkismál á Norðurlandaráðsþinginu. Í máli hennar kom fram að Vestnorræna ráðið fagnaði aukinni áherslu Norðurlandaráðs á utanríkis- og varnarmál. Eitt af þeim málum sem hvað mikilvægust væru á þeim vettvangi væri norðurskautið. Vestnorrænu löndin hefðu ákveðið að halda þemaráðstefnu um það efni á næsta ári og hefðu hvatt ríkisstjórnir vestnorrænu landanna þriggja til að kortleggja hagsmuni landanna hvað norðurskautið varðar. Norðurlönd, sem öll ættu aðild að Norðurskautsráðinu og hefðu þannig mikil áhrif á gang mála á norðurskautinu, ættu að leggja aukna áherslu á samstarf sitt um norðurskautsmál og veita því meiri pólitíska þyngd.
    Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, stýrði fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Á fundinum gerði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins forsætisnefnd Norðurlandaráðs grein fyrir helstu niðurstöðum þemaráðstefnunnar í Færeyjum í júní sl. Þá kynnti Ólína Þorvarðardóttir efni þemaráðstefnu næsta árs og bauð Norðurlandaráði að taka þátt í henni. Rædd voru tilmæli Vestnorræna ráðsins um að Norðurlandaráð hætti að vísa til Færeyja og Grænlands sem „sjálfsstjórnarsvæða“ í norrænu samstarfi og skýrði Bertel Haarder frá því að ekki hefði verið meirihluti innan Norðurlandaráðs fyrir að vísa til Færeyja, Grænlands og Álandseyja sem „landa“. Sagði Josef Motzfeldt að ákvörðun Norðurlandaráðs um að vísa í stað þess framvegis til „norrænu landanna fimm, Færeyja, Grænlands og Álandseyja“ í norrænu samstarfi væri til bóta en hljómaði þó nokkuð undarlega. Það væri aðeins spurning um tíma hvenær íbúar Færeyja og Grænlands yrðu móðgaðir yfir að vísað væri til landanna sem „svæða“.
    Þá fundaði forsætisnefndin með Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Kuupik Kleist, formanni grænlensku landstjórnarinnar, sem einnig fór með utanríkismál. Í máli Össurar Skarphéðinssonar kom fram að hann teldi mikilvægt að lyfta vestnorrænu samstarfi á hærra pólitískt plan og að af leiðtogafundi ríkjanna þriggja yrði sem fyrst. Forsætisnefnd gerði ráðherrunum grein fyrir þemaráðstefnunni á næsta ári og ályktun ráðsins frá ársfundinum á Bifröst um að utanríkisráðuneyti landanna héldu ráðstefnu til að kortleggja sameiginlega hagsmuni Vestur-Norðurlanda með tilliti til norðurskautsins. Var lagt til að ráðstefnurnar yrðu haldnar samhliða og tóku ráðherrarnir vel í þá tillögu. Hvað varðar ályktun ráðsins um að finna leiðir til að leyfa vestnorrænum íbúum að flytja inn matvörur til eigin nota í ferðum um Ísland sagði Össur Skarphéðinsson að ríkisstjórn Íslands mundi gera sitt besta en þó yrði Ísland að fylgja reglugerðum Evrópusambandsins um þau efni.
    Á fundi forsætisnefndar með samstarfsráðherrunum Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, Mimi Karlsen, menntamálaráðherra Grænlands, og Palle Christiansen, samstarfsráðherra Grænlands, kynnti forsætisnefndin ályktanir sínar nr. 2/2011 um samvinnu á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, nr. 3/2011 um listamannagistingu og nr. 6/2011 um ráðstefnu um tónlistarhefðir vestnorrænu landanna. Um fyrstnefndu ályktunina sagði Katrín Jakobsdóttir m.a. að hún mundi senda afrit af henni til félags kvikmyndagerðarmanna. Einnig væri hugsanlegt að norræna kvikmynda- og sjónvarpsakademían gæti tekið þátt í verkefninu auk þess sem kanna mætti möguleika á að vestnorrænir nemar sæktu nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Mimi Karlsen sagði mikilvægt að þróa kvikmyndaiðnaðinn og lýsti stuðningi sínum við tillöguna. Hvað varðar listamannagistingu benti Katrín Jakobsdóttir á svipað samstarf í Kulturkontakt Nord. Taldi hún mögulegt að veita ferðastyrki og vonaði að ráðið sættist á þau viðbrögð við ályktuninni. Hvað varðar ráðstefnu um vestnorrænar tónlistarhefðir benti Katrín Jakobsdóttir á að verulegur niðurskurður hefði verið á Íslandi á fjárveitingum til menningarmála og e.t.v. mundu nokkur ár líða þar til hægt yrði að koma ályktuninni í framkvæmd. Loks ítrekaði hún stuðning við tilmæli Vestnorræna ráðsins um að hætt yrði að tala um „sjálfsstjórnarsvæði“ í tilfelli Færeyja og Grænlands.
    Forsætisnefndin óskaði einnig eftir afstöðu ráðherranna varðandi ályktun ráðsins um að halda vestnorrænan menningardag og baðst Katrín Jakobsdóttir afsökunar á að ekki hefði gengið nógu hratt að hrinda ályktuninni í framkvæmd. Hún mundi beina þeim tilmælum til Norræna hússins að dagurinn yrði haldinn strax á næsta ári. Einnig var rætt um stöðu mála í Brattahlíð en Vestnorræna ráðið hafði lýst áhyggjum sínum af viðhaldi húsnæðisins sem gert var upp fyrir allmikið fé á sínum tíma. Í því sambandi sagði Mimi Karlsen að erfitt væri fyrir sveitarfélagið að reka húsið í því ástandi sem það væri í nú.

5. Eftirfarandi ályktanir Vestnorræna ráðsins voru samþykktar á ársfundi á Bifröst 22.–25. ágúst 2011:
          Ályktun um skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda.
          Ályktun um vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar.
          Ályktun um vestnorrænt samstarf um listamannagistingu.
          Ályktun um innflutning íbúa Vestur-Norðurlanda á matvöru.
          Ályktun um vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni.
          Ályktun um ráðstefnu um tónlistarhefðir Vestur-Norðurlanda.

Alþingi, 20. febrúar 2012.

Ólína Þorvarðardóttir,
formaður.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
varaformaður.
Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Árni Johnsen.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Þór Saari.