Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 659. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1055  —  659. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um siðareglur fyrir forsetaembættið.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Atli Gíslason,
Valgerður Bjarnadóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Þráinn Bertelsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að undirbúa í samvinnu við embætti forseta Íslands setningu siðareglna fyrir forsetaembættið.

Greinargerð.


    Í aðdraganda þess að Alþingi samþykkti að gerð skyldi rannsókn á aðdraganda bankahrunsins 2008 var lögð á það áhersla að rannsaka þyrfti þau siðfræðilegu viðmið sem viðgengjust í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi. Til þess var skipaður sérstakur vinnuhópur, sem skyldi leggja mat á hvort skýringar á falli bankanna megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði, svo sem fram kemur í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Skýrsla hópsins var gefin út sem viðauki við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, nánar tiltekið 8. bindi hennar.
    Í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ítarlega fjallað um siðferði og starfshætti í tengslum við aðdraganda hrunsins haustið 2008. Í niðurstöðum er m.a. vísað til óeðlilegra samskipta viðskiptalífs og stjórnmálaforustunnar í landinu en einnig eru tíunduð tengsl og samskipti forseta Íslands við útrásarvíkinga og ráðamenn í íslensku og erlendu fjármálalífi. Dregnir eru lærdómar af athugun hópsins og lagðar fram tillögur og ábendingar, m.a. um skort á siðareglum í stjórnkerfi okkar.
    Stjórnvöld hafa brugðist við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar með margvíslegum hætti, m.a. hafa verið sett ný lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, þar sem er að finna ákvæði um siðareglur fyrir stjórnsýsluna og taka þau til ráðherra, aðstoðarmanna þeirra, embættismanna og annarra starfsmanna stjórnarráðsins. Einnig hefur verið leitt í lög með sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, að sveitarfélög í landinu skuli setja sér siðareglur með sambærilegum hætti. Þá eru ný ákvæði í þingskapalögum um siðareglur fyrir alþingismenn, sbr. lög nr. 84/2011, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, auk þess sem settar hafa verið reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra hert.
    Í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sérstaklega fjallað um embætti forseta Íslands (kafli 11.4; bls. 170–178), m.a. um ræður forsetans í aðdraganda hrunsins, ferðalög í þágu útrásar, bréf hans og boð á Bessastöðum. Í ályktunum og niðurstöðum (sbr. fylgiskjal I) eru dregnir saman eftirfarandi lærdómar:
     *      Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
     *      Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
     *      Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.

    Enn bólar ekkert á setningu siðareglna fyrir forsetaembættið, nær tveimur árum eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis leit dagsins ljós 12. apríl 2010. Þvert á móti sýna bréfaskipti milli forseta Íslands og forsætisráðuneytisins að forseti telur að forsætisráðuneytið hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar það með bréfi, dags. 11. júní 2010, innti eftir því hvort og þá hvenær slíkar reglur yrðu settar. Í bréfi forseta Íslands, dags. 13. júlí 2010, kemur fram það álit forseta að „málatilbúnaður forsætisráðuneytisins sé rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis“. Er vísað til þess að „Alþingi hefur í framhaldi af skýrslunni ekki falið forsætisráðuneytinu erindrekstur gagnvart forseta Íslands“ (sbr. fylgiskjal V). Bréfaskipti þessi (sjá fylgiskjöl II–VII) komu til umræðu í Alþingi 19. október 2011, en þau voru ekki opinberuð fyrr en að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál en fjölmiðlar höfðu lagt fram kröfur þar um.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að brugðist verði við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar hvað forsetaembættið varðar, líkt og brugðist hefur verið við flestum öðrum niðurstöðum nefndarinnar, og að Alþingi feli forsætisráðuneytinu að hafa forgöngu um að setja siðareglur fyrir embættið enda kallar forseti eftir aðkomu Alþingis að þessu máli í bréfi sínu 13. júlí 2010. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram áfellisdómur yfir mörgum stofnunum samfélagsins sem kallar á aðgerðir af þeirra hálfu. Slíkar aðgerðir eru sjálfsagður hluti þeirrar sáttargjörðar sem er nauðsynleg til að hægt sé að vinna úr því áfalli sem þjóðin varð fyrir haustið 2008.
    Telja flutningsmenn brýnt að Alþingi, sem einróma skipaði rannsóknarnefndina, hlutist til um að embætti forseta Íslands taki fullan þátt í slíkri sáttargjörð við þjóðina. Í því skyni verði settar góðar og gildar siðareglur sem embættinu beri að fylgja. Slík vinna fari fram með gagnsæjum hætti í anda lýðræðislegra umbóta sem nauðsynlegar eru í eftirleik hrunsins. Því er þingsályktunartillaga þessi flutt.



Fylgiskjal I.


Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal,
Kristín Ástgeirsdóttir:



Hlutur forseta Íslands.
Niðurstöður kafla 11.4, bls. 178 í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:
Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008.
(http://www.rannsoknarnefnd.is/html/vidauki1.html)


Ályktanir og lærdómar
    Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki. Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen.
    Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið. 1 Forsetaembættið var óspart nýtt í þágu einstakra aðila til að koma á tengslum víða um lönd. Þegar lýðræðislega kjörinn forseti lands talar á opinberum vettvangi sem fulltrúi þjóðar sinnar er jafnan hlustað og því skiptir máli hvað hann segir og við hverja hann talar. Þar liggur ábyrgð forseta Íslands. Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli. Í ljósi sögunnar hefði þurft mun meiri aga og reglufestu við ákvarðanatöku, hófsemi í framkvæmdagleðinni, reglur um skráningu fundargerða sem og óæskileg tengsl milli einstaklinga. Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina. Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja.

Lærdómar:
     *      Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
     *      Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
     *      Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.




Fylgiskjal II.



Bréf forsætisráðuneytis til skrifstofu forseta Íslands, 11. júní 2010.
(//www.mbl.is/media/51/3051.pdf     )




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.



Bréf skrifstofu forseta Íslands til forsætisráðuneytis, 29. júní 2010.
(http://mbl.is/media/30/3030.pdf     )


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal IV.



Bréf forsætisráðuneytis til skrifstofu forseta Íslands, 1. júlí 2010.
(http://www.mbl.is/media/52/3052.pdf          )


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Bréf forseta Íslands til forsætisráðherra, 13. júlí 2010.
(http://www.forseti.is/media/PDF/Forsaetisradherra_13juli2010.pdf)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Bréf forsætisráðherra til forseta Íslands, 15. júlí 2010.
(http://www.mbl.is/media/53/3053.pdf     )


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Bréf forsætisráðherra til forseta Íslands, 25. mars 2011.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(http://www.mbl.is/media/54/3054.pdf)
Neðanmálsgrein: 1

1     Sjá ræðu forseta Íslands við setningu Alþingis 1. október 2008, nýársávarp 1. janúar 2009 og fréttir í RÚV 24. október 2009.