Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 687. máls.

Þingskjal 1117  —  687. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðferð sakamála
og almennum hegningarlögum (sektargreiðslur o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
1. gr.

    149. gr. laganna orðast svo:
    Nú berst lögreglustjóra kæra um brot sem heyrir undir ákæruvald hans eða lögregla stendur mann að slíku broti og lögreglustjóri telur viðurlög við brotinu ekki fara fram úr sekt að tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur skv. 1. mgr. 151. gr., sviptingu réttinda eða upptöku eigna. Getur lögreglustjóri þá bréflega, innan mánaðar frá því að honum barst kæran, gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með því að gangast undir hæfileg viðurlög ásamt greiðslu sakarkostnaðar.
    Nú telur lögreglustjóri að refsing við broti sem heyrir undir ákæruvald hans geti varðað skilorðsbundnu fangelsi og hefur hann þá heimild til að fresta ákvörðun um refsingu skilorðsbundið að öllu leyti eða að hluta þannig að samhliða henni verði sakborningi gert að greiða sekt og sakarkostnað, svo og að gangast eftir atvikum undir önnur viðurlög skv. 1. mgr. Í ákvörðun um skilorðsbundna frestun refsingar skal brotinu lýst og þeim atriðum sem hafa haft áhrif á hana. Á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr. skal lögreglustjóri gefa sakborningi kost á að samþykkja að málinu verði lokið á þann veg sem greinir í þessari málsgrein. Um skilorðsbindinguna fer eftir almennum hegningarlögum.
    Gangist sakborningur undir ákvörðun viðurlaga skv. 1. mgr. eða samþykki hann að máli verði lokið skv. 2. mgr. hafa þau málalok sama gildi um ítrekunaráhrif og dómur, ef því er að skipta. Hafni sakborningur þessum málalokum eða sinni ekki boði lögreglustjóra skal tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum.
    Nú hefur sakborningur gengist skriflega undir ákvörðun sektar og sakarkostnaðar skv. 1. eða 2. mgr. en ekki greitt og má þá í stað saksóknar vegna brotsins fullnægja ákvörðuninni með fjárnámi eftir því sem segir í 2. mgr. 151. gr.
    Ríkissaksóknari lætur lögreglustjórum í té leiðbeinandi skrá yfir brot sem heimild skv. 1. mgr. nær til, ásamt leiðbeiningum um sektarfjárhæð og önnur viðurlög fyrir hverja tegund brots. Ber að láta ríkissaksóknara í té skýrslur um málalok skv. 1. mgr. eftir þeim reglum sem hann ákveður.
    Nú telur héraðssaksóknari að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir viðurlög samkvæmt þessari grein eða að málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti og getur hann þá innan mánaðar frá því að honum barst vitneskja um þau fellt gerðina úr gildi, enda sé þá ekki liðið ár frá málalokum.

II. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
2. gr.

    52. gr. laganna orðast svo:
    Ákveða skal í dómi, úrskurði eða sektargerð frest til greiðslu sektar, þó ekki yfir 6 mánuði.

3. gr.

    54. gr. laganna orðast svo:
    Þegar sekt er tiltekin ákveður dómstóll í dómi, úrskurði eða sektargerð tímalengd vararefsingar sem ekki skal vera styttri en 2 dagar og ekki lengri en 1 ár.
    Hafi hluti sektar verið greiddur ákveður lögreglustjóri sá sem annast fullnustu sektardóms styttingu afplánunartíma að sama skapi en þó þannig að hann verði ekki undir framangreindu lágmarki og að sektarfjárhæð, sem svarar til hluta úr degi, afplánist með heilum degi.
    Sekt allt að 1.000.000 kr., sem ekki er ákveðin af dómstólum og sakborningur hefur skriflega gengist undir hjá lögreglustjóra eða lögreglumanni, afplánast með fangelsi samkvæmt eftirfarandi töflu:

Sekt Vararefsing
0–29.999 kr. 2 dagar
30.000–59.999 kr. 4 dagar
60.000–89.999 kr. 6 dagar
90.000–119.999 kr. 8 dagar
120.000–149.999 kr. 10 dagar
150.000–179.999 kr. 12 dagar
180.000–209.999 kr. 14 dagar
210.000–239.999 kr. 16 dagar
240.000–269.999 kr. 18 dagar
270.000–299.999 kr. 20 dagar
300.000–329.999 kr. 22 dagar
330.000–359.999 kr. 24 dagar
360.000–389.999 kr. 26 dagar
390.000–419.999 kr. 28 dagar
420.000–449.999 kr. 30 dagar
450.000–479.999 kr. 32 dagar
480.000–509.999 kr. 34 dagar
510.000–539.999 kr. 36 dagar
540.000–569.999 kr. 38 dagar
570.000–599.999 kr. 40 dagar
600.000–629.999 kr. 42 dagar
630.000–659.999 kr. 44 dagar
660.000–689.999 kr. 46 dagar
690.000–719.999 kr. 48 dagar
720.000–749.999 kr. 50 dagar
750.000–779.999 kr. 52 dagar
780.000–809.999 kr. 54 dagar
810.000–839.999 kr. 56 dagar
840.000–869.999 kr. 58 dagar
870.000–899.999 kr. 60 dagar
900.000–929.999 kr. 62 dagar
930.000–959.999 kr. 64 dagar
960.000–1.000.000 kr. 66 dagar
    Lagagrundvöllur vararefsingarinnar og lengd fangelsisins skulu tilgreind í sektargerð og skal sakborningur gangast skriflega undir vararefsinguna ásamt öðrum viðurlögum.

4. gr.

    Við 60. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef sakborningur hefur gengist undir skilorðsbundna frestun á ákvörðun refsingar hjá lögreglu og rannsókn hefst vegna nýs brots á skilorðstíma skal refsing dæmd eftir reglu 1. mgr. Ef refsing vegna þess brots getur ekki haggað við skilorðsbindingu er heimilt að ljúka máli með sektargerð.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fyrir rannsóknara“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: hjá lögreglu.
     b.      Í stað orðsins „sátt“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: sekt.
     c.      Í stað orðsins „sáttaboð“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: sektarboð.
     d.      Í stað orðanna „rannsóknari hættir rannsókninni“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: rannsókninni er hætt.

III. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu og byggist það á skýrslu starfshóps um aukna skilvirkni í sakamálum sem fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ragna Árnadóttir, skipaði 18. mars 2010 í því skyni að gera tillögur að breytingum á sakamálaréttarfari og réttarreglum því tengdu með það að markmiði að auka skilvirkni í rekstri sakamála. Í skipunarbréfi starfshópsins sagði m.a. að rætt hafi verið um nauðsyn þess að brot séu rannsökuð og ákært vegna þeirra innan ásættanlegra tímamarka, en í vaxandi mæli virðast lögregla og ákæruvald eiga í erfiðleikum með að komast yfir að reka öll mál. Hinn langi málsmeðferðartími leggist síðan við þann tíma sem tekur að reka mál fyrir dómstólum og langa bið eftir refsivist ef svo ber undir. Þetta leiði til þess að einstaklingar sem eru virkir í afbrotum gangi lausir og safni jafnvel upp fjölda brota á löngum tíma áður en gripið sé inn í. Þá kemur fram í skipunarbréfinu að ekki sé hægt að treysta því að brotum muni fækka á næstu árum og útilokað sé að fjárveitingar til lögreglu, ákæruvalds og dómstóla verði auknar á næstunni. Í ljósi þessa vanda sé ljóst að róttækra breytinga sé þörf ef gera á refsivörslukerfinu kleift að afgreiða þau mál sem því berast. Í starfshópinn voru skipuð Sigríður Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari og nú ríkissaksóknari, sem jafnframt var skipuð formaður, Benedikt Bogason, héraðsdómari, nú settur hæstaréttardómari, Eiríkur Tómasson, prófessor og nú hæstaréttardómari, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, og Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri. Þá sat Haukur Guðmundsson, þáverandi skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, fundi starfshópsins, en Kolbrún Benediktsdóttir, settur saksóknari var ritari hópsins.
    Starfshópurinn skoðaði ýmsar leiðir til þess að auka skilvirkni í rekstri sakamála. Meðal þess sem var skoðað var hvernig nýta mætti betur úrræði núgildandi laga og reglna í þessu skyni. Til að mynda væri hægt að ná þessu markmiði með því að beita í ríkari mæli heimild 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála um frávísun kæru ef ekki þykja tilefni til að hefja rannsókn út af henni í svokölluðum „minni háttar“ málum, sem og heimild 60. gr. sömu laga um óformlega skýrslutöku af vitnum á brotavettvangi. Nefndi hópurinn einnig í niðurstöðu sinni að mikið hagræði mundi hljótast af því ef dómarar mundu kveða upp dóma í játningarmálum og einfaldari málum strax við þingfestingu mála eða eftir atvikum í kjölfar aðalmeðferðar og að endurrit yrðu til reiðu. Að mati hópsins mundi þetta spara mikinn tíma og fjármuni vegna birtingar dóma. Þá fjallaði starfshópurinn um hina svokölluðu sáttamiðlun í sakamálum, sem komið var á fót sem tilraunaverkefni í október 2006 og var formlega leitt í lög með ákvæði b-liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála í ársbyrjun 2009. Samkvæmt ákvæðinu er unnt að falla frá saksókn þegar sakborningur og brotaþoli hafa komist að samkomulagi og sakborningur efnt það fyrir sitt leyti. Reynslan af þessu úrræði hafi verið jákvæð og lagði hópurinn til að þetta verði gert að varanlegu úrræði í refsivörslukerfinu.
    Aðrar breytingar sem hópurinn lagði til, og varða sérstaklega efni frumvarps þessa, eru tvenns konar og snúa þær að því auka heimildir lögreglustjóra til að ljúka málum með álagningu sekta. Annars vegar er lögð til rýmkun á því til hvaða brota sektir taka og hins vegar að framvegis verði lögreglustjórum heimilt að kveða á um skilorðsbundna frestun á ákvörðun refsingar.

Rýmri heimildir lögreglustjóra til að bjóða sektargerðir.
    Á grundvelli gildandi laga, sbr. 149. gr. laga um meðferð sakamála, er lögreglustjóra heimilt að bjóða sakborningi að ljúka máli með sekt ef fjárhæð hennar fer ekki yfir 500.000 kr., sbr. reglugerð um lögreglustjórasáttir, nr. 205/2009, og brotið er tilgreint í skrá sem ríkissaksóknara ber að gera skv. 3. mgr. 149. gr. laganna. Samkvæmt skýrslu starfshópsins var fyrirkomulag lögreglustjórasekta í Danmörku og Noregi skoðað. Fjallað er um sektir í 20. kafla norsku sakamálalaganna, lov om rettergangsmåten i straffesaker, frá 1981. Í 255. gr. segir: Finner påtalemyndigheten at en sak bør avgjøres med bot eller inndragning, eller begge deler, kan den utferdige forelegg i stedet for å reise tiltale. Fram kemur í 2. mgr. 256. gr. laganna að kveða megi á um bætur til brotaþola með sekt. Þá segir í 2. mgr. 258. gr. að samþykkt sekt jafngildi dómi. Nánari reglur um sektarheimildir lögreglustjóra í Noregi er að finna í påtaleinstruksen, sem eru nokkurs konar leiðbeiningar fyrir handhafa ákæruvalds. Meginreglan er sú að lögreglustjórar geta beitt sektum í málum sem varða brot á ákvæðum í þriðja hluta norsku hegningarlaganna (forseelser), en almennt er litið á slíkt brot sem minna alvarleg en þau sem er að finna í öðrum hluta (forbrydelser). Þá eru þau almennu takmörk fyrir beitingu sekta að refsirammi viðkomandi lagaákvæðis verður að heimila beitingu sektar. Í Noregi eru engin takmörk á fjárhæð sekta, en hins vegar eru takmörk á vararefsingu fésekta og getur slík refsing mest orðið 3 mánuðir eða 4½ mánuður ef um fleiri en eitt brot er að ræða, sbr. 28. gr. norsku hegningarlaganna.
    Dönsku réttarfarslögin, lov om rettens pleje, eru frá 2009 og er fjallað um sakamálaréttarfar í fjórðu bók laganna. Almenna reglu um heimild handhafa ákæruvalds til að bjóða sekt er að finna í 1. mgr. 832. gr. laganna sem er svohljóðandi: I sager om lovovertrædelse, der ikke skønnes at ville medføre højere straf end bøde, kan anklagemyndigheten i et bødeforelæg tilkendegive sigtede, at sagen kan afgøres uden retssag, hvis sigtede erklærer sig skyldig i overtrædelsen og erklærer sig rede til inden en nærmere angiven frist at betale en i bødeforelægget angivet bøde. Fristen kan efter anmodning forlænges af anklagemyndigheten.
    Bæði í Noregi og Danmörku er þannig að finna nokkuð opin lagaákvæði sem heimila ákæranda að bjóða sektir ef hann metur málsatvik þannig að refsing fari ekki fram úr sekt. Heimild til að ljúka máli með þessum hætti er þar af leiðandi ekki bundin við ákveðin brot.
    Með frumvarpinu er lagt til að hámark þeirrar fjárhæðar sem heimild lögreglustjóra til að ljúka máli með sektargerð miðast við verði hækkað úr 500.000 kr. í 1.000.000 kr. Með þessu móti eru lögreglustjórum lagðar til rýmri heimildir til að bjóða sektargerðir sem ná þá til fleiri brota en heimilt er samkvæmt gildandi lögum. Um skýringar varðandi þetta atriði vísast að öðru leyti til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Heimild lögreglustjóra til þess að kveða á um skilorðsbundna frestun á ákvörðun refsingar.
    Í starfshópnum var sá möguleiki kannaður að lögreglustjóri geti ákveðið að ljúka máli með því að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið, en hingað til hefur sambærileg heimild einungis verið fyrir dómara, sbr. a-lið 57. gr. almennra hegningarlaga. Að mati starfshópsins er ekkert því til fyrirstöðu að lögreglustjóri hafi þessa heimild og geti kveðið á um að ákvörðun refsingar sé frestað skilorðsbundið í málum þar sem dómvenja er fyrir skilorðsbundnum dómum. Um þetta atriði vísast til nánari skýringa við 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í XXIII. kafla núgildandi laga um meðferð sakamála er mælt fyrir um það hvernig ljúka megi sakamáli með ákvörðun viðurlaga án þess að gefin sé út ákæra á hendur sakborningi, sbr. ákvæði 148.–150. gr. laganna. Samkvæmt þessum ákvæðum er ekki að finna heimild til þess að lögreglustjóri geti ákveðið að ljúka máli með því að fresta ákvörðun um refsingu skilorðsbundið. Eins og fram hefur komið er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að lögreglustjóri kveði á um að ákvörðun refsingar sé frestað skilorðsbundið í málum þar sem dómvenja er fyrir skilorðsbundnum dómum, svo sem í málum er varða brot á 217. gr. (minni háttar líkamsárás), 244. gr. (þjófnaður) og 257. gr. (eignaspjöll) almennra hegningarlaga svo dæmi séu nefnd. Þessu til stuðnings má meðal annars benda á að núverandi fyrirkomulag heimilar að kveðið sé á um vararefsingu fésektar þegar sekt er ákveðin. Af því leiðir að sá sem hefur gengist undir sekt en greiðir ekki getur þurft að afplána vararefsingu án þess að málið fari nokkurn tímann fyrir dóm. Er lagt til að ekki verði kveðið á um lengd hinnar skilorðsbundnu fangelsisrefsingar heldur að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Þetta fyrirkomulag er eðlilegra þar sem það er að endingu á valdi dómstóla að ákvarða mönnum refsingu og því óeðlilegt ef dómari væri bundinn af tímalengd refsingar komi til þess að taka þurfi málið upp vegna skilorðsrofa. Gert er ráð fyrir því að ef viðkomandi brýtur af sér á skilorðstímanum þá verði fyrra málið tekið upp og dæmd refsing vegna þess samhliða því nýja. Með þessum hætti er það tryggt að málið fari alltaf fyrir dómara ef til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar kemur. Þau atriði sem þurfa að koma fram í ákvörðun lögreglustjóra um skilorðsbundna refsingu eru sömu atriði og geta þarf í ákæru auk þess sem rétt væri að þar kæmu fram sérstök atriði sem virka til refsiþyngingar eða málsbóta, svo sem aldur og sakaferill. Þá er talið að heimilt eigi að vera að kveða samhliða á um skilorðsbundið fangelsi og sekt. Er lagt til að þessari heimild verði bætt við 149. gr. laganna sem nýrri málsgrein og verði þá 2. mgr.
    Þá er lagt til að 3. og 4. málsl. 1. mgr. 149. gr. laganna verði að sérstakri málsgrein, 3. mgr. Er þar lagt til að kveðið verði á um með skýrum hætti að heimild til að kveða á um skilorðsbundna frestun ákvörðunar refsingar hafi sömu réttaráhrif og skilorðsbundinn dómur, þ.e. slíkt úrræði hafi ítrekunaráhrif þar sem það á við. Er tilgangurinn sá að leggja áherslu á að úrræðinu er ekki ætlað að vera áminning sem er beitt áður en til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar kemur. Er því mikilvægt að ef til skilorðsrofa kemur þá verði málið tekið upp og viðkomandi dæmd refsing.

Um. 2. gr.


    Með þessari grein er lagt til að hugtakanotkun almennra hegningarlaga, þar sem orðið „sátt“ kemur fyrir, verði gerð skýrari. Eins og orðið er notað í þessu samhengi í gildandi lögum og reglum er um heildarhugtak að ræða, sem nefnist „lögreglustjórasátt“, og nær m.a. til svokallaðra „sektargerða“. Er breytingunni ætlað að taka af öll tvímæli til hvaða tegundar lögreglustjórasáttar er verið að vísa, þ.e. sektargerðar, sem er sértækara og afmarkaðra hugtak.

Um 3. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum er lögreglustjóra heimilt að bjóða sakborningi að ljúka máli með sekt ef fjárhæð hennar fer ekki yfir 500.000 krónur og brotið er tilgreint í skrá ríkissaksóknara sem honum ber að gera samkvæmt 3. mgr. 149. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið í almennum athugasemdum með þessu frumvarpi er bæði í Noregi og Danmörku að finna nokkuð opin lagaákvæði sem heimila ákæranda að bjóða sektir ef hann metur málsatvik þannig að refsing fari ekki fram úr sekt. Heimild til að ljúka máli með þessum hætti er þar af leiðandi ekki bundin við ákveðin brot.
    Með þessu ákvæði er lagt til að gerð verði sú breyting á gildandi lögum að heimild lögreglustjóra til að ljúka máli með sekt verði ekki lengur einskorðuð við þau brot sem tilgreind eru í skrá ríkissaksóknara. Lagt er til að þessi heimild verði rýmkuð til muna og taki til brota þar sem það er mat lögreglustjóra að refsing fari ekki fram úr sekt upp að ákveðnu hámarki. Þó er mikil áhersla lögð á að opinni heimild sem þessari verður að setja þau takmörk að hún taki eingöngu til brota þar sem skýr dómafordæmi liggja fyrir og er því gert ráð fyrir að ríkissaksóknari láti lögreglustjórum í té leiðbeinandi skrá yfir brot sem heimildin nær til. Samhliða þessari breytingu er lagt til að dagafjöldi vararefsinga fésekta rými við þær fjárhæðir sem við eiga. Að öðru leyti er vísað til skýringa við 2. gr. frumvarpsins varðandi breytta notkun á hugtökunum „sátt“ og „sektargerð“.

Um 4. gr.


    Eins og fram kom í athugasemdum við 1. gr. er ekkert því til fyrirstöðu að lögreglu verði heimilað að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið í máli þar sem dómvenja er fyrir skilorðsbundnum dómum vegna sambærilegra brota. Sem dæmi má nefna brot gegn 217. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Þá er gjarnan dæmt skilorðsbundið fangelsi séu ekki sérstök refsiþyngjandi sjónarmið uppi í málinu líkt og ef brot er stórfellt eða sakborningur hefur langan sakaferil. Ekki er ætlunin að lögreglustjóri kveði á um lengd hinnar skilorðsbundnu fangelsisrefsingar, enda er það á valdi dómstóla, heldur að ákvörðun um refsingu verði hægt að fresta skilorðsbundið. Ef taka þarf upp málið að nýju síðar vegna skilorðsrofa þykir eðlilegt að dómstólar hafi frjálsar hendur við að ákvarða mönnum refsingu þegar dæmt er vegna brotsins ásamt nýja málinu.
    Í 2. málsl. er lögreglustjóra veitt heimild til að ljúka máli með sektargerð við sakborning vegna nýs brots á skilorðstíma ef sýnt þykir að nýja brotið muni ekki hagga við skilorðsbindingu eldra brotsins. Haganlegt þykir að lög kveði á um þessa heimild ákæranda til að ljúka málum með þessum hætti.

Um 5. gr.


    Samkvæmt þessari grein eru lagðar til smávægilegar breytingar á orðalagi og orðnotkun, sbr. a- og d-lið greinarinnar. Er hér einungis um málfarslegar breytingartillögur að ræða. Þá er lagt til að hugtakið „sektarboð“ í c-lið verði notað í staðinn fyrir hugtakið „sáttaboð“. Hugtakið „sáttaboð“ kemur einungis fyrir á einum stað í almennum hegningarlögum, sbr. 4. mgr. 82. gr., en í lögum um meðferð sakamála er ávallt notast við hugtakið „sektarboð“. Auk þess er lagt til að hugtakið „sekt“ verði notað í stað hugtaksins „sátt“, sbr. b-lið greinarinnar. Ekki eru hér á ferðinni neinar efnislegar breytingar á ákvæðinu, en hins vegar þykir eðlilegt að framvegis verði notast við hugtökin „sektarboð“ og „sátt“ í þessari merkingu til þess að gæta samræmis milli laganna. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki frekari skýringa.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála
og almennum hegningarlögum.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að auka hraða og skilvirkni í meðferð sakamála. Í því skyni er lagt til í frumvarpinu að gildandi heimild lögreglustjóra til að ljúka málum með lögreglustjórasátt og sektargreiðslum verði rýmkuð.
    Samkvæmt 149. gr. laga um meðferð sakamála er lögreglustjóra heimilt að ljúka máli með sekt ef sektarfjárhæð fer ekki fram úr tiltekinni fjárhæð, sem nú er 500 þús. kr., og að brotið sé á sérstakri fyrirmælaskrá saksóknara um brot sem heimilt er að ljúka með lögreglustjórasátt. Í frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði rýmkuð með þeim hætti að þegar lögreglustjóri telur að við broti geti legið skilorðsbundin refsing verði honum heimilt að fresta refsingu skilorðsbundið að hluta eða að öllu leyti þannig að sakborningur greiði sekt og sakarkostnað auk þess að geta þurft að gangast undir önnur viðurlög eftir atvikum. Til að ljúka máli með þessum hætti verða að liggja skýr dómafordæmi fyrir og enn fremur geta lögreglustjórar eingöngu lokið þeim málum sem eru á sérstakri fyrirmælaskrá til leiðbeiningar sem ríkissaksóknari tekur saman líkt og nú er varðandi sektargreiðslurnar. Þá er lagt til í frumvarpinu að hámark þeirrar fjárhæðar sem lögreglustjóra er heimilt að bjóða sakborningi að ljúka máli með sekt hækki í 1 m.kr.
    Um 1.400 mál voru send frá lögreglustjórum til dómstólanna á síðasta ári. Hins vegar liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar af hálfu innanríkisráðuneytisins til að hægt sé að leggja mat á það hversu mörgum málum væri hægt að ljúka með lögreglustjórasátt samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og hversu mikil hagræðing geti falist í því. Engu að síður má ætla að lögfesting frumvarpsins muni minnka álag á dómstóla landsins með fækkun dómsmála og spara ýmsan kostnað, t.d. vegna skipaðra verjenda í slíkum málum. Á móti vegur aukin vinna hjá lögreglustjóraembættum en sú málsmeðferð verður þó mun einfaldari. Innanríkisráðuneytið telur ekki þörf fyrir tilfærslu starfsmanna eða fjárheimilda á milli dómstóla og lögregluembætta vegna þessa. Verði frumvarpið lögfest má því telja að það muni leiða til nokkurs sparnaðar í rekstri réttarfarskerfisins og geri því betur kleift að mæta þeim aðhaldsmarkmiðum sem sett hafa verið í fjárlögum.