Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 754. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1192  —  754. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Birgitta Jónsdóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Lúðvík Geirsson, Margrét Tryggvadóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ólína Þorvarðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hvetja til þess að bresk stjórnvöld og stjórnendur kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield tryggi að umfang hágeislavirks vökva sem geymdur er í stöðinni verði komið úr þúsund tonnum niður í 200 tonn 2016 í samræmi við gefin fyrirheit. Jafnframt taki íslensk stjórnvöld undir þá kröfu að hætt verði að taka við geislavirkum úrgangi þar til tilsettu marki er náð, öryggi verði bætt í stöðinni og ákvörðun tekin um að loka henni hið fyrsta.
    Alþingi ályktar einnig að fela ríkisstjórninni að láta meta hugsanleg áhrif sem slys eða óhapp í Sellafield getur haft á íslenskt hafsvæði og landsvæði, matvælaframleiðslu og heilbrigði manna og dýra á svipaðan háttt og Geislavarnir Noregs hafa unnið. Slíkt mat liggi fyrir 1. desember 2012.

Greinargerð.


    Fyrsta kjarnorkuverið á Bretlandseyjum tók til starfa í Sellafield 1956 en raforkuframleiðslu þar var hætt og verinu lokað 2003. Nú er rekin þar endurvinnslustöð sem tekur á móti geislavirkum úrgangi. Starfsemin er fólgin í því að notað kjarnorkueldsneyti er leyst upp og hágeislavirk efni, m.a. úran og plútóníum, síðan einangruð frá lággeislavirkum efnum í þeim tilgangi að endurnýta sum þeirra. Nú eru í THORP-endurvinnslustöðinni í Sellafield geymd um eitt þúsund tonn af slíkum hágeislavirkum vökva í 21 tanki.
    Lengi og hart hefur verið deilt um endurvinnslu kjarnorkuúrgangs í Sellafield, því í gegnum tíðina hafa geislavirk efni frá endurvinnslustöðinni lekið eða þeim verið sleppt skipulega út í sjó. Framan af lögðu umhverfisverndarsamtök áherslu á baráttu gegn losun teknetíum-99 í sjó, en það er samsæta teknetíums og hefur 211 þúsund ára helmingunartíma. Norrænar ríkisstjórnir, þar á meðal íslensk stjórnvöld, sem og Norðurlandaráð tóku þátt í þessari baráttu enda varð geislavirkni frá Sellafield vart meðfram allri strönd Noregs og norðaustan við Ísland. Þessi barátta leiddi til þess að losun teknetíum-99 í sjó við Sellafield var loks hætt 2004.
    Ennþá stafar þó margvísleg hætta af starfseminni í Sellafield, m.a. af aðflutningi kjarnorkuúrgangsins. Gagnrýni á starfsemi Sellafield hefur þó á undanförnum árum einkum beinst að söfnun og geymslu hágeislavirkra vökva í stöðinni og þess verið krafist að starfseminni yrði hætt og stöðinni lokað. Nú eru þar eins og fyrr segir um eitt þúsund tonn af hágeislavirkum vökva og margir efast um að öryggi sé nægilegt í kringum þessa uppsöfnun og geymslu. Geislavarnir Noregs sendu frá sér skýrslu árið 2010 sem sýndi að losun í andrúmsloftið frá Sellafield vegna slyss eða óhapps gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir norska náttúru og dýralíf. 1 Þannig áætla Geislavarnir Noregs að ef aðeins 1% af því magni sem nú er í THORP- stöðinni slyppi út í andrúmslofið gæti það leitt til sjö sinnum meira geislavirks úrfellis í Noregi en Tsjernóbyl-slysið olli. Afleiðingarnar fyrir landbúnað, matvælaframleiðslu og heilbrigði dýra og manna yrðu verulegar.
    Stjórnendur Sellafield kynntu á árinu 2009 áætlanir um að draga úr uppsöfnun hágeislavirks vökva niður í 200 tonn á árinu 2016 en þær áætlanir hafa ekki gengið eftir. Þvert á móti hefur því verið frestað ítrekað og haldið áfram að taka við geislavirkum úrgangi.
    Umhverfisráðherra Noregs og umhverfisverndarsamtök (Lofoten mot Sellafield, Guardians of our common seas og Bellona) kröfðust þess á árinu 2011 að hætt yrði að taka við nýjum kjarnorkuúrgangi í Sellafield þar til yfirlýstu markmiði frá 2009 yrði náð og að staðið yrði við fyrri yfirlýsingar. Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs styður þá kröfu og hefur í þeim tilgangi fundað með stjórnendum Sellafield og umhverfisverndarsamtökum um málið. Þessa kröfu þurfa íslensk stjórnvöld einnig að styðja og er þessi tillaga lögð fram í þeim tilgangi.
    Í þessari þingsályktunartillögu er einnig lagt til að ríkisstjórnin láti meta hugsanleg áhrif sem slys eða óhapp í Sellafield hefði á heilbrigði manna og dýra, íslenskt hafsvæði og landsvæði, sem og matvælaframleiðslu. Sleppi hágeislavirk efni út í andrúmsloftið frá tönkunum í Sellafield má reikna með að þau gætu borist í átt til Íslands þó í minna mæli væri en til Noregsstranda.

Staðan á Íslandi.
    Í kjölfar útkomu skýrslunnar sendi fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu, Álfheiður Ingadóttir, fyrirspurn til bæði umhverfisráðherra og velferðarráðherra um hvort ekki væri rétt að gera könnun eða mat á hugsanlegum afleiðingum óhapps eða slyss í Sellafield á Íslandi (497. og 498. mál). Í svörum velferðarráðherra og umhverfisráðherra við fyrirspurnum kemur fram að engin athugun á hugsanlegum afleiðingum slyss í Sellafield og loftaðborinni geislun þaðan hefur farið fram hvað Ísland varðar en að Geislavarnir ríkisins og Veðurstofan hafi víðtæka samvinnu við systurstofnanir á Norðurlöndum um viðbrögð við geislavá.
    Í svari sínu taldi velferðarráðherra ekki þörf vera fyrir slíkri athugun: „Geislavarnir ríkisins er fámenn stofnun sem þó er vel þekkt á alþjóðavísu á sínu sviði. Velferðarráðherra ber fullt traust til stofnunarinnar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu að annast öryggisráðstafanir á Íslandi gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum. Eins og fram hefur komið ráðast niðurstöður úttektar eins og þeirrar sem Norðmenn hafa gert af þeim forsendum sem gefnar eru og óvissa í þeim getur verið mikil. Velferðarráðherra telur því ekki tilefni til að óska eftir sérstakri skýrslu frá Geislavörnum ríkisins um mat á áhrifum af þessari tilteknu ógn.“ (Þskj. 881 – 497. mál.)
    Umhverfisráðherra útilokaði ekki slíka rannsókn en gerði þó eftirfarandi fyrirvara: „Meti Geislavarnir ríkisins og velferðarráðuneytið það svo að nauðsynlegt sé að vinna mat á hættu af geislavirkni á Íslandi vegna slyss eða óhapps í Sellafield mun ráðherra beita sér fyrir því að Veðurstofunni verði gert fjárhagslega mögulegt að taka þátt í slíku hættumati. Umhverfisráðuneytið hefur fylgst vel með málefnum Sellafield og beitt þrýstingi til að draga úr losun og efla öryggi þar um langt skeið.“ (Þskj. 919 – 498. mál.)
    Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja hins vegar nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld láti í sér heyra sem allra fyrst og að gerð verði athugun á hugsanlegum afleiðingum slyss í Sellafield hér á landi. Slík athugun krefst samhæfingar undirstofnana a.m.k. fjögurra ráðuneyta, þ.e.: a) Geislavarna ríkisins hjá velferðarráðuneytinu, b) Veðurstofunnar hjá umhverfisráðuneytinu, c) Almannavarna hjá innanríkisráðuneytinu og d) Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.
    Í fyrrnefndu svari velferðarráðherra (þskj. 881, 497. mál) kemur m.a. fram að umfang hættumats felist m.a. í veðurfarsgreiningu svæðisins milli Skotlands og Íslands og dreifingu geislavirkra efna frá uppsprettunni og þynningu þeirra við mismunandi veðuraðstæður en einnig hvernig geislavirk efni berast í umhverfið eftir aðstæðum þar. Þar segir m.a.:
    „Geislavirk efni geta haft áhrif með ýmsum hætti eftir að þau hafa fallið til jarðar. Heilsufarsleg áhrif ráðast m.a. af gróðurfari, landnytjum, ástandi gróðurs (sumar/vetur), uppsöfnunaráhrifum (t.d. efni sem berast í fisk í litlu vatni með stórt vatnasvið) og jarðvegsgerð. Efnin geta einnig haft efnahagsleg áhrif t.d á ferðamennsku og útflutning þótt heilsufarsleg áhrif séu lítil.
    Lykilþáttur í mati heilsufarslegra áhrifa úrfellis í norsku skýrslunni er hversu mikið af geislavirkum efnum berst í ýmsar landbúnaðarafurðir í kjölfar gefins úrfellis. […] Aðstæður á Íslandi eru hins vegar í mörgu frábrugðnar því sem gerist í grannlöndum okkar. Margt í búskaparháttum, landnytjum, gróðurfari og veðurfari er öðruvísi, en það er ekki síst jarðvegurinn sem gerir það að verkum að langtímaáhrif af slysi geta orðið önnur hér en vænta mætti af reynslu annarra. Íslenski eldfjallajarðvegurinn hefur aðrar leirtegundir en jarðvegur meginlandsins, hann bindur geislavirk efni (sérstaklega sesín-137) ekki eins vel, þannig að þau verða aðgengileg gróðri til upptöku. […] Samanburður á gögnum í norsku skýrslunni og niðurstöðum hérlendis sýnir að áhrif sambærilegs úrfellis geta verið svipuð, en óvissa í mati og samanburði er mikil, bæði vegna óvissu í gögnum og fjölbreytileika staðhátta og landnýtingar. […] Lítið hefur verið birt í vísindaritum af sambærilegum gildum löngu eftir úrfelli, íslensku gildin sýna þó meiri tilfærslu í mjólk en almennt er annars staðar þó að finna megi viss svæði þar sem ástand er svipað. Áhrif úrfellis mundu því vara lengur en víðast annars staðar. […] Norska skýrslan bendir á að mjólkurframleiðsla þar sé ekki eins viðkvæm gagnvart geislavirku úrfelli og ýmsar aðrar tegundir landbúnaðar.“
    Allar þessar upplýsingar eru nauðsynlegur grundvöllur þess að hægt sé að meta hættuna af hugsanlegu kjarnorkuslysi í Sellafield fyrir Ísland.
Neðanmálsgrein: 1
1     Consequences in Norway after a hypothetical accident at Sellafield: Predicted impacts on the environment. www.nrpa.no/dav/0942d3dc93.pdf.