Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1436  —  658. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um veiðigjöld.

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur nú haft frumvarp til laga um veiðigjöld til umfjöllunar samhliða frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða, fjallað um það á fjölmörgum fundum og tekið á móti miklum fjölda umsagna og fengið á fundi sína fjölmarga gesti. 2. minni hluti gerir athugasemdir við álit meiri hluta nefndarinnar í málinu og mun í áliti þessu tíunda sín sjónarmið.
    Frumvarpið er 15 greinar en þar stendur í markmiðsgrein: „Veiðigjöld eru lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“
    Í skýringum við frumvarpið segir: „Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. … Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.
    Í frumvarpinu er því auk sjálfbærrar nýtingar lögð áhersla á fjárhagslega hagkvæmni útgerðar og verðmætasköpun í atvinnugreininni.“ Að mati 2. minni hluta er augljóst að frumvarpið með breytingartillögum gengur þvert gegn markmiðum þess um „að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“
    Í stefnu Framsóknarflokksins stendur um veiðigjald: „Lagt er til að á nýtingarsamninga í potti eitt verði lagt árlegt veiðigjald, þ.e. svokölluð auðlindarenta. Veiðigjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar. Bent hefur verið á að mikilvægt sé að skilgreina hvað auðlindir séu, hverjar séu í eigu ríkis og hverjar falli undir hið óskilgreinda hugtak „sameign þjóðarinnar“. Jafnframt hefur verið bent á mikilvægi þess að jafnræði um gjaldtöku sé milli atvinnugreina.
    Mikilvægt er að hluti auðlindarentunnar renni til greinarinnar sjálfrar til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Einnig er nauðsynlegt að nýir aðilar geti sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auðga þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá er lagt til að hluti gjaldsins renni aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til, einkum til mótvægis því að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótarskattlagningu, sérstaklega á landsbyggðinni. Hluti af auðlindarentunni rynni síðan í ríkissjóð.“
    Annar minni hluti telur að markmiðum frumvarpsins hefði verið náð betur með því að fylgja stefnu framsóknarmanna. Sérstaklega er bent á áherslu á nýsköpun og þróun og tillögur um að umtalsverður hluti veiðigjaldsins renni aftur til þess svæðis þar sem auðlindarentan verður til. Fjölmargar umsagnir styðja þetta mat.
    Í greinargerð Daða Más Kristóferssonar og Þórodds Bjarnasonar, sem fylgdi frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða (þskj. 1052 – 657. máli) er farið yfir helstu sjónarmið sem fram koma í frumvarpi til laga um veiðigjöld. Rakin eru helstu áhrif boðaðra breytinga. 2. minni hluti tekur undir orð sérfræðinganna og lýsir um leið undrun sinni á því að hvorki ráðuneytið né meiri hlutinn skuli ekki þá þegar hafa vikið af þessari villuleið þar sem draga má þá ályktun af umræddri greinargerð að þær breytingar sem boðaðar eru séu bundnar mikilli óvissu. Í greinargerðinni kemur meðal annars eftirfarandi fram:
    „Ákvæði um veiðigjöld er að finna í sjálfstæðu frumvarpi. Því er ætlað að tryggja hlutdeild þjóðarinnar samkvæmt 5. tölulið 1. gr. frumvarps laga um stjórn fiskveiða. Gjaldið skal annars vegar byggt á kostnaði við stjórnun fiskveiða og hins vegar gjaldi á auðlindarentu. Mat á umfangi auðlindarentu er hins vegar ekki einfalt. Auðlindarentu í nýrri ónuminni auðlind má skilgreina sem mismun samfélagslegs kostnaðar veiða að teknu tilliti til eðlilegrar arðsemi og afurðaverðs. Núverandi aflahlutdeildarkerfi hefur verið all lengi við lýði og hefur á þeim tíma valdið umtalsverðum breytingum á sjávarútvegi hér á landi. Leyft hefur verið að framselja aflaheimildir frá 1991 sem hefur gert það að verkum að stór hluti aflaheimilda hefur gengið kaupum og sölum á markaði á verði sem endurspeglaði auðlindarentuna. Kostnaður af kvótakaupum orðinn hluti af kostnaði útgerðarfyrirtækja. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar fjallað er um gjaldtöku í sjávarútvegi.
    Gjaldtökuhugmyndir fyrra frumvarps voru gagnrýndar annars vegar fyrir það að álagning byggðist ekki á raunverulegri auðlindarentu, þær tryggi ekki tekjur til að standa straum af stjórnunarkostnaði, dreifist með ósanngjörnum hætti á mis arðsamar veiðar og byggi á of gömlum afkomugögnum. Brugðist er við þessari gagnrýni að nokkru leyti í nýju frumvarpi. Veiðigjaldið er, eins og áður sagði, tvískipt. Annars vegar er almennt veiðigjald, sem ætlað er að standa straum af kostnaði ríkisins vegna fiskveiðistjórnunar, og hins vegar sérstakt veiðigjald, sem byggir á afkomu og á að tryggja ríkinu hlutdeild í auðlindarentunni sem veiðarnar skapa. Veiðigjöldin leggjast á ólíkar tegundir í samræmi við þorskígildi. Sérstakt veiðigjald er lagt á í tvennu lagi, annars vegar á uppsjávarveiðar og hins vegar á botnfiskveiðar. Jafnframt byggjast útreikningar sérstaks veiðigjalds á mati á auðlindarentu fremur en þáttartekjum. Tekið er tillit til fjármagnskostnaðar vegna bundins fjármagns og tilraunir gerðar til að leiðrétta álagninguna fyrir afkomuþróun frá því rekstrartímabili sem lagt er til grundvallar við mat á tekjum og kostnaði og fram að álagningu. Þessar breytingar eru allar til bóta samanborið við síðasta frumvarp.
    Nokkrar athugasemdir ber þó að gera við hugmyndir frumvarpsins um veiðigjald.
     Í fyrsta lagi er álagningin umfangsmikil. Hún mun í fyrstu verða 60% af metinni auðlindarentu og hækka í þrepum upp í 70%. Ljóst er að verulegur hluti auðlindarentu af veiðum hefur þegar eigngerst og horfið út úr sjávarútvegi í viðskiptum með aflahlutdeild, eins og áður var nefnt. Rentan sem veiðarnar skapa hefur þannig runnið til fyrri eigenda aflaheimildanna. Ljóst er að þær útgerðir sem eru skuldsettar vegna kaupa á aflaheimildum munu eiga mjög erfitt uppdráttar við þessa breytingu. Ef marka má úttekt sérfræðingahópsins á afkomu nokkurra helstu útgerðarfyrirtækja landsins er ljóst að þessi hækkun veiðigjalds er meiri en mörg þeirra ráða við. Hækkanir veiðigjalds munu einnig hafa áhrif á virði aflahlutdeildar, en ef renta væri rétt metin með aðferð frumvarpsins myndi virði hlutdeildar rýrna sem nemur gjaldhlutfallinu. Þannig má gera ráð fyrir að eignir útgerðarfyrirtækja sem bundnar eru í hlutdeild falli sem því nemur með tilheyrandi áhrifum á hlutfall eigin fjár.
     Í öðru lagi gerir frumvarpið ráð fyrir því að meta rentu veiða og vinnslu saman og leggja veiðigjald á veiðarnar sem hlutfall af þessari heildarrentu. Ætla má að þetta sé gert til þess að takast á við vandamál tengd tekjuskráningu samþættra útgerðar- og vinnslufyrirtækja. Hér þarf þó að staldra við og velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir að engin umframhagnaður (þ.e. renta) verði til í fiskvinnslu. Ljóst er að umframhagnaður getur orðið til af fleiri ástæðum en vegna sjávarauðlindarinnar. Vinnslufyrirtæki geta byggt upp orðspor á markaði eða búið yfir eftirsóknarverðri afkastagetu til skemmri tíma sem skapar umframhagnað, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig þarf að taka tillit til þess að fiskvinnsla er áhætturekstur sem býr við miklar hráefnissveiflur. Ávöxtunarkrafa í slíkum rekstri er eðlilega mun hærri en í áhættuminni rekstri. Það getur því reynst erfitt að skilja á milli eðlilegs hagnaðar og umframhagnaðar ef ekki er vitað hver eðlileg ávöxtunarkrafa er.
    Kemur þá að þriðja atriðinu sem snýr að ákvörðun reiknaðrar ávöxtunar á verðmæti rekstrarfjármuna, eins og segir í frumvarpinu, þar sem kalla mætti hlutdeild fjármagns í rekstrarkostnaði. Ákvörðun hlutdeildar fjármagns er lykilatriði við mat á rentu. Annars vegar byggir hún á mati á vegnum fjármagnskostnaði og hins vegar verðmæti rekstrarfjármuna. Veginn fjármagnskostnaður er fastsettur í frumvarpinu, 8% fyrir veiðar og 10% fyrir vinnslu. Mjög mikilvægt er að veginn fjármagnskostnaður sé rétt skilgreindur og taki að fullu tillit til atriða eins og lánskjara, rekstraráhættu og seljanleika eigna. Þess má sjá glögg dæmi raforkulögum að löggjafinn gerir sér grein fyrir þessu, þar sem sérfræðinganefnd er falið að ákvarða veginn fjármagnskostnað í dreifingu rafmagns. Ef veginn fjármagnskostnaður er fastsettur í lögum er mikilvægt að hann sé ekki vanáætlaður. Verðmæti rekstrarfjármuna skal samkvæmt frumvarpinu byggja á vátryggingaverðmæti skipa að viðbættum 20% og bókfærðu virði annarra eigna, án afskrifta. Rétt er að benda á að meðan vátryggingaverðmæti fylgir að einhverju leyti verðlagi gerir bókfært virði það ekki. Það skýtur mjög skökku við mismuna eignum með þessum hætti og eðlilegra verður að teljast að aðrar eignir séu uppfærðar með vísitölubreytingum til samræmis.
     Í fjórða lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að sértækt veiðigjald leggist einungis á ef afkoma eftir reiknaða ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna og almennt veiðigjald er jákvæð. Rétt er að benda á að ef renta verður einhvern tímann neikvæð mun meðalskattlagning rentu fara upp fyrir þau 70% sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Í sveiflukenndum veiðum, eins og uppsjávarveiðum, getur þetta leitt til þess að mun hærra hlutfall en 70% sé tekið að meðaltali. Í þeim löndum þar sem renta er skattlögð er jafnan tekið tillit til þessa með því að leyfa frádrátt neikvæðrar rentu síðasta árs frá rentu núverandi árs.
     Í fimmta lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir frítekjumarki fyrir minni útgerðir, en afkoma þeirra er að jafnaði lakari en stærri útgerða. Niðurgreiðsla óhagkvæmrar atvinnustarfsemi skapar hvata til að viðhalda eða auka umfang hennar og bjagar hvata til eðlilegrar hagræðingar í útgerð. Færa þarf fyrir því sannfærandi rök að ávinningur þessa sé meiri en tilkostnaðurinn. Á hinn bóginn skal viðurkennt að staða útgerða í smábátaútgerð er mun veikari en útgerðarfyrirtækja sem fyrst og fremst gera út stærri báta, eins og glögglega má sjá á skýrslu sérfræðingahópsins vegna fyrra frumvarps. Ljóst er að frítekjumarkið mun létta mjög undir með minni útgerðum að takast á við boðaðar hækkanir veiðigjalds.
     Að lokum er rétt að benda á að renta í útgerð skiptist milli útgerðar og sjómanna, eins og fram hefur komið í fjölda rannsókna. Umfangsmikil skattlagning rentu mun lækka laun sjómanna til lengri tíma litið. Einnig hafa rannsóknir sýnt að samhengi er milli umfangs rentu og umgengni við auðlindir annars vegar og hvatans til leita nýrra nytjategunda hins vegar. Umfangsmikil skattlagning rentu í sjávarútvegi mun draga úr þessum hvötum. Mikilvægt er að tekið sé tillit til þessa kostnaðar þegar kostnaður og ábati gjaldtöku er metinn.
    Rétt að undirstrika að samræmi þarf að vera milli gjaldtöku annarra ákvæða frumvarpsins sem breyta rekstrarskilyrðum og skerða afkomu útgerðarfyrirtækja. Ef vegið er að möguleikum til hagræðingar og langtímahagkvæmni útgerðarinnar mun það skerða umfang auðlindarentunnar og draga úr getu útgerðarinnar til að standa undir gjaldtökunni. Dæmi um íþyngjandi ákvæði frumvarpsins sem koma til viðbótar hækkun veiðigjalda er takmörkuð tímalengd nýtingarleyfa, stækkun potta, takmarkanir á viðskiptum með aflamark og skattlagning viðskipta með aflahlutdeildir.“

Umsagnir.
    Til að sýna fram á hversu alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við frumvarpið verða hér tekin þrjú dæmi úr umsögnum sem nefndinni hafa borist. Fyrsta dæmið er úr umsögn ASÍ sem telur skynsamlegt að sérstaka veiðileyfagjaldið verði skilgreint sem hlutdeild í „umframhagnaði“ greinarinnar þar sem gengið sé út frá framlegðinni að frádreginni árgreiðslu sem dugi til að tryggja bæði eðlilega endurfjárfestingu og ávöxtun á eigið fé. Slík nálgun er í senn skynsamleg og sanngjörn. ASÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að útfærsla sérstaka veiðigjaldsins hafi ekki áhrif á laun og tekjur sjómanna og fiskverkafólks. Að mati sambandsins eru nokkrir alvarlegir veikleikar í frumvarpinu sem nauðsynlegt er að sníða af. Fyrsta atriðið sem laga þarf er að upplýsingar um afkomu og framlegð sem liggja til grundvallar útreikningi á fiskveiðirentunni byggjast á allt að tveggja ára gömlum gögnum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjur verði framreiknaðar með verðlagsvísitölu sjávarútvegs frá ársmeðaltali til aprílmánaðar tveimur árum síðar, útgjöld með vísitölu neysluverðs og rekstrarfjármunir með byggingarvísitölu. Að stórum hluta endurspeglar t.d. verðlagsvísitala sjávarútvegs útgjöld útgerðar og vinnslu vegna þess hve laun sjómanna eru tengd afurðaverði. Niðurstaða framreiknings getur því orðið talsvert á skjön við raunveruleikann. ASÍ telur einnig nauðsynlegt að meta frekar áhrif veiðigjalda á gengi krónunnar og afkomu útgerðar.
    Óeðlilegt er að ýta undir óhagkvæmar veiðar með afslætti af veiðigjaldi, þ.e. að ekkert gjald sé greitt af fyrstu 30 þorskígildistonnunum. Þá bendir ASÍ á að ekki megi gera breytingar á stjórn fiskveiða sem skerða möguleika útgerðarinnar til að afla þjóðartekna og standa undir veiðigjaldi. Undir þetta tekur 2. minni hluti. Áhugavert væri að skoða samspil gengisþróunar og getu fyrirtækja til að greiða veiðigjald.
    Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte segir í umsögn sinni að gera megi ráð fyrir að hækkun og breyting veiðigjalds hafi áhrif á framlegð fyrirtækja, allt að 35% af framlegð fyrirtækja í sjávarútvegi færi í veiðigjald eftir breytingar en hefði verið um 4% fyrir breytingar. Breytingarnar hafi áhrif á gjaldfærni sjávarútvegsfyrirtækja. Fram kemur í ítarlegum gögnum og myndskýringum í umsögninni að endurgreiðslutími lána sjávarútvegsfyrirtækja muni margfaldast ef fyrirtækin geta yfirhöfuð staðið við skuldbindingar sínar.
    Í sinni umsögn vekur Landsbankinn athygli á að veiðar og vinnsla sjávarafurða í fjölda ríkja er óarðbær atvinnugrein sem rekin sé með styrkjum. Hagkvæmni, afrakstur, skatttekjur og þjóðhagslegur ábati af fiskveiðum í hverju landi eru því ekki gefnar stærðir. Umgjörð núverandi kerfis hér á landi hefur átt stóran þátt í því að auka hagkvæmni og arðsemi kerfisins þrátt fyrir að veiðar úr mikilvægasta stofninum séu bara helmingur af því sem þær voru á níunda áratugnum. Ef kerfinu verður breytt munu merki þess óhjákvæmilega sjást í fjárhagslegri afkomu þjóðarinnar. Því er mikilvægt að breytingar á veiðigjöldum hafi það að meginmarkmiði að lágmarka neikvæða hvata sem leiða til minni skilvirkni og hagkvæmni í nýtingu.
    Landsbankinn bendir einnig á að útreikningar bendi til þess að gjaldtaka upp á 70% af samtölu reiknaðrar rentu á þremur árum muni ekki ganga upp í ljósi stöðu íslensks sjávarútvegs í dag. Það mundi leiða til fjölda gjaldþrota. Með svo umfangsmikilli gjaldtöku er auk þess verulega dregið úr getu og vilja fyrirtækja til nýfjárfestinga. Mikill fjöldi þeirra fyrirtækja sem lentu í úrtaki bankans gæti ekki staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar sínar verði frumvarpið um veiðigjöld samþykkt. Þetta hefur áhrif á alla landshluta. Breytingarnar kæmu, að mati bankans, verst niður á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og höfuðborgarsvæðinu. Bankinn þyrfti að afskrifa 31 milljarð kr. af bókfærðu virði verði frumvarp um veiðigjöld samþykkt. Boðaðar breytingar munu hafa áhrifa á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja og á samfélagið allt.
    Í ljósi þessara umsagna skilur 2. minni hluti ekki þá niðurstöðu sem birtist í nefndaráliti meiri hlutans. Svo virðist sem meiri hlutinn hafi ekki hlustað á umsagnaraðila né lesið umsagnirnar nema það hafi verið ákveðið fyrir fram að hunsa þær allar nánast.

Umsagnir sveitarfélaga.
    Annar minni hluti vekur athygli á því að fjölmörg sveitarfélög, samtök þeirra og atvinnuþróunarfélög á vegum sveitarfélaga skiluðu inn umsögnum sem sýna að þau hafa verulegar áhyggjur af afleiðingum frumvarpsins. Í umsögn Grindavíkurbæjar segir að helstu beinu áhrifin af frumvarpi til laga um veiðigjöld verði að grunnveiðigjald og sérstakt veiðigjald í Grindavík á síðasta ári hefði numið yfir 2.000 millj. kr., en árið 2011 var eitt hið besta á þessari öld. Til samanburðar má nefna að skatttekjur Grindavíkurbæjar (útsvar og fasteignaskattar) á árinu 2011 námu rúmlega 1.100 millj. kr. Auðlindarenta á fyrirtæki í Grindavík hefði numið rúmlega tvöfaldri þeirri fjárhæð, sem hefði runnið að fullu í ríkissjóð. Búast má við að stóraukin gjaldheimta af sjávarútvegsfélögunum leiði til þess að fyrirtækin reyni að draga úr kostnaði annars staðar, m.a. með því að endursemja við sjómenn og annað starfsfólk, fækka stöðugildum og draga úr þjónustukaupum. Lækkun á launakostnaði fyrirtækjanna og minnkandi þjónustukaup munu skila sér í enn frekari lækkun útsvarsstofns Grindavíkurbæjar og samdrætti í tekjum hafnarinnar. Það er mat Grindavíkurbæjar að ef frumvarpið verði að lögum sé ljóst að áhrifin verði verulega neikvæð á samfélagið í Grindavík og á Suðurnesjum öllum og mun að öllu óbreyttu valda því að íbúum á svæðinu fækkar. Það er ekki á samfélagið á Suðurnesjum leggjandi. Áhrifin munu jafnframt koma fram á öðrum svæðum, en fyrirtækin í Grindavík sækja starfsfólk, og þá ekki síst sjómenn, um land allt.
    Í umsögn Fjarðabyggðar kemur fram að ef frumvarp þetta verður samþykkt muni það hafa mikil áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja í Fjarðabyggð. Fyrir liggur að svigrúm fyrirtækja til fjárfestinga mun verða mun minna sem um leið hefur áhrif í samfélaginu þar sem stórir og smáir þjónustuaðilar byggja rekstur sinn á ýmiss konar þjónustu við greinina. Skattheimta eins og boðuð er í frumvörpunum er gríðarleg færsla á fjármunum frá samfélaginu á Austfjörðum í ríkissjóð og lætur nærri að hún nálgist 4 milljarða kr.
    Vestmannaeyjabær segir í umsögn sinni að gjaldið sé landsbyggðarskattur sem kallaður hafi verið auðlindagjald og sé fáheyrt hár. Boðað auðlindagjald hefði verið um 5 milljarðar kr. fyrir atvinnulífið í Vestmanneyjum árið 2010 af 24 milljörðum kr. fyrir allt landið. Það gerir sértæka gjaldheimtu upp á tæplega 1,2 millj. kr. á hvern íbúa Vestmanneyja einungis það ár. Slíkur skattur ofan á allt annað sem íbúar Eyja greiða til jafns við aðra er fáheyrður. Ósanngjarnt og óréttlátt er að leiða gríðarlega skattheimtu yfir landsbyggðina þegar loks sjást merki um hagvöxt. Endurnýjun og nýsköpun takmarkast með skattlagningu þessari.
    Hreppsnefnd Vopnafjarðar varar Alþingi sterklega við í umsögn sinni að samþykkja frumvarpið og vísar máli sínu til stuðnings í greinargerðir sérfræðinga sem m.a. fylgja frumvörpunum sjálfum.
    Í umsögn sinni vísar Snæfellsbær í að samkvæmt greiningu Deloitte á afleiðingum frumvarpsins er talið að veiðigjaldið af fyrirtækjum í Snæfellsbæ verði 817 millj. kr. á ári, en þess má geta að útsvar Snæfellsbæjar árið 2010 er 625 millj. kr. Af 24 útgerðarfélögum sem litið var á í úrtaki Deloitte kemur í ljós að um 17 geta mögulega ekki staðið við núverandi greiðsluskuldbindingar sínar verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Hjá þessum félögum starfa um 204 og greiddu þau 2,4 milljarða kr. í laun til starfsmanna sem greiða útsvar til bæjarins upp á 193 milljarða kr. sem mundi hverfa og þýða greiðsluþrot bæjarins á stuttum tíma.
    Í sinni umsögn bendir Vesturbyggð á áðurnefnda greinargerð óháðra sérfræðinga. Sú greinargerð ætti að hvetja stjórnvöld til að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarbyggða landsins. Sérfræðingarnir búast við umhleypingum næstu árin meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum og segja að áformuð lagasetning muni verða mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.
    Í umsögn Skagafjarðar er Alþingi varðað við og einnig vísað í títtnefnda greinargerð sérfræðinga. Skagfirðingar telja að hækkun veiðigjalds muni án efa kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum, auk þess sem bent er á að ólíklegt sé að frumvarpið nái þeim markmiðum sem stefnt er að þar sem það skorti langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum.
    Undir þessar áhyggjur og harðorð mótmæli einstakra byggðarlaga vill 2. minni hluti taka. Benda má á að á umsagnalista yfir innsendar umsagnir má sjá fjölmargar umsagnir sveitarfélaga um málið, en fleiri en þær sem hér eru raktar sérstaklega segja það sama.
    Samkvæmt umsögn Atvest stendur sjávarútvegur illa á Vestfjörðum. M.a. kom fram að vegna þess að sjávarútvegurinn þar tók seinna við sér að kaupa aflaheimildir sé hann mjög skuldsettur miðað við landsmeðaltal og í því liggur helsti vandi sjávarútvegs á Vestfjörðum. Eftirfarandi upplýsingar komu fram í máli sérfræðings Atvest á fundi í nefndarinnar varðandi veiðigjaldafrumvarpið.
    Á Vestfjörðum eru þessar nettóskuldir um 39 milljarðar kr. Samkvæmt frumvarpinu eru álögð veiðigjöld 1,4 milljarðar kr. af 4 milljarða kr. EBITDA.
    Sú EBITDA sem var 2009 var ekki nægileg til þess að greinin á Vestfjörðum mundi standa við skuldbindingar sínar. Sjávarútvegurinn á svæðinu mun lenda í erfiðleikum með tilheyrandi vanda fyrir allt atvinnulífið og samfélagið.
    Ef frumvarpið verður samþykkt þurfa umtalsverðar niðurfellingar á skuldum að koma til, eða um 80–85% af núverandi nettóskuldum, sem væri þá niðurfelling upp á 31–33 milljarða kr.(eða fjöldagjaldþrot). Hver ber þann kostnað? Hver verða langtímaáhrifin af gjaldtökunni? Framtíðarhorfur ekki bjartar fyrir Vestfirði þar sem svæðið hefur verið í vörn í langan tíma.
    Að mati 2. minni hluta er óskiljanlegt hvernig meiri hluti nefndarinnar getur lagt fram frumvarpið með breytingartillögum í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem það hefði fyrir sjávarútveginn á Vestfjörðum.

Afleiðingar fyrir fyrirtæki.
    Til að gefa dæmi um afleiðingar verða hér gefin tvö dæmi um mjög ólík fyrirtæki sem sendu inn umsagnir um málið.
    Annar minni hluti bendir fyrst á umsögn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum en þar bendir félagið á að sérstaka veiðigjaldið er lagt á með flóknum útreikniaðferðum og erfitt er að átta sig á af lestri frumvarpsins hvernig það er reiknað sem vekur upp áleitnar spurningar um hvort skýrleiki réttarheimilda fyrir gjaldtökunni sé nægilegur. Sömuleiðis vakna spurningar um hvort regluverkið um útreikning gjaldsins og álagningu feli í sér óheimilt framsal skattalagningarvalds frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Hjá Vinnslustöðinni eru nú um 360 stöðugildi en íbúar Vestmanneyja eru um 4.200. Hjá félaginu starfa því um 10% af íbúum. Verði frumvarp um veiðigjöld að veruleika mun það þýða útgjaldaukningu að fjárhæð 6.338.500 evrur og umsnúning í afkomu og eigin fé.
    Annað fyrirtæki sem er annars eðlis er Blakksnes á Bolungarvík sem skilaði inn áliti og rakti að útgerðin hefði markvisst unnið að því að auka aflaheimildir sínar. Aldrei hefði hvarflað að félaginu að ráðast í það ef fyrir hefðu legið upplýsingar þess efnis að veiðigjaldið yrði snarhækkað í einni svipan eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þessi gríðarlega hækkun kemur sérstaklega illa við útgerðir eins og Blakksnes þar sem skuldir félagsins eru fyrir 90% vegna kaupa á aflaheimildum.
    Verði frumvarpið um veiðigjöld að lögum mun Blakksnes lenda í greiðsluvandræðum vegna skulda sem félagið hefur stofnað til vegna kaupa á aflaheimildum. Skuldir félagsins og tengdra félaga nema um 883 millj. kr. eða 1.564 kr. á hvert þorskígildiskíló. Aflaheimildir duga Einari Hálfdáns ÍS-11 í um 7–8 mánuði. Áætlað aflaverðmæti þeirra nemur um 259 millj. kr.. Hugsanlega er þetta aflaverðmæti ofmetið þar sem frumvarpið um stjórn fiskveiða gerir ráð fyrir skerðingu aflahlutdeilda og línuívilnunar vegna ráðstöfunar í leigupotta. Rekstargjöld án veiðigjalda, afskrifta og vaxta eru um 141 millj. kr. og framlegð (EBITDA) því 118 millj. kr. Áætlaðar afborganir og vextir langtímalána nema um 129 millj. kr. Greiðslustaða er því neikvæð um 11 millj. kr. og er þá ekki farið að reikna með veiðigjaldi. Á meðan skuldir félaganna eru skuldir við eigendurna. Að kröfu viðskiptabanka félagsins hefur félagið þurft að undirgangast kvöð um að greiða ekki skuldir nema með samþykki bankans. Hefur það orðið til þess að félagið hefur ávallt getað staðið í skilum með skuldir og greitt veiðigjald sem nemur um 5 millj. kr. á núverandi fiskveiðiári.
    Rekstraraðilum Blakksness reiknast til að verði frumvarpið að lögum muni það leiða til sexföldunar á veiðigjaldi og nemi um 30 millj. kr.
    Að mati 2. minni hluta sýna þessi dæmi glögglega alvarleg áhrif frumvarpsins á einstök fyrirtæki.

Samráð.
    Í svörum umsagnaraðila við fyrirspurnum 2. minni hluta kom fram að ekkert samráð var haft – ekki neitt við neinn. Ekki við Hagstofuna, þrátt fyrir að aðferðafræðin ætti uppruna sinn þar. Ekki við hagsmunaaðila greinarinnar, þrátt fyrir að meiri hlutinn haldi fram að byggt sé á niðurstöðu samráðs- og sáttanefndar sjávarútvegsráðherra frá hausti 2010. Ekki við sveitarfélögin, þrátt fyrir að samkvæmt frumvarpinu sé tekin 10 sinnum hærri upphæð út úr sjávarútvegssamfélögunum en áður var. Ekki við samtök á vinnumarkaði, þrátt fyrir stöðugleikasáttmála og samninga við þau við gerð kjarasamninga. Allir aðilar gagnrýna harðlega samráðsleysið og undir það tekur 2. minni hluti. Rétt er í þessu samhengi að benda á stefnu Framsóknarflokksins sem eins og áður sagði kom fram í þingsályktunartillögu. Að henni stóðu allir þingmenn Framsóknarflokks. Þar stendur: „Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiðar til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög. Við vinnu hópsins verði áhersla lögð á eftirfarandi:
     1.      Sjávarauðlindin verði tryggð sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá.
     2.      Stjórn fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta, annars vegar pott með nýtingarsamningum og hins vegar pott þar sem veiðileyfum verði úthlutað til ákveðinna aðila. Frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar til að atvinnugreinin geti dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustunnar.
     3.      Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til landsvæða þar sem auðlindarentan verður til og hluti í ríkissjóð.
     4.      Hlúð verði að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi.
     5.      Tryggt verði að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.
     6.      Áhersla verði lögð á að sjávarútvegur sé ekki einungis veiðar heldur einnig hátæknivæddur matvælaiðnaður.
     7.      Sjónum verði í vaxandi mæli beint að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.“
    Annar minni hluti vill ítreka þá skoðun Framsóknarflokksins að fara beri þessa leið – ekki síst í ljósi þeirra niðurstöðu sem meiri hlutinn leggur til að farin verði.

Aðferðafræðin.
    Allflestir ef ekki allir umsagnaraðilar, þar á meðal sérfræðingar sem atvinnuveganefnd réð til ráðgjafar, gagnrýndu harðlega þá aðferðafræði sem frumvarpið leggur til. Sérstaklega var bent á að ekkert tillit væri tekið til skuldsetningar og fjárfestingarþarfar. Einnig kom í ljós að byggt var á röngum forsendum og samspil þriggja ólíkra vísitalna sem notaðar voru við framreikning varð til þess að í stað þess markmiðs að innheimta 70% auðlindagjald bauð frumvarpið upp á 140%. Það verður að mati 2. minni hluta að átelja ráðuneyti og flutningsmenn frumvarpsins fyrir þvílík handarbakavinnubrögð og sýnir kannski best hversu illa ígrundað frumvarpið er. Í breytingartillögum meiri hlutans er brugðist að nokkru við hluta þeirrar gagnrýni sem fram kom. Einnig var gagnrýnt harðlega að notaðar væru áætlaðar framreiknaðar gamlar tölur og meðaltöl – því það kæmi ákafleg misjafnlega niður á einstaka útgerðaflokka, fyrirtæki og veiðar mismunandi fisktegunda. Betra hefði verið, að mati 2. minni hluta, að ýta þessari aðferð til hliðar og finna rentu einstakra fyrirtækja í útgerð með því að nota raunverulegar niðurstöðutölur úr ársreikningum og skattframtölum. Þá bentu sérfræðingar nefndarinnar á verulega ágalla við að reikna út rentu á fiskvinnsluna. Ein breytingartillaga meiri hlutans reynir að koma til móts við þá gagnrýni – en nær skammt. Að mati 2. minni hluta hefði verið betra að fylgja ráðleggingum sérfræðinganna og reikna út verð milli útgerðar og vinnslu og finna þannig raunverulegra mat á rentu.
    Margir umsagnaraðilar, en þó ekki allir, töldu þá leið að leggja lágt fast gjald á alla og síðan afkomutengt gjald ofan á (sérstakt veiðigjald) vera skynsamlega og undir það tekur 2. minni hluti. Hins vegar er fasta gjaldið of hátt og útfærsla við útreikning á rentu vegna sérstaka gjaldsins meingölluð og ónothæf eins og hún er kynnt í frumvarpinu. Því telur 2. minni hluti að skynsamlegast sé að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar aftur, tekið upp samráð við greinina og önnur og betri aðferð/nálgun fundin til að meta svokallaðan umframhagnað. (Sjá umsögn sérfræðinganna Daða Más Kristóferssonar og Stefáns Gunnlaugssonar.)

Fjárhæðir veiðigjalds.
    Eins og fram kemur í fjölmörgum umsögnum er 70% auðlindagjald langt út úr öllu hófi. Að mati fjölmargra, þar á meðal sérfræðinga nefndarinnar, munu fjölmörg fyrirtæki verða gjaldþrota – þau ráða ekki við að greiða svona hátt gjald. Einnig hefur verið bent á að svona há prósenta á áætlaðar meðaltalstekjur sé umfram hagnað margra fyrirtækja. Samkvæmt könnun Deloitte reyndust 53 fyrirtæki af 75 ekki verða rekstrarhæf eftir að lagður yrði á 70% sérstakur auðlindaskattur – öfgaskattur. Þá beinist gagnrýni fjölmargra að því að um landsbyggðarskatt sé að ræða og upphæðirnar a.m.k. tíu sinnum hærri en þeir fjármunir sem ætlað er að skila til baka inn í samfélögin. Í þessu samhengi er rétt að benda á að um 87% aflaheimilda eru á landsbyggðinni. Undir þessa gagnrýni tekur 2. minni hluti og átelur harðlega óhóf veiðigjaldsins og áhrif þess á fyrirtæki og samfélög á landsbyggðinni. Þá hefur verið bent á af endurskoðunarfyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum að ein bein afleiðing svo öfgafulls veiðigjalds yrði veruleg virðisrýrnun aflaheimilda, sem og lækkun á verðmati fyrirtækja. Að mati samtaka fjármálafyrirtækja gæti virðisrýrnun aflaheimilda numið 43–48% vegna ákvæða í frumvarpi um stjórn fiskveiða – frumvarpi sem spilar sannarlega inn í afleiðingar af oftöku veiðigjalds eða möguleika fyrirtækjanna á að greiða svo hátt auðlindagjald. Og virði fyrirtækjanna gæti lækkað um 38%, eða um 100–145 milljarða kr., að mati samtaka fjármálafyrirtækja vegna áhrifa veiðigjalds á framtíðarsjóðstreymi og framlegðarlækkun. Í umsögn ASÍ er bent á áhugaverða staðreynd um samspil gengis og afkomu í sjávarútvegi – þar er varað við að öllum neikvæðum fyrirhuguðum breytingum á stjórn fiskveiða þar sem þær munu rýra afkomu greinarinnar, getu fyrirtækja til að greiða laun, veiðigjöld og að fjárfesta og þannig minnka þjóðarkökuna – stefna Framsóknarflokksins er mjög keimlík þeim áherslum sem ASÍ setur og tekur 2. minni hluti því heilshugar undir tillögur ASÍ. ASÍ telur sem sagt að of bratt sé farið í álagningu veiðigjalds og hvetur til varfærni, m.a. með tilliti til þess að hin svokallaða umframrenta í sjávarútvegi muni minnka með styrkingu krónunnar eins og hjá öðrum útflutningsgreinum.
    Að mati 2. minni hluta eru hlutföll og fjárhæðir frumvarpsins með breytingartillögum meiri hlutans út úr öllu korti og langt frá því að hægt sé að tala um hóflegt auðlindagjald. Ekkert tillit hefur verið tekið til umsagna sem sýna með beinum hætti alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmörg fyrirtæki. Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur meiri hluta atvinnuveganefndar ef þessi verður niðurstaða Alþingis á gjaldþrotum fyrirtækja í sjávarútvegi sem og erfiðleikum fjármálafyrirtækja – ekki síst Landsbankans.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Í raun má segja að fyrsta breytingartillagan varðandi 4. gr. frumvarpsins, sem snýr að samningum við Hagstofu og ríkisskattstjóra sem og útvíkkun á verkefnum og valdsviði veiðigjaldanefndar, sé viðurkenning meiri hlutans á að aðferðafræðin sem lögð er til sé ónothæf. Enda á að útfæra aðferðina að nær öllu leyti á næsta ári þannig að hún taki fyrst gildi frá og með fiskveiðiárinu 2013–2014. 2. minni hluti telur að betra hefði verið að taka upp aðra aðferð sem tæki tillit til raunverulegrar stöðu einstakra fyrirtækja og tæki þannig mið af mismunandi stöðu ólíkra útgerðaflokka, mismunandi arðsemi veiða á einstökum fisktegundum o.fl. Engu að síður telur 2. minni hluti að betra sé til bráðabirgða að leggja á fasta krónutölu vegna næsta fiskveiðiárs og fela veiðigjaldanefnd að útfæra aðferðina í stað þess óskapnaðar sem ákvæði frumvarpsins hafa í för með sér.
    Varðandi 2. tölul. breytingartillaga meiri hlutans við 7. gr. frumvarpsins telur 2. minni hluti það afar neikvætt og sérkennilegt að hækka fastagjaldið úr 8,00 í 9,50 kr. Fram kom hjá ýmsum umsagnaraðilum að mörgum yrði erfitt að standa skil á því. Má þar nefna strandveiðarnar eins og þær leggja sig og skuldsett minni útgerðarfyrirtæki, til að mynda mörg í krókaaflamarkskerfinu. Spurning sem ósvarað er af meiri hlutanum er hvort það sé ekki of hátt og eðlilegra væri að það væri eitthvað lægra þannig að allir gætu staðið undir því – samkvæmt umsögnum fjölmargra, m.a Atvest og fleiri, hefði 8 kr. fastagjaldið orðið mörgum nægilega erfitt og jafnvel of erfitt.
    3. tölul. breytingartillagnanna, sem er við 8. gr. frumvarpsins, snýr að því að svokallað „frítekjumark“ – eða 100% afsláttur af sérstaka gjaldinu á fyrstu 30 tonn og 50% á næstu 30–100 tonn – á ekki lengur við hvert skip heldur hverja útgerð/gjaldskyldan aðila. Þetta þýðir að sú ívilnun sem var í frumvarpinu lækkar um 300 millj. kr. og er að mati ráðuneytisins um það bil 1,9 milljarðar kr. Að mati 2. minni hluta hefði óbreytt tillaga frumvarpsins mátt halda sér.
    Um 4. tölul. breytingartillagnanna við 9. gr. má segja að þar sé af mjög veikum mætti reynt að laga það sem er eitt af því vonlausasta í aðferðafræði frumvarpsins. Margir umsagnaraðilar, sem og sérfræðingar nefndarinnar, bentu á að rangt væri að leggja rentu á vinnsluþáttinn. Undir það tekur 2. minni hluti og bendir á þá aðferðafræði sem Daði Már Kristófersson fjallar um í sinni greinargerð. Hann telur að betra sé að áætla tekjur útgerðar af vinnslu og leysa þannig vandamál tengd tekjuskráningu samþættra útgerðar- og vinnslufyrirtækja. Daði Már bendir á að velta þurfi fyrir sér hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir að engin umframhagnaður (þ.e. renta) verði til í fiskvinnslu. Ljóst sé að umframhagnaður geti orðið til af fleiri ástæðum en vegna sjávarauðlindarinnar. Vinnslufyrirtæki geta byggt upp orðspor á markaði eða búið yfir eftirsóknarverðri afkastagetu til skemmri tíma sem skapar umframhagnað, svo að fátt eitt sé nefnt. Það getur því reynst erfitt að skilja á milli eðlilegs hagnaðar og umframhagnaðar ef ekki er vitað hver eðlileg ávöxtun er og betra væri að finna aðrar skynsamlegri leiðir. Undir það tekur 2. minni hluti.
    5. tölul. breytingartillagna meiri hlutans við 10.gr. frumvarpsins snýr að mestu að því að leiðrétta eina vitleysu eða skekkju frumvarpsins en þar var notast við þrjár mismunandi vísitölur til að reikna upp hinn svokallaða umframhagnað samkvæmt árgreiðsluaðferðinni. Í ljós kom að við að blanda þessum þremur vísitölum saman ýktist og skekktist vitlaus niðurstaða í að verða galin. 2. minni hluti tekur undir að breytingin er til bóta. Einu atriði var þó laumað inn í b-liðinn, þ.e. að veiðigjöld teljist ekki til rekstrarkostnaðar „í þessu samhengi“. Óljóst er enn, þrátt fyrir yfirlýsingar meiri hlutans og ráðuneytis, hvað þetta þýðir í raun. Að mati 2. minni hluta á að vera augljóst að fastagjaldið dragist frá áður en sérstaka veiðigjaldið verður lagt á. Þá eru gerðar tilraunir til að laga áætlaða fjárfestingarþörf og afskriftir með að breyta útreikningi á stofnverði og samræma árgreiðsluprósentuna. Að lokum er gerð ein sjálfsögð leiðrétting þess efnis að neikvæð renta nýtist til lækkunar næstu fimm árin. Allt eru þetta breytingar til batnaðar – skref í rétta átt að mati 2. minni hluta en nær væri að nota aðra og skynsamlegri aðferðafræði.
    6. tölul. breytingartillagnanna snýr að tvennu. Í fyrsta lagi fjárhæðum í krónum vegna sérstaka veiðigjaldsins eða 29,13 á hvert þorskígildi í botnfiskveiðum og 33,08 á þorskígildi í uppsjávarveiðum á næsta fiskveiðiári, 2012–2013. Meiri hlutinn upplýsir að það svari til 50% skattlagningarstofns vegna álagningar veiðigjalds. Síðan er lagt til að á hverju ári hækki hlutfallið um 5 prósentustig þannig að 2016–2017 verði hlutfallið 70%. Um þetta er aðeins eitt að segja, þetta eru öfgar. 2. minni hluti telur, eins og fram hefur komið, að þessi skattlagning sé fráleit – alltof há og geti engan vegin talist hófleg. Hvorki er upphafsfjárhæð né hraði í hækkunum og 70% eru út úr öllu korti.
    Síðasta breytingin sem meiri hlutinn leggur til er nýtt bráðabirgðaákvæði. Þar er reynt að koma til móts við eina helstu gagnrýnina á aðferð frumvarpsins við að finna út rentu – en það er sú staðreynd að ekki er neitt tillit tekið til skuldsetningar í greininni. Sú staðreynd kemur nýliðum, minni fyrirtækjum og mikið skuldsettum mjög illa. Sú tilraun sem hér er gerð er flókin – byggist á heimild til ráðherra og hefur fimm ára gildistíma. Ekki er hægt að gera sér ljóst hvernig þetta ákvæði virkar, sérstaklega ekki í ljósi þess að boðað hefur verið frumvarp til breytinga á skattalögum sem mun heimila afskriftir aflaheimildakaupa. – Á það hefur einnig verið bent að það sé ákveðinn siðvandi að ívilna skuldsettri yfirtöku eða skuldsettum kaupum. 2. minni hluti tekur undir þetta en er jafnframt sammála því að taka beri tillit til skuldsetningar fyrirtækja vegna aflaheimildakaupa. Það er einmitt einn helst ágalli þessarar aðferðar sem boðuð er í frumvarpinu að taka ekkert tillit til skuldsetningarinnar. Það má hins vegar íhuga hvort ekki væri eðlilegra að taka tillit til allra kvótakaupa hvort sem þau væru skuldsett eða greidd með eigin fé. Það hefði 2. minni hluti talið eðlilegra.

Niðurstaða.
    Að öllu samanteknu er það 2. minni hluta óskiljanlegt af hverju meiri hlutinn hefur ekki farið aðra leið í breytingartillögum sínum eftir að hafa fengið umsagnir fjölmargra, sem og ábendingar sérfræðinga nefndarinnar. Leið sem hefði tekið tillit til mismunandi útgerðarflokka, mismunandi arðsemi veiða úr ólíkum fiskistofnum og mismunandi stöðu fyrirtækja – ekki síst skuldsetningu þeirra. Að mati 2. minni hluta væri það eina skynsamlega leiðin.
    Þá verður að nefna hér að upphæð og hlutföll eru verulega óhófleg, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið. Veruleg hætta er á að fjölmörg fyrirtæki geti ekki staðið undir slíkum álögum á sama tíma og verið er að greiða niður stökkbreyttar skuldir með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum, gjaldþrotum, atvinnuleysi, samfélagsáhrifum o.s.frv. Þá er rétt að ítreka að Landsbanki – banki allra landsmanna að 87% í eigu þjóðarinnar – telur að afskrifa þurfi 31 milljarð kr. ef frumvarpið nær fram að ganga. Sú staðreynd að 87% aflaheimilda eru á landsbyggðinni gerir þetta frumvarp og afleiðingar þess sérstaklega landsbyggðarfjandsamlegt.
    Niðurstaða 2. minni hluta er sú að vísa beri málinu aftur til ríkisstjórnarinnar og fara þá leið sem þingflokkur framsóknarmanna lagði til, þ.e. að setja málið í samráðsferli og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi samráðshóp til að leita leiða til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Þannig væri hægt að finna rétta og skynsamlega leið til að geta sett hóflegt veiðigjald á auðlind sem þjóðin á.

Alþingi, 1. júní 2012.



Sigurður Ingi Jóhannsson.