Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1478  —  80. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um aðgengi að hverasvæðinu við Geysi.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsögn frá Hjörleifi Kvaran hrl. fyrir hönd jarðeigenda í Haukadal. Með tillögunni er lagt til að innanríkisráðherra og umhverfisráðherra verði falið að sjá nú þegar til þess að aðgengi ferðamanna að hverasvæði Geysis verði bætt og gerð verði göng fyrir fótgangandi undir þjóðveginn frá bílastæðum.
    Með hverju árinu fjölgar þeim erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands og virðast fyrri spár um 600 þúsund erlenda ferðamenn á þessu ári hafa verið vanmat þar sem fjölgun ferðamanna fyrstu fjóra mánuði ársins hefur verið yfir 20% frá síðasta ári. Flestir ferðamenn koma til Íslands til að upplifa náttúru, landslag og þekktustu náttúruperlur landsins. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni er Geysissvæðið eitt þekktasta hverasvæði í heimi. Áhugi erlendra ferðamanna á að koma þangað er því gríðarlegur. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2006 um „áhrif raungengis á ferðaþjónustu“ kemur fram að þrír af hverjum fjórum erlendum ferðamönnum sem koma til landsins yfir sumartímann fara að Geysi sem var þá með vinsælustu áfangastöðum útlendinga. Þetta hefur ekki breyst með árunum og vegna vaxandi vinsælda svæðisins sem áfangastaðar er ljóst að nokkur hundruð þúsund ferðamenn, bæði erlendir og íslenskir, koma þangað á hverju ári. Mikilvægt er því að tryggja gott og öruggt aðgengi fyrir alla.
    Nefndin kynnti sér stöðu mála á svæðinu. Umhverfisstofnun fer ekki með umsjón með Geysissvæðinu, sem þó er að hluta í ríkiseigu, en stofnuninni var á sínum tíma falið að taka við störfum Geysisnefndar þegar nefndin var leyst upp. Hlutverk Geysisnefndar var að hafa umsjón með verklegum framkvæmdum á Geysissvæðinu. Árið 2010 vann stofnunin í samráði við Ferðamálastofu, Bláskógabyggð og landeigendur að því að endurnýja öll öryggisbönd og staura á svæðinu. Auk þess voru sett upp viðvörunarmerki til að vara fólk við því að ganga utan merktra leiða. Ljóst var þó að öryggi ferðamanna var enn mjög ábótavant og ágangur ferðamanna mikill. Umhverfisráðherra fól á þessum tíma Umhverfisstofnun að kortleggja ástand friðlýstra svæða. Geysir lenti þar á válista og var talið nauðsynlegt að grípa tafarlaust til aðgerða til að bæta aðgengi og um leið verja svæðið fyrir ágangi ferðamanna. Árið 2011 var því fé varið til ýmissa framkvæmda sem m.a. fólu í sér lagfæringar á hluta gönguleiða, girðinga og hellulagna auk þess sem hugað var að sorphirðu á svæðinu. Nefndinni er ekki kunnugt um aðrar framkvæmdir en þær sem Umhverfisstofnun hefur staðið að þrátt fyrir að hafa ekki formlegt umsjónarhlutverk á svæðinu. Með þeim síaukna fjölda sem heimsækir svæðið er þó vandséð að nóg sé í lagt.
    Nauðsynlegt er að viðhalda og endurnýja stíga á hverasvæðinu til að forða viðkvæmu svæði frá átroðningi og skemmdum og um leið að tryggja öryggi gesta. Því telur nefndin mikilvægt að bæta aðgengi. Einnig þarf að huga að hálkuvörnum yfir vetrartímann en ljóst er að stundum hefur verið nær ógerlegt að ganga á svæðinu vegna hálku og legið hefur við slysum.
    Mikil umferð gangandi fólks fer yfir þjóðveg frá bílastæði að hverasvæðinu sjálfu. Nefndin telur rétt að bætt verði úr öryggismálum og að skoða beri allar mögulegar leiðir til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Leggur nefndin því til breytingu á tillögunni þess efnis að um úrbætur verði að ræða til að tryggja að örugg og hagkvæm leið verði valin. Nefndin áréttar að bætt aðgengi yrði ekki eingöngu til að tryggja betur öryggi ferðamanna og draga úr slysahættu heldur gæti það jafnframt orðið til þess að verja svæðið gegn ágangi enda verði skýrt hvar gönguleiðir eru og hvar bannað eða varhugavert er að ganga. Nefndin vill jafnframt árétta að bætt aðgengi ferðamanna að hverasvæði Geysis er einungis brot af þeim vanda sem við blasir hvað varðar aðgang og aðgengi að ferðamannastöðum hér á landi. Nefndin stefnir að því að taka heildstætt á þeim vanda á komandi haustþingi.
    Landeigendur hafa lýst yfir vilja til að stuðla að frekari uppbyggingu á svæðinu enda hafa þeir ríka hagsmuni af komu ferðamanna. Hvetur nefndin því til að Umhverfisstofnun hlutist til um að komið verði á samráðs- og framkvæmdanefnd með hlutaðeigandi aðilum vegna umsjónar og endurbóta á Geysissvæðinu og að ráðherra tryggi að ábyrgðaraðila sé falið að hafa formlegt umsjónarhlutverk með svæðinu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og umhverfisráðherra að bæta aðgengi ferðamanna að hverasvæði Geysis og ráðast í úrbætur til að tryggja öryggi vegfarenda. Umhverfisráðherra feli Umhverfisstofnun að koma á samráðs- og framkvæmdanefnd með hlutaðeigandi aðilum vegna umsjónar og endurbóta á Geysissvæðinu. Ráðherrarnir tryggi jafnframt að skipaður verði ábyrgðaraðili sem hafi formlegt umsjónarhlutverk á svæðinu.

    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. maí 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form.


Þuríður Backman,


frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.



Birgir Ármannsson.


Atli Gíslason.


Mörður Árnason.



Róbert Marshall.


Vigdís Hauksdóttir.