Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 779. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1495  —  779. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008,
með síðari breytingum (vörslusviptingar innheimtuaðila).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Benedikt Bogason og Ásu Ólafsdóttur frá réttarfarsnefnd og Sigurbjörgu Leifsdóttur og Jóhann Sigurðsson frá Lýsingu. Þá hefur nefndinni borist umsögn Lýsingar og álit frá allsherjar- og menntamálanefnd.
    Frumvarpið byggist á meginreglu íslensks réttar um að einstaklingar og lögaðilar megi ekki beita valdi sjálfir til að ná fram rétti sínum heldur sé það hið opinbera sem hafi einkarétt á að þvinga fram efndir skuldbindinga. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að innheimtuaðili skuli afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslum hans enda sé hann í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Ef samþykki samkvæmt þessu liggur ekki fyrir skal innheimtuaðili leita aðfarar samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989.
    Ýmis fordæmi eru fyrir því að fjármálafyrirtæki hafi áskilið sér rétt til að vörslusvipta viðskiptavini sína eignum sem hinir síðarnefndu hafa haft til umráða og liggja til grundvallar í samningssambandi aðila. Hafa vörslusviptingarnar verið framkvæmdar af hálfu fjármálafyrirtækjanna sjálfra í tilefni af vanefndum viðskiptavinanna án undanfarandi dómsúrlausnar og á þeim grundvelli að þetta eigi sér ótvíræða stoð í samningi aðilanna. Einstök fjármálafyrirtæki hafa talið með hliðsjón af eignarréttarákvæði stjórnarskrár að slíkt réttarfarshagræði sé umsemjanlegt þar sem tafsamt og kostnaðarsamt geti verið fyrir þau að fullnusta slíka samninga eftir hefðbundnum leiðum.
    Þeir samningar sem fyrst og fremst hafa verið ræddir í framangreindu samhengi eru svokallaðir eignarleigusamningar sem ýmist geta verið í formi rekstrarleigu eða kaupleigu. Það sem skilur síðarnefndu samningana frá hinum fyrri er að viðskiptavinurinn öðlast í lok leigutíma rétt til að eignast leiguandlagið að greindum skilyrðum.
    Í kjölfar hæstaréttardóma frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar hefur mikið verið deilt um lögmæti umræddra samninga sem í mörgum tilvikum voru gengistryggðir. Ágreiningurinn hefur einkum lotið að því hvort samningarnir teljist vera lán í skilningi laga um vexti og verðtryggingu, hvort lánin hafi verið veitt löglega í erlendri mynt eða innihaldi ólögmæta gengistryggingu og ef þau væru ólögmæt hvernig fara eigi að við endurútreikning þeirra. Úrlausn þessara álitaefna hefur að verulegu leyti verið á herðum dómstóla en með lögum nr. 151/2010, m.a. um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, var lánveitendum samt sem áður gert skylt að framkvæma endurútreikning bílalána og íbúðalána einstaklinga innan tilskilins frests til samræmis við fordæmi Hæstaréttar með dómi sem féll 16. september 2010. Breytingalögin hafa frá upphafi sætt gagnrýni og 15. febrúar sl. gekk dómur Hæstaréttar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að lögunum yrði ekki beitt við endurútreikning vaxta vegna liðins lánstíma.
    Með ákvörðun frá 9. mars sl., nr. 4/2012, féllst Samkeppniseftirlitið á að veita Samtökum fjármálafyrirtækja og Dróma hf. undanþágu frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, um bann við ólögmætu samráði. Var fjármálafyrirtækjunum veitt heimild til að eiga með sér samvinnu um að meta fordæmisgildi febrúardómsins með tilliti til lögmætis og uppgjörs gengistryggðra fjárskuldbindinga og velja álitaefni til þess að bera undir dómstóla. Samkeppniseftirlitið taldi brýna nauðsyn bera til þess að leysa þá réttaróvissu sem skapast hefði í kjölfar dómsins en kaus að binda samráðið ströngum skilyrðum, m.a. því að hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki frestuðu öllum fullnustugerðum sem byggðust á lánum sem ljóst væri að féllu undir dóminn. Hefur efnahags- og viðskiptanefnd átt upplýsingafundi með aðilum samráðsins sem fram fer undir eftirliti umboðsmanns skuldara.
    Að fenginni reynslu af setningu laga nr. 151/2010 og með hliðsjón af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var það ítarlega rætt innan efnahags- og viðskiptanefndar hvort tilefni væri fyrir löggjafann til að bregðast við febrúardómi Hæstaréttar og um síðir ákvað nefndin að leggja fram frumvarp þar sem lagðar voru til breytingar á ýmsum ákvæðum réttarfarslaga, sbr. mál nr. 716. Það frumvarp er nú til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd en tillögur þess gera m.a. ráð fyrir að skuldara verði veittar auknar heimildir til að sækja rétt sinn gagnvart kröfuhöfum vegna hættu á að hinir fyrrnefndu hafi sætt ólögmætum fullnustugerðum af hendi hinna síðarnefndu.
    Í ljósi ábendinga réttarfarsnefndar um flokkun fullnustugerða beindist athygli efnahags- og viðskiptanefndar einkum að tveimur álitaefnum, annars vegar því hvort unnt væri að lengja hefðbundinn frest til að bera gildi nauðungarsölu undir héraðsdómara og hins vegar hvort hægt væri að rýmka heimildir þrotamanns til endurupptöku dómstóla á úrskurði til gjaldþrotaskipta. Réttarfarsnefnd réð frá því að þessar leiðir yrðu farnar vegna óvissu sem slíkar breytingar gætu haft fyrir kröfuhafa og með vísan til þess almenna markmiðs laga um nauðungarsölu og laga um gjaldþrotaskipti að koma eignum gerðarþola/þrotamanns í verð og ráðstafa andvirðinu til kröfuhafa. Kaupendur eigna á uppboði eða við þrotameðferð yrðu einnig að geta treyst því að þeim yrði ekki brigðað frá þeim eftir að sala hefði farið fram. Teldi gerðarþoli sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að skilyrði skorti til nauðungarsölu taldi réttarfarsnefnd raunhæfara að lengja málshöfðunarfresti 98. gr. laga um aðför og 88. gr. laga um nauðungarsölu úr þremur mánuðum í sex almennt en tímabundið til loka næsta árs í 12 mánuði. Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga um gjaldþrotaskipti skal lánardrottinn ef hann hefur krafist gjaldþrotaskipta sem skilyrði reynast ekki vera fyrir bæta skuldaranum fjártjón hans og miska ef lánardrottninum mátti vera ljóst að skilyrðin skorti eða hann ætti ekki þá kröfu á hendur skuldaranum sem hann byggði á.
    Í 9. gr. frumvarpsins, sbr. 716. mál, er lagt til að fjármálafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum í slitameðferð verði að viðlögðum dagsektum ekki heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu með vörslusviptingu sé krafan umdeild í ljósi framangreindra hæstaréttardóma nema áður hafi þessi fyrirtæki aflað úrlausnar dómstóls. Tilgangur ákvæðisins er sá að tryggja að fjármálafyrirtæki gæti lögformlegra leiða við fullnustu krafna sinna, sbr. 78. gr. laga um aðför og tilmæli innanríkisráðuneytisins frá 28. júní 2011. Kom fram að lögreglan hefði ekki talið sig hafa heimild til að bregðast við kvörtunum og kærum vegna vörslusviptinga.
    Með hliðsjón af áliti allsherjar- og menntamálanefndar er lagt til að brot gegn ákvæðum frumvarps þessa varði stjórnvaldssektum.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    
    Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við 1. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: 6. gr. a um vörslusviptingu.

    Þráinn Bertelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. júní 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Birkir Jón Jónsson.



Lilja Mósesdóttir.


Magnús M. Norðdahl.