Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 715. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1548  —  715. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008,
með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Bóasdóttur og Þóreyju Aðalsteinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Barnaheillum, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Siðmennt, Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð og umboðsmanni barna.
    Í 33. gr. gildandi laga um framhaldsskóla er kveðið á um skólareglur og meðferð mála. Með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess ákvæðis komi nokkur ákvæði um rétt nemenda og ábyrgð þeirra og um skólabrag.
    Kveðið er á um að skólinn sé vinnustaður nemenda og að störfum skuli haga þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Mælt er fyrir um rétt nemenda til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá er einnig kveðið á um ábyrgð nemenda á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Hvað meðferð mála innan skólans varðar er gerður greinarmunur á því hvort nemandi er 18 ára eða eldri en eins og samkvæmt gildandi lögum gilda ákvæði stjórnsýslulaga sé t.d. um það að ræða að vísa þurfi nemanda úr skóla.
    Einnig er lagt til að við lögin bætist ákvæði um skólabrag en samkvæmt frumvarpinu ber öllum að leggja sitt af mörkum til að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Framhaldsskólar skulu setja sér skólareglur sem og stefnu um hvernig eigi að fyrirbyggja að ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Þá skal vera til staðar áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. Þá er ráðherra veitt heimild til að mæla í reglugerð nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda gildi áfram tímabundið, þ.e. út skólaárið 2013 - 2014.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 31. maí 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Magnús Orri Schram.


Þuríður Backman.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Eygló Harðardóttir.


Birgitta Jónsdóttir.