Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 765. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1552  —  765. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristrúnu Ísaksdóttur og Ólaf Grétar Kristjánsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðrúnu Eyjólfsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Lísbetu Einarsdóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu og Jón B. Stefánsson frá Tækniskóla Íslands. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Barnaheillum, Iðunni, Kennarasambandi Íslands og Félagi framhaldsskólakennara, Meistarafélagi húsasmíðameistara, Samtökum atvinnulífsins o.fl., Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót vinnustaðanámssjóði sem hafi það hlutverk að bæta stöðu starfsmenntunar og stuðla að eflingu vinnustaðanáms. Þessu markmiði er ætlað að ná fram með því að auðvelda nemendum að ljúka starfsnámi, koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanámi og auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka nemendur á náms- eða starfsþjálfunarsamninga. Með tilkomu sjóðsins er jafnframt gert ráð fyrir að gerðar verði meiri og skýrari kröfur um gæði náms, skipulag þess og framkvæmd.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að treysta möguleika nemenda á að ljúka starfsnámi sínu á eðlilegum tíma. Með því að styrkja stoðir starfsnáms má ætla að brottfall framhaldsskólanema úr námi minnki enda aukast möguleikar nemenda á því að ljúka námi sínu á tilskildum tíma. Með frumvarpinu er skapaður fjárhagslegur hvati til að mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana af nemahaldi. Verði frumvarpið að lögum má því ætla að framboð starfsnámstækifæra fari vaxandi og nemendur hafi úr að velja fjölbreyttari kostum í starfsnámi.
    Nefndin ræddi skipan stjórnar vinnustaðanámssjóðs en skv. 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir níu manna stjórn þar sem átta eru skipaðir samkvæmt tilnefningu ýmissa aðila en formaður án tilnefningar. Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á skipan stjórnarinnar þar sem aðilar töldu ýmist að fjölga ætti í henni, rétta af hlutföll aðila eða fækka fulltrúum. Þannig barst ábending um að heildarsamtök launafólks og vinnumarkaðar ættu að hafa meira vægi í stjórninni þar sem vinnustaðanám í starfsgreinum innan samtakanna vegi þyngst í starfsmenntakerfinu nú ef tekið er mið af umfangi náms og nemendafjölda. Áhersla var jafnframt lögð á það við nefndina að aðkoma nemenda að stjórninni væri tryggð og bendir nefndin því á að gert er ráð fyrir því að Samband íslenskra framhaldsskólanema tilnefni fulltrúa. Samkvæmt ákvæðinu sitja í stjórninni fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, framhaldsskóla, kennara, framhaldsskólanema og fjármálaráðuneytis. Í athugasemdum við greinina kemur fram að „út frá jafnræðissjónarmiði er gert er ráð fyrir að í stjórn sitji fulltrúar allra helstu aðila er hafa faglegra og/eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta.“ Nefndin telur brýnt að þessara sjónarmiða sé gætt og leggur því ekki til breytingu á ákvæðinu.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að grundvöllur styrkveitinga úr vinnustaðanámssjóði sé að fyrir liggi samningur. Ekki er kveðið nánar á um það hvað eigi að vera í slíkum samningi heldur gert ráð fyrir að um það gildi reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að tryggja þyrfti að framhaldsskóli viðkomandi nemanda væri aðili að samningi um vinnustaðanám. Í gildandi reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað, nr. 840/2011, er gerður greinarmunur á námssamningi og starfsþjálfunarsamningi. Starfsþjálfunarsamningur er samningur milli skóla og fyrirtækis eða stofnunar um að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun en námssamningur er samningur milli nemanda og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Skólar eru því ekki aðilar að slíkum samningum nú samkvæmt framangreindri skilgreiningu á námssamningi. Í 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að framhaldsskólar hafi eftirlit með að nemendur þeirra leggi stund á vinnustaðanám sem áskilið er í námskrá og að gerðir séu viðeigandi náms- og/eða starfsþjálfunarsamningar. Ekkert er því til fyrirstöðu að skólinn fari með þetta eftirlit þó að hann sé samningsaðili enda er þá samningsaðili að ganga úr skugga um að aðrir samningsaðilar fari eftir samningi. Nefndin telur mikilvægt að skólar séu aðilar að námssamningi til að tryggja samfellu og gæði. Með því er réttur nemanda til að ljúka námi við viðkomandi skóla jafnframt tryggður. Að auki ýtir þríhliða samningur undir góð tengsl milli nemanda, skóla og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám. Gert er ráð fyrir að greitt sé úr sjóðnum beint til þess vinnustaðar sem samningurinn nær til og telur nefndin mikilvægt að skýrt sé að greiðslan fylgi nemandanum. Fyrirtæki móttaka þannig greiðslu á grundvelli samnings og þurfa því að uppfylla samningsskyldur sínar gagnvart nemandanum og tryggja að vinnustaðanámið sé í samræmi við samning, námskrá og námsferilsáætlun. Nefndin telur að auki mikilvægt að teknar verði upp svokallaðar ferilbækur í vinnustaðanámi. Skólinn búi þannig til ferilbók nemanda sem fylgir honum í náminu, í skóla og á vinnustað. Til að gæta samræmis telur nefndin eðlilegt að slíkar bækur byggist á stöðluðum ferilbókum sem mennta- og menningarmálaráðuneyti gerir fyrir einstakar greinar. Ferilbók nemanda verður unnt að nýta til að tryggja yfirferð allra námsþátta og þá kvittað í hana fyrir ákveðnum þáttum sem nemandi hefur lokið og öðlast nægilega færni í. Þetta tryggir að nemandinn fái nauðsynlega þjálfun og menntun á vinnustað og getur einnig orðið til að stytta vinnustaðanám að því gefnu að nemandi fái kvittað fyrir nauðsynlega þætti í ferilbók. Stytting vinnustaðanáms getur jafnframt skilað sér í lægri útgjöldum sjóðsins hverju sinni enda fylgir fjármagn nemandanum og greitt fyrir nemahald í samræmi við þann tíma sem námið stendur yfir.
    Í framangreindri reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað er heimild fyrir ráðherra til að fela skóla að annast umsýslu um gerð, staðfestingu og ógildingu námssamninga. Nefndin bendir á að verði breytingartillaga hennar samþykkt þarf að gera breytingu á þessu ákvæði reglugerðarinnar þar sem óeðlilegt er að einn samningsaðila sjái um staðfestingu og ógildingu námssamnings. Nefndin hvetur til þess að reglugerðarbreytingunni verði hraðað eins og kostur er og tækifærið verði nýtt til að sníða af annmarka við gildandi fyrirkomulag og gera kerfið skilvirkara.
    Auk þess að leggja til að framhaldsskólar verði aðilar að samningi um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 4. gr. frumvarpsins. Í greininni er vísað til þess að um samninga fari samkvæmt ákvæðum gildandi reglugerðar og er með því líkast til verið að árétta að til er gild reglugerð um þetta efni. Nefndin telur orðið „gildandi“ óþarft enda ljóst að um samningana mun ávallt gilda ákvæði þeirrar reglugerðar sem í gildi er hverju sinni.

    Kveðið er á um það í 5. gr. frumvarpsins að framlög í sjóðinn séu ákveðin af Alþingi í fjárlögum hvers árs. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hefur ríkisstjórnin þó ákveðið að greiddar verði 150 millj. kr. á ári úr ríkissjóði í vinnustaðanámssjóð árin 2012–2014. Nefndin bendir á að sú fjárhæð nægir eingöngu fyrir um 500 nemendur á ári miðað við að greiddar séu 20.000 kr. á viku í 15 vikur að meðaltali á nemanda. Hugsanlega þurfi því að endurmeta fjárþörf sjóðsins og beinir nefndin þeim tilmælum til fjárlaganefndar að tryggja sjóðnum nægjanlegt fjármagn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Eftirfarandi breytingar verði á 1. mgr. 4. gr.:
     a.      Í stað orðsins „samningur“ í fyrri málslið komi: samningur milli nemanda, framhaldsskóla og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað.
     b.      Orðið „gildandi“ í fyrri málslið falli brott.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. júní 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Þuríður Backman.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.