Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1579  —  220. mál.
Leiðrétting.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Bláskógabyggð, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Fjallabyggð, Fljótsdalshéraði, framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hjúkrunar- og ljósmæðraráði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, stjórn læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Blönduós, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilsugæslustöðinni á Akureyri, Hjartaheillum, Hrunamannahreppi, Hveragerðisbæ, Landlæknisembættinu, Landssambandi eldri borgara, Læknafélagi Íslands, Mosfellsbæ, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands, Skorradalshreppi, sveitarfélaginu Árborg, sveitarfélaginu Hornafirði, sveitarfélaginu Skagafirði, velferðarráðuneytinu og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að Alþingi feli velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fram markvissa, heildstæða tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga og að áætlunin liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2012. Í greinargerð kemur fram að tilgangur yfirfærslunnar sé að efla, samhæfa og samræma nærþjónustu við íbúa landsins í heimabyggð sinni. Sveitarfélögin hafa nú þegar á sinni hendi stóra málaflokka eins og leik- og grunnskóla, félagsþjónustu og málefni fatlaðra sem voru færð yfir til sveitarfélaganna um áramótin. Þá er einnig fyrirhugað að færa málefni aldraðra yfir til sveitarfélaganna innan tíðar.
    Akureyrarbær og sveitarfélagið Hornafjörður hafa annast rekstur heilsugæslunnar á sínum svæðum sem tilraunasveitarfélög frá 1997. Reynslan af verkefninu á báðum stöðum er mjög góð og fram hefur komið að verkefnið hafi orðið til þess að styrkja nærþjónustu við íbúa í sinni heimabyggð. Undir upptökusvæði Heilsugæslunnar á Akureyri heyra fleiri sveitarfélög en Akureyri en það hefur ekki valdið vandræðum við framkvæmd þjónustunnar. Á Hornafirði hefur verkefnið orðið til þess að stytta boðleiðir og þá hafa íbúar og kjörnir fulltrúar þeirra haft beina aðkomu að stjórnun stofnana sem færir valdið yfir þjónustunni nær íbúunum og þar með nær notendum. Sveitarfélagið telur að vinna megi að frekari samþættingu heilbrigðis- og öldrunarþjónustu við önnur svið velferðarmála og félagsmála sem eru á könnu sveitarfélagsins og það geti orðið til þess að efla heimahjúkrun.
    Á vegum velferðarráðuneytisins er nú starfandi verkefnastjórn sem vinnur að undirbúningi á yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaganna. Fram hefur komið skýr vilji margra sveitarfélaga um að yfirfærsla heilsugæslunnar verði í samhengi við þá vinnu, enda ljóst að mikil samþætting yrði fólgin í því að fela undir eina stjórn heimilisaðstoð, sem nú er á forræði sveitarfélaganna, og heimahjúkrunar sem stýrt er af heilsugæslunni á hverjum stað.
    Fyrir nefndinni hefur einnig komið fram það sjónarmið, sem einnig er vikið að í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að reynsluna af yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga megi nýta við yfirfærslu heilsugæslunnar. Einnig megi horfa til þess að við yfirfærslu á málefnum fatlaðra voru mynduð skilgreind þjónustusvæði og gerðir voru þjónustusamningar milli einstakra sveitarfélaga þannig að eitt sveitarfélag gat séð um þjónustuna á stærra svæði með samningum. Slíkt fyrirkomulag getur hentað vel fyrir minni sveitarfélög sem þannig geta myndað eitt skilgreint þjónustusvæði og einnig geta stærri sveitarfélög séð um þjónustuna á svæði sem náð getur yfir nálæg sveitarfélög. Mikilvægt er því að við vinnslu áætlunar um yfirfærslu heilsugæslunnar verði horft til þess að auka gæði þjónustunnar við íbúa og ná hagkvæmustu rekstrarformi á hverjum stað.
    Nefndin tekur að öllu leyti undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með tillögunni en telur að gert sé ráð fyrir of skömmum tíma og leggur því til að hún verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í stað orðanna „í árslok 2012“ í síðari málslið tillögugreinarinnar komi: 1. júlí 2013.

Alþingi, 18. júní 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Lúðvík Geirsson.


Ólína Þorvarðardóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Birkir Jón Jónsson.


Guðmundur Steingrímsson.