Sókn í atvinnumálum

Fimmtudaginn 20. september 2012, kl. 18:13:38 (0)


141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

sókn í atvinnumálum.

14. mál
[18:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þeirri þingsályktunartillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins setur fram og hv. þm. Birkir Jón Jónsson mælti fyrir. Ef maður lítur yfir hana kennir margra grasa og greinilegt er að höfundarnir hafa lagt mikla vinnu í þetta og reynt að hugsa málin þannig að atvinnulífið hafi sem best af. Það eru þó atriði sem mér finnst vanta inn í tillöguna. Það fyrsta rekst ég á í I. kaflanum um efnahags- og skattamál, ég verð fyrir nokkrum vonbrigðum með það að Framsóknarflokkurinn skuli ekki leggja áherslu á að lækka skatta og einfalda skattkerfið. En það er kannski allt í lagi. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að annar flokkur tíundi stefnumál Sjálfstæðisflokksins í sínum efnahagstillögum en mikið hefði verið gaman að sjá þær tillögur hér inni.

Ef við förum í vinnumarkaðsaðgerðir, stoðkerfi atvinnulífsins, nýsköpun, hugverkaiðnað, kvikmyndagerð og tónlist þá miðar þetta allt saman að því getum við sagt að búa starfsmanninn, hinn týpíska íslenska starfsmann undir 21. öldina. Það er vel og rímar mjög vel við áherslur okkar sjálfstæðismanna í menntamálum, vísindum, rannsókna- og þróunarstarfsemi og öðru slíku, og það er ég ánægður með. Jafnframt held ég að margar þær hugmyndir sem koma fram í orkumálum og orkuskiptum í IX. kafla séu til bóta. Ég efast ekki um að Framsóknarflokkurinn muni taka höndum saman við okkur sjálfstæðismenn í sambandi við varmadælur og styðji að virðisaukaskattur verði felldur niður af varmadælum.

Varmadæla er komin í notkun við hús á Norðfirði og það er alveg sérstaklega skemmtilegt að sjá hvernig það virkar. Það er tvímælalaust framtíðartækni, hún er græn (Gripið fram í: Eins og Framsóknarflokkurinn.) og nýtir orku ákaflega vel með efnaskiptum. Það er gaman að sjá þetta orð, varmadæla, í þessari tillögu og ég styð það heils hugar og vænti þess að Framsóknarflokkurinn muni styðja tillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að fella niður virðisaukaskatt á varmadælum. Það er í rauninni ótrúlegt að það mál skuli ekki vera komið í gegn hjá hinni norrænu velferðarstjórn.

Í seinasta kaflanum er aðeins talað um sjálfbært fjármálakerfi. Þar er talað um í fyrsta lagi að mótuð verði stefna um að fjármálakerfið verði byggt upp þannig að það byggist á fjölbreytni, neytendavernd og sjálfbærni. Í öðru lagi að sparisjóðirnir verði endurskipulagðir og sett verði ný lög um lánasamvinnufélög. Ég sakna eins hér sem er baráttumál okkar sjálfstæðismanna en ég er nú að tala um efnahagstillögur annars flokks — en af því að ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, hefur gefið merki um að hann vilji eiga við mig orðastað þá langar mig til að gefa upp boltann. Ég hefði viljað sjá Framsóknarflokkinn kveða fastar að orði með það til að minnka áhættu í kerfinu að við ættum að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

Á heildina litið líst mér ákaflega vel á þetta. Ég sé að mörg þessara atriða og kannski flest þeirra ganga algerlega saman við stefnu okkar sjálfstæðismanna. Ljóst er að ef við keyrum saman stefnu þessara flokka og ef þannig mundi vilja til að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn yrðu saman í ríkisstjórn eftir kosningar þá yrði það mikið kærleiksheimili.