Staða mála á Landspítalanum

Mánudaginn 24. september 2012, kl. 16:02:10 (0)


141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[16:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir voru alveg föst í gamla tímanum varðandi það hvernig staðan hafi verið hér fyrir nokkrum árum. Ég er gagnrýndur fyrir að tala um að auðvelt sé að leysa þetta mál. Ég vitna þar í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á þingi síðastliðið vor. Hæstv. ráðherra kaus að svara ekki spurningum mínum um það hvort hann hefði orðið undir við vinnslu hennar, eða hvort það var viljandi sem ekkert var sett inn í heilbrigðiskerfið í þeirri fjárfestingaráætlun. Hæstv. ráðherra vísar því nú til þingsins á þeirri forsendu. Það mætti til dæmis hætta við stofnun á grænum fjárfestingarsjóði samkvæmt áætluninni á næsta ári til að leysa bráðavandann, það eru 1.000 millj. kr. Svo mætti hætta við náttúruminjasafnssýningu og grænkun fyrirtækja samtals upp á 1 milljarð til að bæta um betur. Ég spyr um forgangsröðunina. Ég spyr ráðherra hvort hann sé sáttur við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar þessi brýnu málefni liggja undir.

Fyrrverandi yfirlæknir Landspítalans telur að tækjamál séu orðin helsti veikleiki spítalans. Forstjóri hans orðar það svo að Landspítalinn sé kominn í gjaldþrot hvað tækjakaup varðar. Ólafur Baldursson lækningaforstjóri sagði í viðtali um daginn að skurðlæknir nokkur, sem stóð til að kæmi til Íslands að vinna, hikaði við að koma vegna þess að nýjustu tæki væru ekki til staðar.

Starfsfólkið spyr sig áleitinna og krefjandi spurninga. Í skrifum um þau mál hefur komið fram að þar læknar fólk og líknar, þar er mjög hæft dýrmætt starfsfólk. Kraftaverk lítur dagsins ljós á hverjum degi. En stundum verða starfsmennirnir að játa sig sigraða og sætta sig við orðinn hlut. Þannig er lífið á sjúkrahúsi. Eftir standa spurningarnar: Hvernig á að reka sjúkrahús sem veitir svona mikilvæga og dýra þjónustu fyrir æ minni fjármuni? Hvernig á að tryggja öryggi sjúklinga á yfirfullum deildum? Hvernig á starfsfólkið að stuðla að framþróun (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustunnar?

Það verður að leita allra leiða í þessu. Það verður að vera sameiginlegt átak okkar allra að vinda ofan af þessu og augljóst er að breyta þarf þeirri fjárfestingaráætlun og þeim áherslum sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur sett fram og gera eitthvað skynsamlegra, til dæmis að nota fjármunina í það sem við ræðum hér um.