Skattar og gjöld

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 17:15:34 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessar breytingar hafa allar verið bornar saman við það sem gerist í öðrum löndum og ég geri ráð fyrir að tvísköttunarsamningar séu þarna undir þó að ég hafi ekki sjálf unnið þessar tillögur. Sérfræðingar ráðuneytisins unnu þær og þarna undir eru tvísköttunarsamningar sem Ísland er aðili að. Einnig er EES-samningurinn undir þegar það á við.

Hv. þingmaður talar um gjöf. Það má auðvitað túlka það þannig í einhverjum tilfellum en það sem hér er lagt til varðandi vaxtabætur er svipað og var gert þegar endurmatið var gert hér áður. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt var hann að fjalla um það. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd ígrundi þetta allt saman, kalli til sín sérfræðingana og fari betur yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi hér og ég hef ekki getað svarað nægilega vel.