Sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 25. september 2012, kl. 17:49:04 (0)


141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[17:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er endurflutt í megindráttum frumvarp frá síðasta ári um heimild til ráðherra til að selja hluti í fjármálafyrirtækjum. Eins og segir í umsögn um frumvarpið er meginmarkmið þess að veita fjármálaráðherra almennar heimildir til að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum að ákveðnu marki og að undangengnu því ferli sem frumvarpið mælir fyrir um.

Það er mjög athyglisvert að verða vitni að umræðunni um þetta mál. Manni finnst að maður sé bara kominn aftur til áranna 2005, 2006 og 2007 þegar einkavæðingin tröllreið samfélaginu og við súpum nú seyðið af. Nú segir hv. þm. Pétur H. Blöndal, einn harðasti talsmaður einkavæðingar á Íslandi, a.m.k. hér í þingsölum og er það af fullri sannfæringu og einurð sem ég ber virðingu fyrir, að þetta frumvarp sé mjög gott og hann sé sammála því. Það eina sem hann finnur að er að það mætti ganga enn þá lengra, en hann er mjög sammála þeirri stefnu sem þarna er mörkuð um að selja þessa hluti. Ætti það eitt og sér ekki að vera nóg til að klingja viðvörunarbjöllum um það á hvaða vegferð við erum í þessu máli?

Ég vil vitna til ræðunnar áðan þar sem sagt var að þetta væri ekki alveg eins og einkavæðingin hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar en vitnað til mjög sterks skyldleika. Ég skal segja það í upphafi að þetta mál kom líka fyrir ríkisstjórn á meðan ég átti þar sæti og þá gerði ég athugasemdir við það. Ég samþykkti ekki sölu á hlut í Landsbankanum og einnig gerði ég fyrirvara um aðkomu að sölu í öðrum eignum fjármálafyrirtækja. Sá fyrirvari minn stendur enn og afstaða mín í þessu máli hefur ekki breyst, ég styð ekki þessa sölu og að minnsta kosti ekki á Landsbankanum.

Ég vil fara örfáum orðum um þetta. Í frumvarpinu er veitt mjög almenn heimild. Hér hefur verið vakin athygli á því að ekki er um dreifða eignasölu að ræða og ekki gerð tillaga um dreifða eignaraðild. Það skiptir svo sem ekki meginmáli en engu að síður hefur það verið stefnan. Það var meðal annars gagnrýnt við sölu á bönkunum á sínum tíma að þá hafi þetta markmið um dreifða eignaraðild verið sett en því ekki fylgt.

Þá vil ég líka benda á að fjármálafyrirtækjunum, bönkunum, hefur ekki verið sett almenn umgjörð, t.d. það meginatriði að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það er tillaga sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt ítrekað, ég held að við höfum flutt hana fyrst líklega árið 2003. Ég vísa einnig til tillögu frá mér og hæstv. núverandi ráðherra Ögmundi Jónassyni um að þetta yrði gert. Þetta hefur verið eitt af skilyrðum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett í ályktunum sínum. Við höfum talið að strax hefði átt að gera það að skilyrði að skipta bönkunum upp í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka áður en farið var í endureinkavæðingu á þeim. Enn er það mál að væflast fyrir mönnum.

Ég ýtti á að þessu yrði komið til framkvæmda þegar ég var í ríkisstjórn en alltaf tókst mönnum að víkja sér undan því að koma því á framkvæmdastig. Ég tel mjög varasamt að fara þessa leið núna, við erum komin í nánast sama farið og við vorum í á sínum tíma við einkavæðingu á bönkunum, án þess að vera búin að setja þeim ytri skilyrði eins og til dæmis að skipta þeim upp í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Þetta er eitt af almennu atriðunum.

Einnig hefur ekki verið sett fram skýr sýn um skipan fjármálaþjónustu í landinu, hvorki varðandi bankana né sparisjóðina. Ég vil sérstaklega nefna sparisjóðina. Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að standa vörð um sparisjóðakerfið og gefa því tækifæri á ný. Einstaka sparisjóðir fóru offari eins og bankarnir en aðrir sparisjóðir gerðu það ekki. Það þarf pólitískan vilja til að standa vörð um sparisjóðakerfið og það gerum við ekki með því að opna almenna söluheimild ríkisins á hlutum í sparisjóðunum. Við verðum að skoða það í samhengi og í samhengi við þá pólitísku yfirlýsingu sem hefur verið gefin í þeim efnum.

Þeir sparisjóðir sem ríkið á beinan hlut í eru taldir upp í frumvarpinu. Mig minnir að búið hafi verið að selja Sparisjóð Svarfdæla Landsbankanum. Ef ég man rétt gekk sú sala til baka, er það ekki rétt, hæstv. fjármálaráðherra? Frumvarpið hefur þá ekki verið leiðrétt miðað við þá stöðu, hér er sagt að búið sé að selja hann. Það skiptir máli hvernig sparisjóðirnir eru varðir. Ég er ekki sammála því að setja þá bara á almennan sölulista eða opna almenna söluheimild eins og hér er gert.

Það verður líka að minna á að Arion banki á meiri hluta í Sparisjóðnum Afli sem er sameinaður sparisjóður í Skagafirði og Siglufirði. Hann eignaðist sjóðinn í gegnum yfirtöku á Sparisjóði Mýrasýslu. Arion banki hefur haft áform um að kaupa hann eða leysa hann allan til sín og það stofnfé sem aðrir stofnfjáreigendur eiga, og leggja Sparisjóðinn Afl niður sem slíkan. Ef þau áform ganga eftir er erfitt að sjá hvernig sparisjóðakerfið stendur að öðru leyti. Ég tel að ríkið, kannski í gegnum eignarhlut sinn í Arion banka, ætti að taka upp viðræður, eins og var lofað að gera fyrir einum, tveimur árum þegar þetta var í gangi, um að ríkið leysi til sín hlut Arion banka í Sparisjóðnum Afli.

Þá ber og að geta þess að það er mjög óvíst með eiginfjárstöðu sparisjóðanna og einnig bankanna. Það er enn þá óuppgert hver verður dómsniðurstaða vegna gengistryggðra lána sem sparisjóðirnir bera og reyndar bankarnir líka. Áhættan er að vísu nokkur en falli sá dómur sparisjóðunum sérstaklega í vil þýðir það að eigið fé þeirra getur margfaldast og orðið mjög mikið og þeir orðið sterkar fjármálastofnanir. Þess vegna er að mínu mati alls ekki tímabært að ganga til sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum og á ekki að gera án þess að fyrir liggi skýr stefnumörkun og hvernig menn ætla að fylgja henni. Eitt er að marka stefnu og annað að fylgja henni ekki eftir og láta markaðinn ráða hvernig til tekst.

Þá vil ég að lokum víkja að Landsbankanum. Ég minnist þess þegar við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs börðumst gegn hinni gegndarlausu einkavæðingu og markaðsvæðingu á öllum sköpuðum hlutum á árunum eftir 2000. Þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru settir á torg og seldir eins og menn muna var það fyrst gert þannig að minni hluti var settur til sölu og sagt: Þetta er allt í lagi, ríkið á ráðandi hlut og allt í lagi að selja hluta. Einum eða tveimur árum seinna var búið að selja allt saman. Nákvæmlega það sama gerðist með sölu á Landssímanum, svo dæmi sé tekið, þá sögðust stjórnvöld fyrst bara ætla að selja pínulítið og síðan var allt selt.

Ég er nákvæmlega sömu skoðunar nú og þegar verið var að einkavæða Búnaðarbankann og Landsbankann á sínum tíma og er kannski enn sannfærðari nú en þá um að ríkið eigi að eiga eina sterka bankastofnun til að geta staðið vörð um öfluga banka- og fjármálaþjónustu í landinu. Þá á líka að setja kvaðir á viðkomandi stofnun. Ég hef áður sagt í ræðustól að mér finnst að setja eigi Landsbankanum miklu skýrari kvaðir um þjónustuskyldur við íbúa landsins. Það var afar dapurlegt að verða vitni að því að Landsbankinn, samtímis því sem hann gerði ráð fyrir miklum hagnaði og arðgreiðslum, hafði ekki efni á því að reka þjónustuútibú í Súðavík eða Grundarfirði eða öðrum stöðum vítt og breitt um landið. Þeim var lokað á dögunum. Það var mjög kostulegt í því sambandi að heyra yfirlýsingar um að sparisjóðirnir gætu bara tekið við þessari þjónustu, það væri miklu nær.

Það er gott og vel en þá þarf að tryggja líka stöðu sparisjóðanna. Það er ekki gert í þessu frumvarpi, síður en svo, heldur er það nálgast út frá því að þeir séu til sölu án þess að því fylgi hrein og klár markmiðsyfirlýsing um það hvernig við viljum hafa sparisjóðakerfið. Ég vil hafa sterkt sparisjóðakerfi þar sem er staðbundin fjármálaþjónusta. Ég vil líka hafa einn sterkan þjóðbanka og það er Landsbankinn nú þótt hann sé ekki nema að rúmlega 80% í eigu ríkisins. Það á ekki að höggva í þann hluta með því að bjóða nú til sölu 10% og svo verði aftur boðin til sölu 10% á næsta ári o.s.frv. Við eigum að sjá til þess að hér sé einn öflugur þjóðbanki. Við eigum ekki að selja fjármálafyrirtæki án þess að vera búin að sjá fyrir afleiðingarnar, án þess að vera búin að skapa þá umgjörð sem við viljum hafa utan um fjármálaþjónustu í landinu að loknu hruni. Það er afleitt að fara aftur að því er virðist í nákvæmlega sömu sporin og voru gengin í einkavæðingu á allri þjónustu á árunum fyrir hrunið. Við eigum að varast þau víti og þess vegna tel ég alls ekki tímabært að selja þessa eignarhluti á þennan hátt.

Ég get því tekið undir orð hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sem sagði að þetta snerist ekki bara um kaup og sölu á hlutum og frumvarpið ætti ekki einungis að fara fyrir fjárlaganefnd. Þetta er hluti af skipulagi fjármálaþjónustu í landinu, dreifðri þjónustu, öflugri þjónustu óháð búsetu hvar sem er o.s.frv. Þess vegna á frumvarpið að fá meðferð í samræmi við það og ganga líka til efnahags- og viðskiptanefndar.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt um þetta frumvarp. Ég styð ekki sölu á hlut í Landsbankanum og tel að skoða eigi hina hlutina alla sem hluta af heild, fjármálaþjónustunni í heild. Ekki síst eigi núna, áður en hreyft er við nokkru, að setja ramma, tryggja aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka og tryggja einnig stöðu sparisjóðanna en setja þá ekki á sölulista eins og hér er gert ráð fyrir.