Umræður um störf þingsins 26. september

Miðvikudaginn 26. september 2012, kl. 15:09:30 (0)


141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því og vil vekja athygli á að í gær var opnaður vefur sem heitir thjodaratkvaedi.is og að nú er kominn út kynningarbæklingur sá sem Alþingi gefur út til að fólk geti búið sig undir hin merku tímamót sem verða 20. október þegar fólkið í landinu getur greitt atkvæði um það hvort það vilji að frumvarp sem lagt verður fram á Alþingi um breytingar á nýrri stjórnarskrá verði byggt á tillögum stjórnlagaráðs.

Þetta eru tímamót og vissulega hafa margir allt á hornum sér varðandi þá aðferð sem hér er notuð, en ég held að það sé vegna þess að í gegnum árin hefur orðið til í landinu hópur fólks sem telur sig einhverra hluta vegna betur til þess fallinn að ráða ráðum okkar og hafa vit fyrir okkur en við getum gert öll í sameiningu — eins og við gerum 20. október. Vel má vera að fólk hafi þessar hugmyndir vegna embætta sinna, starfa eða einhverra annarra eiginleika sem það telur sig hafa í meira mæli en annað fólk. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt í kjölfar þeirra þjóðfélagslegu hamfara sem við höfum gengið í gegnum að hrista ærlega upp í þessum valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Nú er tækifærið fyrir fólk að sýna hug sinn til tillagnanna sem stjórnlagaráðið leggur til sem byggðar eru á tillögum þjóðfundarins sem 950 manns tóku þátt í. Allt fólk hefur nú tækifæri, ekki einungis einhverjir útvaldir og sjálfskipaðir.

Spurningarnar fimm sem fylgja meginspurningunni fela í sér mjög róttækar breytingar á stjórnarháttum okkar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður því hvort þessar róttæku breytingar verða lagðar fram í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi um breytingu á stjórnarskrá. Þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) segja hug sinn, þeir sem ekki mæta láta aðra ákveða fyrir sig. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)